Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki átt þess kost að setja mig rækilega eða vel inn í þetta frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla. Nú eru þingstörf í hámarki og það er mikill annatími hjá þingmönnum í hv. deild þannig að við komumst því miður ekki yfir að setja okkur inn í öll mál, en engu að síður hefði ég viljað fá að taka þátt í þessari umræðu og vildi gjarnan hafa haft meiri tíma til þess að setja mig betur inn í það sem hér er á ferðinni.
    Ég ákvað nú að segja nokkur orð í tilefni af orðum hæstv. menntmrh. þar sem hann lýsti því yfir að það væri í anda laganna að allir þeir sem hafa lokið við 9. bekk grunnskóla skuli eiga rétt á að ganga í framhaldsskóla. Út af fyrir sig er það mjög jákvætt og eðlilegt markmið í sjálfu sér. En mig langar til að vekja athygli á einu sem hefur fylgt í kjölfarið með breyttum framhaldsskóla, þ.e. með þeirri breytingu sem hefur orðið á íslenska skólakerfinu allt frá því að grunnskólalögin tóku gildi. Framhaldsskólinn hefur tekið miklum breytingum þetta tímabil án þess þó að um hann yrðu sett sérstök lög, enda voru framhaldsskólalögin fyrst samþykkt í fyrra ef ég man rétt.
    Það hefur að sjálfsögðu orðið mikil sprenging í skólakerfinu við það að framhaldsskólum hefur fjölgað mjög verulega. Nægir að rifja það upp að þegar ég stundaði sjálfur nám í framhaldsskóla, þá voru framhaldsskólar landsins eingöngu þrír fyrir utan Verslunarskóla Íslands sem að sjálfsögðu hlaut að teljast sem sjálfstæður framhaldsskóli, en hinir hefðbundnu menntaskólar voru þá einungis þrír talsins. Ég hef ekki tölu á öllum þeim framhaldsskólum og öllum þeim skólastofnunum sem nú hafa rétt til þess að útskrifa stúdenta. En mér telst til að þær hljóti að vera orðnar 20--30 talsins ef ekki enn fleiri.
    Það er eitt sem ég hef rekið augun í sem þessi sprenging í framhaldsskólakerfinu hefur valdið. Það er að fjöldi þeirra nemenda sem hyggur á langskólanám hefur farið mjög vaxandi. Því miður virðist framhaldsskólinn ekki hafa sinnt því sem skyldi að leiðbeina nemendum þannig að þeim nemendum sem t.d. vildu leggja áherslu á verknám yrði leiðbeint inn í slíkt nám, heldur virðist vera sú árátta af hálfu framhaldsskólanna að keyra alla nemendur í gegnum eitthvert bóklegt nám og síðan hyggjast allir þessir nemendur stunda háskólanám og knýja dyra hjá Háskóla Íslands á hverju hausti. Þess er skammt að bíða að nálægt allur fæðingarárgangurinn fái sjálfkrafa stúdentspróf og þeim verði talin trú um, þ.e. öllum unglingum þessa lands, að þeir eigi sjálfkrafa heimtingu á því að fá að ljúka einhvers konar háskólanámi. Þá vaknar auðvitað sú spurning: Hverjir eiga þá að sinna þessum venjulegu störfum í þjóðfélaginu þegar allir eru orðnir háskólamenntaðir? Það er sú þróun sem við horfum upp á þessi árin að með því skólakerfi sem við höfum komið okkur upp er nánast öllum ungmennum þessa lands beint í ákveðinn farveg. Þau eru rekin í gegnum bóklegt nám og þeim er nánast gefið í skyn að þau eigi sjálfkrafa

að fara í háskóla og ljúka háskólanámi.
    Ég vil vekja athygli á þessu og vænta þess að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir því að framhaldsskólinn sinni betur verklegu námi en verið hefur.
    Þá er ekki hægt að láta hjá líða að velta aðeins fyrir sér þeirri gífurlegu fjölgun sem hefur orðið á framhaldsskólum og nemendum í framhaldsskólum og tengja hana því kennaraverkfalli sem nú er í gangi. Vonandi fer það nú að leysast. Síðustu fréttir hafa þrátt fyrir allt verið jákvæðar í því tilliti.
    Það er nú sérstaklega b-liður 2. gr. frv. sem vekur athygli mína, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Heimilt er með samþykki Alþingis að víkja frá meginreglum um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga þegar skóli er í fámennu sveitarfélagi og ekki hefur tekist að fá nærliggjandi sveitarfélög til þess að sameinast um byggingu framhaldsskóla.``
    Út af fyrir sig skil ég vel sjónarmið sveitarstjórnarmanna og heimamanna í fámennum byggðarlögum sem vilja koma sér upp framhaldsskólum. Ég hef heyrt einn ágætis sveitarstjórnarmann austan af fjörðum halda því fram að það sé nauðsynlegt að koma upp framhaldsskóla í hans byggðarlagi til þess að ungmennin fari ekki burtu.
    Nú er það ævinlega svo, eða var a.m.k. þegar ég var að alast upp, að það var talið mjög jákvætt að unglingar hleyptu heimdraganum, færu úr heimahögum til að öðlast meiri þroska og víkka sjóndeildarhringinn. En því miður virðist sú stefna nú vera ríkjandi að það eigi helst að halda öllum á sama stað það sem eftir er ævinnar, þ.e. unglingunum skal haldið í framhaldsskóla í viðkomandi sveitarfélagi, hvort sem það ræður við að standa undir slíkum framhaldsskóla eða ekki og næsta skref verður væntanlega það að komið skuli upp háskóla í hverju einasta smásveitarfélagi um allt land. Ég fæ ekki betur séð en við stefnum hraðbyri inn í eitthvert slíkt skólakerfi.
    Eins og ég segi, það skal síst við því amast að það séu góðir framhaldsmenntunarmöguleikar fyrir unglinga landsins og á menntun byggir þjóðin að lokum afkomu sína. Með því að tryggja öllum ungmennum okkar góða
menntun getum við vænst þess að standa okkur í þeirri gífurlega hörðu samkeppni sem við eigum í við nágrannalöndin. En ég velti því nú samt fyrir mér hvort ekki væri hægt að taka upp eilítið skynsamlegri stefnu í mennta- og skólamálum okkar. Það hlýtur þrátt fyrir allt að vera skynsamlegt að reyna að halda uppi kannski fáum skólastofnunum en góðum, þ.e. jafnmörgum skólastofnunum og við ráðum við, bæði með tilliti til þess sem það kostar að reka þessar skólastofnanir og ekki síður með tilliti til þess að það sé tryggt að hægt sé að halda uppi fullkominni og góðri kennslu við slíkar stofnanir. Það sjónarmið eitt sér, að ætla að dreifa framhaldsskólunum um allar byggðir þessa lands til þess eins að ,,tryggja`` það að ungmenni viðkomandi sveitarfélags þurfi ekki að fara

í burtu til þess að stunda framhaldsskólanám, get ég ekki sætt mig við. Það er ekki skynsamleg byggðastefna að mínu viti.
    Þetta langaði mig til að láta koma fram, en vil að lokum ítreka það, sem er nú kannski aðalástæðan fyrir því að ég kom hér upp í ræðustól, að ég vek athygli á því að mér finnst að unglingum sem stunda framhaldsskólanám á Íslandi hafi ekki verið nægilega leiðbeint til mismunandi náms. Þar á ég fyrst og fremst við verknámið sem hefur setið á hakanum að mínu viti, kannski vegna þess að það er dálítil tilhneiging af hálfu kennara við framhaldsskólana að líta á bóknámið sem æðra verknáminu og reyna því að beina öllum nemendum sínum í bóknám.