Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Samkvæmt lögum sem sett voru í fyrra að undirlagi þáv. ríkisstjórnar með stuðningi stjórnar og stjórnarandstöðu var ákveðið að allir sem verið hefðu níu ár í grunnskóla gætu átt rétt til inngöngu í framhaldsskóla. Þetta stendur í lögunum þannig að þessi ákvörðun hefur verið tekin. En því miður er það alveg rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að undirbúningur í þessum efnum hefur ekki verið nægilega góður og hann tekur mörg ár og langan tíma.
    Meiningin er sú að í stað þess að ákveða mörkin með reglustikuaðferð eins og gert hefur verið fyrir hópa nemenda, þá verði reynt að ákveða mörkin með námsráðgjöf og leiðbeina hverjum og einum nemanda inn í framhaldsskólann og á þær brautir sem best henta viðkomandi nemanda. Þess vegna hefur verið ákveðið að í vor verði í Reykjavík og víðar ráðnir námsráðgjafar til að starfa við innritunina í framhaldsskólana á Reykjavíkursvæðinu í vor.
    Vegna spurningar hv. 2. þm. Norðurl. e. um Menntaskólann í Reykjavík og takmarkanir á aðgöngu í hann, þá er því til að svara að allir framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæðinu, Menntaskólinn í Reykjavík jafnt sem Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Flensborgarskólinn, Menntaskólinn í Kópavogi og aðrir slíkir framhaldsskólar hafa ákveðið að sameinast um innritun í framhaldsskólana á þessu vori. Það þýðir að það pláss sem er til í framhaldsskólum mun nýtast betur næsta vetur en verið hefur. Það hefur verið mjög góð samvinna um þetta efni hjá skólameisturum framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis hjá skólameisturum framhaldsskólanna á Norðurl. e. þar sem er um að ræða fleiri en einn framhaldsskóla.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þessi svör svari spurningum hv. 2. þm. Norðurl. e.