Tilhögun þingfundar og dagskrá
Föstudaginn 12. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti hefur farið fram á það við þingflokka að þær kosningar geti farið fram á þessum degi, en einmitt með tilliti til þess sem hv. 2. þm. Reykv. hefur rétt sagt að vissulega er búið að ganga freklega á þann tíma sem ákveðinn hafði verið fyrir þá umræðu sem hv. 6. þm. Reykv. hafði beðið um. Þess vegna telur forseti rétt að bíða með kosningu og ganga nú þegar til utandagskrárumræðu. Varðandi þessar 40 mínútur, sem vissulega hafa farið umfram þann tíma sem lofað hafði verið, en munu að sjálfsögðu ekki verða látnar stytta umræðutíma, er það eitt að segja að forsetar þingsins hafa nú hingað til svo lengi sem ég hef átt sæti á þingi reynt að hliðra til hver fyrir öðrum eftir því sem mál þurftu fram að ganga og hygg ég að hv. 2. þm. Reykn. kannist við mörg dæmi þess. Ég harma þetta. En ég vil taka það fram að hæstv. forseti Nd. tók þennan tíma að höfðu samráði við forseta Sþ.