Kjaradeila BHMR og ríkisins
Föstudaginn 12. maí 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. bar fram tvær spurningar til Kvennalistans áðan, að sýnu nokkuð furðulegur en krafðist þó svara. Það væri að vísu freistandi að fara aðeins í forsögu þessa máls og feta sig fram að þeim tíma þegar hann stendur svo hér og spyr Kvennalistann spurninga sem hann getur ekki svarað sjálfur, en sökum tímans ætla ég nú að stilla mig um að fara ofan í það mál og snúa mér beint að spurningunum. Ég náði þeim að vísu ekki alveg orðrétt en innihaldið var eitthvað á þessa leið: Hver er sú launahækkun í krónutölu sem Kvennalistinn álítur að BHMR-fólk eigi að fá umfram aðra? Er það ekki rétt? ( Fjmrh.: Nei, nei. Hv. þm. hefur ekki hlustað grannt.) Jú, ég gerði það. Ég bara náði þessu ekki niður. ( Fjmrh.: Umfram það sem samið var um við BSRB og ASÍ.) Umfram það sem samið var um, já. Ekki var nú munurinn mikill. Umfram aðra, eða umfram það sem BSRB og ASÍ sömdu um, ekki rétt?
    Auðvitað getur Kvennalistinn ekki svarað spurningu sem þessari í krónu- eða prósentutölum, þeirri spurningu hvað BHMR eigi að fá umfram aðra. Slíkt ræðst við samningaborð, í þjóðfélagi þar sem frjáls samningsréttur ríkir, a.m.k. öðru hvoru. ( Fjmrh.: Hvað teldi Kvennalistinn vera eðlilegt? Þannig var spurningin.) Má ég halda áfram? Hvað teldi Kvennalistinn eðlilegt? Já. ( Forseti: Má ég biðja hæstv. fjmrh. og hv. þm. að hætta samræðum og halda sig við efnið. Það er hv. 18. þm. Reyvk. sem hefur orðið í augnablikinu.)
    Það er frumskilyrði að ríkisvaldið viðurkenni réttmæti þeirrar kröfu fólks í BHMR að því beri laun sem séu sambærileg við laun fyrir önnur svipuð störf þar sem svipaðrar menntunar og ábyrgðar er krafist og á hinum almenna vinnumarkaði. Þar verður að mætast og þar liggur svarið. En hvernig og hvenær því marki verður náð er samningsatriði og sömuleiðis krónu- og prósentutölur.
    Það er í sjálfu sér furðuleg afstaða ríkisvalds að allir launþegar verði að hlíta sömu eða sams konar samningum. Til hvers erum við þá með verkalýðshreyfingu eða launþegasamtök? Við gætum þá alveg eins sett á einhvers konar gerðardóm sem felldi um það úrskurð hvert ár að nú væri ríkið og atvinnuvegirnir aflögufærir um svo og svo mikið og deildi því jafnt niður. Þetta kann að vera draumsýn einhverra en ef við erum á annað borð að burðast við að vera lýðræðisþjóð, þá fylgir sá böggull skammrifi að frjáls samningsréttur er einn af hornsteinum þess. Og í því felst ekki einungis réttur til að semja um kaup og kjör hverju sinni og það í samræmi við það sem yfirvöld hafa ákveðið hverju sinni, heldur líka réttur til að efast um að tekjuskipting sé rétt og að jafnaðar sé leitað, jafnvel réttur til að krefjast breyttrar tekjuskiptingar, breyttrar forgangsraðar og breytts verðmætamats, t.d. þegar að því kemur að meta störf til launa.
    Eins og ég sagði áðan er frumskilyrði að ríkisvaldið viðurkenni réttmæta kröfu BHMR hvað varðar viðmiðun við almennan launamarkað. Ef það

verður ekki gert, þá gerist tvennt, fyrst að ríkisvaldið felli láglaunadóm yfir fjölda manns og festi í sessi láglaunastefnu, og þá gerist hitt að hið opinbera verður ekki samkeppnisfært um starfsfólk. Hvað af því hlýst skyldu allir reyna að hugsa til enda og hafa reyndar margir rakið ýmsar afleiðingar þess hér úr þessum ræðustóli í dag.
    Í spurningum hæstv. fjmrh. felst líka sú samanburðarfræði sem hann hefur óspart notað undanfarið til að etja launafólki saman. Hvað á þessi að fá meira en hinn, eða umorðað, hve miklu merkilegri eða ómerkilegri er einn en annar? Svona spurningar og svör við þeim getur hæstv. fjmrh. dundað sér við sjálfur. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði áðan um samningsrétt og get ekki tekið undir þau sjónarmið að þú sækir einungis rétt á kostnað annars og að sigur eins sé endilega ósigur annars. Ef BHMR nær betri samningum en BSRB eða ASÍ hlýtur það einungis að verða láglaunafólki innan þeirra samtaka hvatning til að sækja betri hlut næst.
    Það er skammgóður vermir að reyna að láta eins og langskólagengið fólk sé höfuðóvinur láglaunafólks í landinu, sérstaklega þess sem ekki er skólagengið og sérstaklega þess sem er kvenkyns, ég tala nú ekki um ef það á afkvæmi. Þó að fólki geti förlast sýn í bili þegar tilfinningaöldur rísa hátt, eins og nú er, átta menn sig um síðir. Margur langskólagenginn maðurinn er af láglaunafólki kominn og margur af svokölluðu ómenntuðu fólki kominn og veit því ýmislegt um kjör þess. Og mörg Sóknarkonan á eflaust þann draum að börn hennar fái góða menntun og vill í raun ekki að til þessarar menntunar sé sparað. Verkamaður vill eflaust fá góða umönnun ef veikindi ber að höndum. Ætli það sé ekki fleira sem sameinar en sundrar þegar að er gáð, líka hvað varðar kaup og kjör? Hálaunafólk skulum við ekki nefna í sömu andrá og rætt er um BHMR, við skulum leita að því annars staðar, og við skulum líka muna, áður en búnar eru til óvinaímyndir og alið á þeim, að vond kjör einnar stéttar afsaka ekki ill kjör annarrar. Ef leita þarf óvinar er betra að hann sé raunverulegur og sameiginlegur.
    Einföld svör við þeim spurningum sem hæstv. fjmrh. bar fram til Kvennalistans eru ekki til og finnast með því einu móti að leita þeirra og leita þeirra sameiginlega. Í því skyni á ég þó eitt ráð til hæstv. fjmrh. ef
hann vill nýta sér það og það er að læra af reynslu, þeirri reynslu sem hann hefur þegar fengið. Það er aldrei of seint að læra af reynslu.
    Við kvennalistakonur höfum ástundað það í eigin röðum að leita alltaf fremur að því sem sameinar en sundrar. Það er í rauninni hornsteinn tilveru okkar sem stjórnmálahreyfingar að byggja á því. Því hlýtur það að vera ráð í þá átt og sú reynsla sem við höfum fram að leggja, en það er að leitast við að leggja til hliðar það sem sundrar og finna þá punkta sem eru sameiginlegir, finna sameiginleg markmið, byrja þar og feta sig svo eftir þeirri leið og sigrast á hverri hindrun eftir því sem hana ber að. Þegar steytir á steini, að athuga þá hvort ekki leynist eitthvað í

ágreiningsmálinu sem finna má samstöðu um og byrja á ný þar sem frá var horfið. Svona má taka á öllum þáttum málsins uns viðunandi niðurstaða er fengin. Þessi aðferð virkar oft eins og þegar steini er hent í vatn. Hringirnir sem breiðast út frá miðju yfir vatnsflötinn stækka sífellt og síðan deyja þeir út. Sú þróun byrjar einnig í miðju hringsins og að lokum er vatnsflöturinn sléttur á ný þar til næsta steini er kastað.