Tilhögun þingfundar og dagskrá
Föstudaginn 12. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Fundahald í dag verður með þeim hætti að nú hefst umræða utan dagskrár sem leyfð hefur verið um hið alvarlega ástand sem nú ríkir í kjaradeilu BHMR og ríkisins að beiðni hv. 6. þm. Reykv. Umræðan er leyfð samkvæmt fyrri málsl. 32. gr. laga um þingsköp og eru því ekki tímamörk á ræðutíma. Um það hefur þó verið lauslega samið að reynt verði að miða við að umræða þessi standi ekki lengur en 2 1 / 2 --3 klukkutíma, þar sem enn er ólokið umræðu sem hér fór fram í gær um málefni Sigló hf. og forseti vill mælast til að reynt verði að miða að þessu, en að sjálfsögðu er forseti ekki þar með að hefta málfrelsi manna. Þessi beiðni er einungis borin fram með tilliti til þess hversu mjög er nú liðið á þingtíma og mörg verkefni fram undan.