Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er viðamikið mál. Sennilega einn af þeim málaflokkum sem varða flesta einstaklinga í þjóðfélaginu, a.m.k. hverja einustu fjölskyldu. Því er það þýðingarmikið að þannig sé staðið að lagasetningu um slík mál að þau komi eins réttlátlega niður og mögulegt er.
    Ég á sæti í hv. félmn. Ed. sem fær þetta frv. til umfjöllunar og ætla því ekki að setja hér á langa ræðu við þessa 1. umr. eða fara efnislega út í frv. Hins vegar verð ég að átelja það að okkur hér í hv. Ed. er ætlað að afgreiða þetta mál með svo stuttum fyrirvara að einstakt má teljast þegar um svo viðamikinn málaflokk er að ræða eins og lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, ekki síst þegar haft er í huga hvernig málið var afgreitt frá hv. Nd. sem gerðist einnig með fátíðum hætti. Félmn. Nd. brotnaði í fjórar eindir. Fjórir minni hlutar skiluðu áliti. Það eitt hlýtur að segja sína sögu. Það getur varla talist góð málsmeðferð að þröngva í gegnum þingið stjórnarfrumvarpi sem hefur ekki fullan stuðning þeirra þingflokka sem standa að hæstv. ríkisstjórn.
    Það er oft skynsamlegt að sýna ofurlítinn sveigjanleika þegar leysa þarf mál sem fyrir fram er vitað að sterk andstaða er við, ekki síst þegar um er að ræða þá afstöðu innan sjálfra samstarfsflokka ríkisstjórnar. Ég get ekki séð að það hefði skipt sköpum hvað þetta mál varðar enda kemur það fram í nál. minni hlutanna fjögurra að ekki er víðtækt samkomulag eða sátt um þetta mál og ýmsir óvissuþættir sem þarf að kanna betur. Staðfesting á því er m.a. sú breyting sem gerð hefur verið á frv. í meðferð félmn. Nd., að fresta gildistökunni frá 1. sept. til 15. nóv. Jafnframt ætlar hæstv. félmrh. að setja nefnd í málið og flytja síðan brtt. á næsta þingi ef sú verður niðurstaðan að þörf reynist á því. Ég get ekki almennilega séð hverju það hefði breytt þó hæstv. félmrh. hefði gengið til samkomulags og frekar frestað málinu og sett í það milliþinganefnd til þess að reyna að ná víðtækara samkomulagi sem ég held að hefði verið mikill styrkur, bæði fyrir hana sem hæstv. félmrh. og ekki síst fyrir Alþingi. Vegna allra þeirra óvissuþátta sem fram komu í meðferð félmn. Nd. og t.d. andstöðu ASÍ og fimm fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem hlýtur að vega nokkuð þungt, þá tel ég að skynsamlegt hefði verið og réttlætanlegt fyrir hæstv. ráðherra að geyma málið til haustsins og vinna það betur, eins og ég sagði áðan, í milliþinganefnd.
    Hv. félmn. Nd. fékk marga aðila á sinn fund auk fjölmargra umsagna sem leitað var. Mér sýnist að það hafi einir átján aðilar sent umsagnir til nefndarinnar og auk þess hafi einir ellefu fulltrúar ýmissa samtaka komið á fund hennar. Manni verður nú hugsað til þess hvernig félmn. Ed. er ætlað að ljúka þessu máli ef hún vinnur jafnítarlega í því og hv. Nd. Og þá er ég hrædd um að okkur endist ekki einu sinni þeir sólarhringar sem eru fram að helgi, ef gert er ráð fyrir að ljúka þingi um helgina, þó ekkert annað yrði unnið

hér á hv. Alþingi.
    En ég vil ekki, hæstv. forseti, tefja málið hér við 1. umr. þess. Ég ítreka að það er ýmislegt gott í þessu frv. sem við sjálfstæðismenn getum staðið að, en það eru einnig ýmsir óvissuþættir sem upp hafa komið í meðferð málsins sem gera það að verkum að við teljum að það þurfi nánari skoðunar við og því væri skynsamlegra að fresta afgreiðslu þess og taka það upp á ný á næsta þingi. Nota þannig tímann til þess að ná víðtækara samkomulagi og víðtækum sáttum sem ég tel að hefði verið farsælasta afgreiðslan á svo viðamiklu máli sem varðar svo marga, eins og ég sagði hér í upphafi, sem raun ber vitni þegar um er að ræða lög um Húsnæðisstofnun ríkisins. --- [Fundarhlé.]