Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestssson):
    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykv. lagði fyrir mig fjórar spurningar varðandi þá kjaradeilu sem nú stendur yfir og ég mun leitast við að svara þeim eins og ég get, tek það þó fram að sumar þeirra eru með þeim hætti að það er ekki á mínu færi á þessari stundu að gefa við þeim tæmandi svör.
    Fyrst er spurt að því hvernig menntmrh. hyggist bregðast við vanda framhaldsskólanema og kennara vegna þeirrar vinnudeilu sem hefur núna staðið yfir í um það bil 5--6 vikur. Ég ætla aðeins að fara yfir skólastigin og ekki halda mig eingöngu við framhaldsskólana vegna þess að þessi deila er mikið víðar.
    Í grunnskólunum háttar þannig til að félagsmenn í Kennarasambandi Íslands bera ábyrgð á kennslu verulegs hluta þessara skóla þannig að kennslu á þessu skólaári er unnt að ljúka með venjulegum hætti með því að þessir kennarar ganga frá grunnskólaprófskírteinum svo sem verið hefur og þar með er í raun og veru hægt að segja að þessir skólar séu að nokkru leyti fyrir utan áhrif hinna hörðu verkfallsátaka. Í verulegum hluta grunnskólans háttar hins vegar þannig til að þar eru starfandi félagsmenn úr Hinu íslenska kennarafélagi sem hafa átt í vinnudeilu við ríkið nú um nokkurt skeið. Það er augljóst mál að þessum grunnskólum verður ekki unnt að ljúka að fullu fyrr en verkfallið er leyst, fyrr en gerðir hafa verið samningar. Þýðir það þá að þessir skólar muni starfa jafnvel fram eftir öllum þessum mánuði og lengur en venjulega, jafnvel fram eftir næsta mánuði hafi verkfallið ekki verið leyst fyrir þann tíma? Mitt svar er þetta: Ákvörðun um lok þessara skóla á þessu vori verður að vera á ábyrgð viðkomandi skólastjóra en það er hins vegar ljóst að starfi þessara skóla verður ekki að fullu lokið fyrr en HÍK-kennararnir eru komnir til verka. Það er ekki hægt að ganga frá grunnskólaskírteinum skv. 59. gr. grunnskólalaga fyrr en þessir kennarar eru komnir til verka.
    Þá kem ég að mótum grunnskólans og framhaldsskólans, spurningunni um það hvernig er þá hægt að halda á málum þeirra nemenda sem ljúka 9. bekk við innritun í framhaldsskóla? Samkvæmt lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru á Alþingi í fyrra eiga allir rétt á því að fara inn í framhaldsskóla sem lokið hafa níu ára grunnskólanámi. Samkvæmt sömu lögum er það hlutverk skólameistara framhaldsskólanna að annast innritun í framhaldsskólana. Það er því ljóst að á grundvelli upplýsinga skólastjóra grunnskólanna um það að þessir nemendur hafi verið í níu ár í framhaldsskóla er unnt að telja þær óskir sem koma fram um skólavist í framhaldsskólunum gildar án þess að í því felist endanleg innritun vegna þess að innritun er ekki hægt að ljúka fyrr en áfangastjórar eru mættir á staðinn og aðrir slíkir ábyrgðarmenn úr kennaraliði til þess að deila niður skólastarfi næsta vetrar.
    Varðandi hins vegar framhaldsskólann að öðru leyti, þá er alveg augljóst mál að við erum komin þar

að þeim punkti að verulegrar óþolinmæði gætir, bæði meðal nemenda og kennara og aðstandenda nemenda. Og það er augljóst mál að ráðuneyti menntamála getur ekki við þessar aðstæður látið þar við sitja að segja: Við hinkrum eftir samningsniðurstöðunni. Ráðuneytið verður að segja í viðbót við það þetta: Skólameistarar framhaldsskólanna verða að taka ákvörðun um það hvenær þeir telja fært að sleppa millibekkjafólkinu út úr framhaldsskólunum á þessu vori með fyrirvara um skólastarf í haust áður en skólastarfið hefst fyrir árið 1989--1990. Það er óhjákvæmilegur hlutur að þetta gerist núna áður en langur tími líður. Ef deilan er jafnklossföst og hún hefur virst vera undanfarna sólarhringa, þá neyðist menntmrn. til að taka ákvörðun af þessu tagi sem felst í því að leggja ákvörðun um skólalok að því er þetta fólk varðar á herðar skólameistara og skólastjóra.
    Varðandi þá nemendur sem eiga að útskrifast úr framhaldsskólunum er augljóst mál að það er ekki hægt að ganga þar frá neinu öðruvísi en að verkfallinu ljúki.
    Og í fjórðu spurningunni spyr hv. þm. um próflaus skólalok. Ég veit ekki hvaðan hv. þm. hefur það að menntmrh. sé að bjóða fólki upp á próflaus skólalok. ( GA: Ég sagði það ekki.) Það stendur hér í spurningunni, hv. þm. Það eru engar hugmyndir uppi um það í menntmrn. að bjóða nemendum upp á próflaus skólalok. ( GA: Ég sagði, ef ...) Já, það er sagt: ef hann býður upp á próflaus skólalok. En það er verið að gefa það í skyn að það standi jafnvel til og það stendur ekki til. Staðan er ósköp einfaldlega sú að Hið íslenska kennarafélag er í verkfalli og það verður engum prófum lokið í framhaldsskólanum þar sem þetta fólk hefur unnið fyrr en kjaradeilunni lýkur, samningar hafa tekist og menn geta farið í skólastarf á ný. Þannig liggur það. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að dragist deilan enn á langinn, þá getur staðan verið þannig að forráðamenn þessara skóla, skólameistarar, telji sig knúna til þess að ákveða lokadag á skólastarfi þessa vors vegna þess að það er ekki hægt að halda fólki svo að segja verklausu eða verklitlu við skólann fram eftir öllu vori. Margt af þessu fólki á framhaldsnám sitt undir því að það geti komist í vinnu í sumar, hefur ráðið sig í störf í sumar og það verður líka að taka tillit til þess.
    Hins vegar er það þannig að samkvæmt lögum um Háskóla Íslands er honum heimilt að innrita fólk eða skrá í Háskólann á grundvelli stúdentsprófs eða sambærilegrar menntunar og það getur Háskólinn út af fyrir sig gert ef hann fær upplýsingar frá framhaldsskólanum um þá sem hafa rétt til þess á þessu vori að þreyta stúdentspróf. Háskólinn getur hins vegar ekki né heldur Tækniskólinn og Kennaraháskólinn gengið frá þessari innritun fyrr en verkfallinu er lokið og samningar hafa tekist.
    Þannig hef ég, virðulegur forseti, reynt að fara yfir skólastigin öll og segja síðan frá því. Ég hef átt undanfarna sólarhringa viðræður við fulltrúa skólameistara, reyndar alla skólameistara

framhaldsskólanna. Ég hef rætt við Félag skólastjóra og yfirkennara grunnskólans. Ég hef rætt við fulltrúa HÍK og ég hef rætt við fulltrúa Kennarasambands Íslands. Ég hef rætt við fulltrúa Félags framhaldsskólanema og Félags öldungadeildarnema. Og það er alveg ljóst að í þeirri stöðu sem nú er uppi treysta kennarasamtökin sér út af fyrir sig ekki í samráð við menntmrn. á þessu stigi eins og við er að búast miðað við það hvernig aðstæður eru. En það er alveg ljóst, og það er best að það komi þá fram hér í þessum sal líka, að þessi hópur er ekki, hvorki nemendur, skólameistarar, skólastjórar né yfirkennarar, að krefjast þess að sett verði lög sem banna verkfall kennara. Það er alveg augljóst mál. Og það er nauðsynlegt að það sé alveg skýrt í þessum sal. Til viðbótar við þau svör sem væri auðvitað fróðlegt að fá að heyra við þeim spurningum sem fjmrh. lagði fram hér áðan, þá er alveg nauðsynlegt að það sé á hreinu. Menn vilja virða verkfallsréttinn, fólk getur neitað að selja vinnuafl sitt ef það telur verðið á því ekki nægilega gott og getur þess vegna verið í verkfalli þangað til semst. Séu einhverjar raddir hér í þingsalnum um það að það eigi að höggva á þessa deilu, eins og það er stundum kallað, með lögþvingunum, þá skora ég á þá hina sömu að gefa sig fram. Ég skora á þá hina sömu að gefa sig fram. En það var alveg augljóst mál að í hópi þeirra viðræðuaðila sem við töluðum við núna á dögunum voru engar hugmyndir uppi um það. Þvert á móti lögðu allir þessir aðilar áherslu á að menn yrðu að komast frá þessum deilum á grundvelli samnings. Og auðvitað hlýtur menntmrn. að haga sínum ákvörðunum með hliðsjón af því og þeirri vinnudeilu sem stendur yfir. Ég vænti þess að ég hafi þá leitast við að svara fyrstu spurningu.
    Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir spurði í öðru lagi: Hvernig hyggst menntmrh. tryggja hæfa kennara í skólana til þess að hrinda áformum sínum í framkvæmd? Um það gæti ég satt að segja talað nokkuð langt mál hér. Ég ætla þó aðeins að nefna eitt atriði sem ég hef í seinni tíð sannfærst um að er sennilega mikilvægara en flest önnur og það er að það takist að gera í senn samning um skólaþróun og kennarakjör til lengri tíma við öll samtök kennara í einu. Ég gæti hugsað mér að sjá slíkan samning til langs tíma og ég er viss um að nemendur og kennarar og skólastjórnendur vildu gjarnan sjá slíkan samning gerðan líka. Ég held að reynslan af yfirstandandi vinnudeilu, þráteflið, erfiðleikarnir sem upp hafa komið aftur og aftur sýni okkur að það væri best ef hægt væri að standa svona að málum. Og ég sagði kennarakjör og skólaþróun vegna þess að þessir þættir eru samtvinnaðir með órjúfanlegum hætti.
    Hv. þm. spyr mig síðan: Óttast menntmrh. atgervisflótta úr kennarastéttinni? Og ég segi auðvitað já. Auðvitað er það svo. Auðvitað gerum við það miðað við þessar aðstæður, miðað við endurtekin kjaraátök ár eftir ár, miðað við langt verkfall núna í vor, miðað við þá stöðu sem upp getur komið ef þessi vinnudeila þarf að þróast mikið lengur. Auðvitað óttast

ég það. Auðvitað er það 100% ljóst, og það er kannski í sjálfu sér ástæðulaust að spyrja menn spurninga af þessu tagi því að mér finnst að svarið liggi alveg í augum uppi og það væri meira en lítið skotheldur og tilfinningalaus einstaklingur sem svaraði þessari spurningu ekki hiklaust með jái. Það geri ég og ég skammast mín ekkert fyrir að segja það: Ég óttast þennan atgervisflótta, ég er hræddur við hann, fyrir hönd skólanna, fyrir hönd barnanna og unglinganna, fyrir hönd framtíðarinnar í þessu landi.
    Í fjórða lagi spyr hv. 6. þm. Reykv.: Telur menntmrh. sig vera að brjóta eða vinna gegn verkfalli kennara ef hann býður nemendum upp á próflaus skólalok, t.d. aðgangi að Háskóla Íslands? Ég tel mig hafa svarað þessari spurningu og það er heldur ekki þannig að menntamálaráðherrann bjóði upp á þetta og að hann innriti í Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun og getur tekið sínar tilteknu ákvarðanir í þeim efnum, byggt á lögum, þannig að hvað sem gerist í deilunni mun ég aldrei setjast við að innrita nemendur í skóla, enda er engin lausn á þessari deilu til nema ein. Hún er sú að það verði samið og það strax og menn rífi sig upp úr þrasinu, kerfisflækjunum og þrasinu, og reyni að finna lausn á öðrum vettvangi en þeim sem menn hafa aðallega verið að pexa um hér síðustu sex vikurnar.