Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs var sú að ég hafði beint margvíslegum fyrirspurnum til hæstv. menntmrh. í minni ræðu fyrr og þeim hafði ekki verið svarað með þeim hætti að ég teldi viðunandi. Má kannski segja að hæstv. menntmrh. eigi erfitt með að svara fyrirspurnum sem beinast beint að skólahaldinu, eins mikil óvissa og nú ríkir í þeim efnum.
    Ég vissi satt að segja ekki hvernig átti að skilja hæstv. fjmrh. þegar hann hélt því fram í hálfheilögu viðtali í helgarblaði Morgunblaðsins að ríkisstjórnin hefði náð fram öllum helstu markmiðum sínum nú á þessum vetri í þessu þríheilaga viðtali. Að ríkisstjórnin hefði náð fram öllum sínum helstu markmiðum og í stórum dráttum hefði starf ríkisstjórnarinnar gengið upp og ekki að sjá að honum fyndist þar nokkur skuggi falla á.
    Öðruvísi var hljóðið í bónda einum fátækum sem ég talaði við og hefur kostað börn sín til mennta, en nú brá svo við að hann fékk son sinn sendan heim fyrir nokkrum vikum og gat hann ekki lokið námi. Þessi bóndi spurði mig þessarar spurningar: ,,Hver á að greiða fjárhagslegt tjón sem unglingar verða fyrir þegar þeir hafa eytt heilum vetri í skólanum og geta síðan ekki lokið sínu námi? Hverjir eiga að bera ábyrgð á þessu tjóni?`` Þetta er auðvitað mikil spurning og í rauninni ekki neitt svar því að sagt er af einstökum ráðherrum að samningsrétturinn sé heilagur og ekki megi grípa inn í og hver maður verði að bera og axla þá ábyrgð sem á honum hvílir.
    Hæstv. menntmrh. var með einhverja undarlega tilburði varðandi gáfnafar í því sambandi sem ég man ekki, en bendi hv. þingdeildarmönnum á að lesa niðurlagið í viðtali menntmrh. við Tímann þar sem hann er að fjalla um gáfnafarið. Það er auðvitað alltaf mikil spurning hvort fari saman góðar gáfur og ábyrgð. Það vill nú vera svona á ýmsa lund. Aðalatriðið held ég að sé, herra forseti, að hæstv. menntmrh. hefur ekki gert sér grein fyrir því annars vegar hvernig hann geti tekið við öllum þeim nemendum sem fara í framhaldsskólana á næsta hausti vegna þess að það varð uppstytta í náminu nú á vordögum og hins vegar hvernig hann ætlar að taka við öllum nemendunum sem geta gengið inn í framhaldsskólann eða af því að hann ætlar sér með þessum lögum að nema á brott þá þröskulda sem höfðu verið. Það á að banna skólameisturum og rektorum að setja einhver skilyrði fyrir því að nemendur geti gengið inn í hvaða deild sem er.
    Nú er það samt þannig ef við förum í Verslunarskólann, þá lýkur þar verslunarprófi í 4. bekk, sem heitir 2. bekkur í sumum skólum. Þetta er sá gamli 4. bekkur þegar reiknað er með að stúdentsprófi ljúki í 6. bekk. Til þess að komast inn í stúdentadeildina í Verslunarskólanum þarf maður að ná 6,5 á verslunarprófi. Felst það í því frv. til laga sem hér liggur fyrir að Verslunarskólinn megi ekki setja slík mörk? Felst það í því frv. sem við erum hér að fjalla um að ekki megi setja neinar skorður við því

hverjir fara í eðlisfræðideild í Menntaskólanum í Reykjavík? Og felst í því frv. sem við erum hér að fjalla um að ef of margir nemendur skyldu sækja um skólavist t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík þannig að þeir rúmist ekki í 1. bekk skólans --- sem hét 3. bekkur þegar ég var þar á sínum tíma og heitir kannski enn --- er þá hugmyndin að setja umsóknirnar í pott og draga síðan þær umsóknir úr blindandi sem eigi kannski rétt á inngöngu í skólann? Eða hver er hugmyndin?
    Ef við ætlum að samþykkja það að engar skorður megi setja við því að unglingar komist í framhaldsskólann og ef við segjum að ekki þurfi neinar einkunnir til þess að gera upp á milli þeirra og ekki megi beita slíkum mælikvarða, þá sé ég ekki annað en það verði að hafa það eins og hjá Hellenum forðum: varpa hlutkesti. Um þetta vil ég spyrja hæstv. menntmrh. um leið og ég minni hann á að skólamenn eru mjög tortryggnir á að þessi breyting sé til bóta.
    Ég lenti í því nú um helgina sem er nú kannski ekki mín uppáhaldsiðja að hjálpa konunni í garðinum, en það létti mér stundir að einn framhaldsskólakennari gekk hjá þannig að ég sá mér færi á því að svíkjast um ofurlitla stund og þá var hann einmitt að tala um fáránleika þess, framhaldsskólakennarinn, að afnema allar hömlur við því að menn gætu gengið sjálfkrafa milli skóla eins og lambfé milli dilka þegar ekki er hlið í réttinni fyrir einstökum dilkum.