Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég vil nú leitast við að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hafa verið beint í þessari umræðu. Hv. þm. Borgfl. sem hér hafa talað hafa rætt nokkuð um núgildandi kerfi og talið að það mætti bæta svo að það gæti gilt áfram. Ég vil fara örfáum orðum um það, herra forseti.
    Það var samdóma álit þeirra sérfræðinga sem fjölluðu um þetta í fyrri nefndinni að ,,... húsbréfakerfið núgildandi valdi ekki hlutverki sínu, það skapi umframeftirspurn og leiði til biðraðar eftir lánum og spennu á fasteignamarkaði. Ýmis vandi stafi af tengingu þess við lífeyrissjóðina og heildarsaminga við þá. Lánakerfið hafi ekki fjárráð til að mæta þörfum markaðarins miðað við fyrirheit um lánsrétt og lánsfjárhæðir né heldur rísa undir núverandi niðurgreiðslu vaxta.`` Þetta var álit sérfræðinga sem um núverandi kerfi hafa fjallað og ég tel að það séu mjög fáir sem mæli því bót að hægt sé að gera á því þær breytingar sem dugi til þess að við getum vænst þess að hægt sé að búa við þetta kerfi til frambúðar.
    Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ekki hafi verið beitt þeim skerðingarákvæðum sem eru til staðar í núgildandi kerfi. Ég tel að þetta sé rangt. Það náðist ekki samstaða á hv. Alþingi um að þau skerðingarákvæði, sem komu inn fyrir ári síðan og miðuðu að því að þrengja rétt ákveðinna hópa, yrðu afturvirk og mundu ná til biðraðarinnar. Þess vegna náðu þessi skerðingarákvæði eingöngu til þeirra hópa sem sendu inn þessar umsóknir eftir að þessi skerðingarákvæði tóku gildi, þ.e. frá janúar 1988. Reynslan hefur orðið sú að eftir að þessi skerðingarákvæði tóku gildi hafa mjög fáar umsóknir borist sem falla undir þessi skerðingarákvæði. Þau hefðu fyrst haft töluverð áhrif ef þau hefðu mátt ná inn í biðraðirnar en um það náðist ekki samstaða á Alþingi. Það er því ekki rétt að þessum skerðingarákvæðum sé ekki beitt eins og hægt er.
    Um það var talað hér að það sé enginn munur orðinn á forgangshópi eða víkjandi hópi. Þetta er heldur ekki rétt vegna þess að sá sex mánaða munur sem er á forgangshópi og víkjandi hópi er enn til staðar. Að vísu hefur Húsnæðismálastofnun af því miklar áhyggjur hvað verður í framtíðinni að óbreyttu, bæði varðandi forgangshóp og víkjandi hóp, vegna þess að t.d. á árinu 1990 er svo mikið fjármagn bundið í seinnihlutalán og til víkjandi hóps að það er lítið aflögu til forgangshópa. Áætlanir sem gerðar hafa verið sýna að fyrstu fimm mánuðina á árinu 1990 er ekkert fjármagn aflögu til forgangshópa. Þetta er nú það kerfi sem við búum við. Enn verra verður ástandið 1991 því þá er það mikið fjármagn bundið í síðari hluta að áætlanir gera ráð fyrir að fyrstu tíu mánuðina 1991 verði ekkert fjármagn aflögu til forgangshópa. Þetta eru þær áætlanir sem fyrir liggja í Húsnæðisstofnun miðað við það fjármagn sem er til ráðstöfunar og áætlað er á næsta ári.
    Að því er varðar það að hin virka biðröðin sé ekki orðin nema um 5000 manns þá tel ég að það sé ekki rétt og tel það koma fram í svari Húsnæðisstofnunar

við fyrirspurn sem liggur fyrir Alþingi frá hv. þm. Júlíusi Sólnes. Þar kemur fram að tekið hefur verið tillit til affalla af umsóknum og að á milli 3--5% umsókna falla úr gildi vegna þess að umsækjendur senda ekki inn kaupsamninga eða fokheldisvottorð. Síðan kemur fram að í áætlunum sínum reiknar stofnunin með að þegar lánin koma til greiðslu séu þau samtals 15--20% lægri en lánsloforðin gerðu ráð fyrir. Þó að tekið sé tillit til þessa gerir Húsnæðisstofnun ráð fyrir að biðröðin hafi ekki styst um næstu áramót og sé enn þá tæplega 11.000 umsóknir þrátt fyrir það að gert sé ráð fyrir og tekið tillit til þessara skerðingarákvæða. Ástæða þess er einfaldlega sú að það berast inn fleiri umsóknir en afgreiddar eru út á hverjum tíma.
    Það var spurt um það samkomulag sem gert var við Kvennalistann um húsnæðismál, þ.e. hvort þessi 600 millj. kr. raunaukning á framkvæmdarfé til félagslega hluta íbúðakerfisins væri umfram það sem fram kom í kjarasamningum við Alþýðusambandið. Það kemur skýrt fram í því samkomulagi sem prentað hefur verið með nál. frá 2. minni hl. félmn. Nd. Þar segir, með leyfi forseta, að samkomulag sé um:
    ,,600 millj. kr. raunaukningu á framkvæmdafé til félagslega hluta íbúðakerfisins. Á árinu 1989 verði 100 millj. kr. raunaukning á framlögum auk þess sem felst í bréfi ríkisstjórnarinnar til Alþýðusambandsins í tengslum við kjarasamninga 1. maí 1989.``
    Að því er það varðar hvort fjármagn sé í sjóði sem hægt væri að nýta til útlána er það svo að staða Byggingarsjóðsins er mjög mismunandi frá mánuði til mánaðar. Í fyrra var staðan t.d. mjög erfið hjá byggingarsjóðunum og þeir þurftu að fá yfirdrátt hjá Seðlabankanum til þess að geta staðið við sín útlán. Það var vegna þess að fjármagn lífeyrissjóðanna hafði ekki borist eins og áætlað hafði verið. Því getur verið að tímabundið frá mánuði til mánaðar sé eitthvert fjármagn í Byggingarsjóðnum, en ég tel að það sé ekkert sem sé í hendi eða sé til ráðstöfunar til frekari útlána. Ég vil í því sambandi segja að það vantar núna enn þá 1500 millj. kr. upp á að lífeyrissjóðirnir hafi skilað því inn til húsnæðislánakerfisins sem þeir áttu að gera á árinu
1987--1988.
    Hér hefur mikið verið vitnað í hagfræðing nokkurn, Jóhann Rúnar, og talið að það sem fram kemur í skrifum þess manns sé það sem ber að taka gott og gilt í þessu máli. Ég skal ekki gera lítið úr áliti þessa hagfræðings en mér þykir það afar sérstætt að það skuli enginn verða til þess að vitna í ýmsa hagfræðinga sem hafa farið mjög jákvæðum orðum um húsbréfakerfið og talið að það hefði bæði jákvæð áhrif á fasteigna- og peningamarkaðinn. Ég tek þar til t.d. Ólaf Davíðsson sem vann í fyrri nefndinni sem fjallaði um þetta mál. Ég tek til Hallgrím Snorrason sem var einn af höfundum að núverandi kerfi en mælir með því að tekið sé upp húsbréfakerfi. Ég tek til Sigurð B. Stefánsson, Ingva Örn Kristinsson, Má Guðmundsson, Birgi Árnason og Þorstein Ólafsson. Þetta eru allt að ég tel virtir hagfræðingar sem hafa

sagt sitt álit á þessu máli og fram hefur komið í ítarlegri álitsgerð sem liggur fyrir félmn., þar sem könnuð eru áhrifin á fasteigna- og peningamarkaðinn. Í heild sinni er þetta álit mjög jákvætt. Þar kemur fram að húsbréfakerfið muni auka stöðugleika og lækka fasteignaverð, lækka útborgunarhlutfall, stuðla að lækkun vaxta, hafi jákvæð áhrif á peninga- og fasteignamarkaðinn og minni verðsveiflur verði á fasteignamarkaði. Þetta er það álit þessara sérfræðinga sem þarna kemur fram. Ég bendi enn fremur á álit Landssambands iðnaðarmanna. Þar kemur fram að þetta muni bæta skipulag framkvæmda og lækka byggingar- og fjármagnskostnað íbúða.
    Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að þetta komi líka inn í umræðuna vegna þess að mér finnst menn taka aðeins til álit þessa unga hagfræðings, sem hér hefur verið nefndur, en líta fram hjá ýmsum staðreyndum sem fram hafa komið frá öðrum hagfræðingum sem um þetta mál hafa fjallað. Mér finnst að sumir hverjir þessara hagfræðinga, sem ég hef hér upp talið, séu oft nefndir í umræðum á Alþingi þegar vitnað er til álita um ýmis hagfræðileg efni.
    Það er talað um að þurrkaður sé út forgangur með þessu kerfi og það vanti allan forgang. Ég held að það sé ekkert voðalega mikill forgangur í núverandi kerfi þegar grannt er skoðað. Ef við erum með biðröð upp á 37 mánuði, eins og fram kemur í áliti Húsnæðisstofnunar, og forgangur felst aðeins í sex mánaða flýtingu frá því er varla hægt að tala um mikinn forgang. Eðli húsbréfakerfisins er slíkt að þar er enginn forgangur. Þeir sem sækja um að fara inn í húsbréfakerfið fá þar afgreiðslu ef þeir sætta sig við kjörin á bréfunum á þeim tíma sem þeir gera sín fasteignaviðskipti. Eðli málsins samkvæmt er því ekki hægt að tala um forgang.
    Af hverju þetta kerfi en ekki þróað kerfi sem reynsla er fengin á í nágrannalöndunum, spurði Guðmundur Ágústsson. Ég hef vitnað til þess, herra forseti, að nefndirnar sem um þetta mál hafa fjallað hafa kynnt sér ítarlega stöðu húsnæðismála á Norðurlöndunum og það kemur fram í greinargerð frá þessum aðilum sem um þetta hafa fjallað að þeir hafa kynnt sér þessi mál. Húsnæðismálin eru með mismunandi hætti á Norðurlöndunum eins og við þekkjum. Í Noregi er húsbanki og í Danmörku eru þessir verðbréfasjóðir. Á vegum nefndarinnar fóru menn til Danmerkur til þess að kynna sér ýmsa þætti húsnæðismála þar. Það hefur því verið litið til þess sem löndin í kringum okkur hafa upp á að bjóða. Að hluta til var byggt á því sem þar kemur fram og því sem við töldum að hentaði okkar aðstæðum, en að hluta til var miðað við önnur ákvæði sem við teljum að henti okkur betur.
    Spurt er um muninn á spariskírteinum og húsbréfum. Það er náttúrlega ljóst að húsbréfin eru til lengri tíma, allt að 25 árum, á meðan spariskírteini eru til miklu skemmri tíma, þriggja, fjögurra eða fimm ára. Mismunurinn er kannski einnig fólginn í því að ávöxtunargengi húsbréfanna ræðst á markaðnum. Eðli ríkisábyrgðarinnar er síðan kannski með öðrum hætti

að því er varðar húsbréfin vegna þess að á móti húsbréfum standa skuldabréf með veði í fasteign. Þetta er því raunverulega beint tengt fasteignaviðskiptum.
    Ég tel mig hafa svarað flestu af því sem hér hefur komið fram. Hv. þm. Halldór Blöndal spurði um greiðsluerfiðleikalánin. Það er vissulega ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim. Eins og kom fram í máli mínu í upphafi þá nefndi ég að við höfum á fjórum árum varið á þriðja milljarð króna til greiðsluerfiðleikalána til um 4000 manns. Það er rétt hjá hv. þm. að það fé sem var til ráðstöfunar er nú uppurið. Ég skal ekki segja til um hvert framhaldið verður á þessu. Ríkisstjórnin fól þremur ráðherrum að skoða þetta mál sérstaklega, einkum með það í huga að bankarnir kæmu miklu meira inn í þessa mynd, þ.e. að taka þátt í greiðsluerfiðleikamálum fólksins. Það er nú svo að bankarnir hafa fengið stóran hlut af þessu fjármagni sem varið hefur verið til greiðsluerfiðleikalána og við höfum viljað semja við þá um að þeir kæmu meira inn í þetta mál og keyptu skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, a.m.k. sem næmi þeirri upphæð sem hefur gengið til bankanna gegnum greiðsluerfiðleikalánin. Þetta mál er ekki fullkannað og kannski ekki komin endanleg niðurstaða í viðræðum við bankana um þetta atriði. Eins fljótt og hægt er verða teknar upp viðræður við bankana og athugað hvort þeir gætu komið meira inn í þetta mál.
    Í þessu sambandi vil ég nefna það, sem einnig fram kom í mínu máli, að ég tel að þessi greiðsluerfiðleikalán stafi að verulegu leyti af því kerfi sem við búum við í dag. Bæði veitir það ekki nema að hluta til lán fyrir íbúðarverði þannig að fólk þarf að sækja mikið inn í þessi erfiðu skammtímalán í bönkunum. Eins hefur fólk, af því að það þarf að bíða það lengi að það neyðist til þess að selja lánsloforðin með miklum afföllum, leitað sér að skammtímafyrirgreiðslu í bönkunum og það hefur kallað á þessi greiðsluerfiðleikalán. Kannanir sem hafa verið gerðar hjá Húsnæðisstofnun sýna það að vanskil þessa fólks og skuldir má að mestu leyti rekja til þessarar skammtímafyrirgreiðslu, en alls ekki til þeirra lána sem það fær hjá Húsnæðisstofnun. Ef við getum því byggt upp þannig kerfi, sem hugmyndin er með þessu húsbréfakerfi, að seljendur láni kaupendum miklu meira af verði fasteignarinnar, þá tel ég að þar sé komin leið til að fyrirbyggja að þessi greiðsluerfiðleikalán þurfi að koma til ár eftir ár því að ef ekkert er að gert í þessu höldum við auðvitað áfram og komumst ekki út úr þessu fari sem greiðsluerfiðleikalánin eru.