Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls fyrr en í 2. umr. en ég vildi gjarnan nota tækifærið þar sem félmrh. er staddur hérna til að leggja fyrir hæstv. ráðherra spurningar viðvíkjandi þessum 600 millj. Ég vona að hæstv. ráðherra svari því sem ég spyr um. Ég hef stundum sagt það hér að ýmsir stjórnmálamenn, ég er ekki endilega að tala um hæstv. ráðherra, notfærðu sér einfeldni fólksins og þá valdabaráttu sem á sér stað, bæði í verkalýðshreyfingunni og annars staðar, til þess að setja á svið --- ég vil ekki segja leikrit heldur svona ákveðna baráttu, ákveðin átök. Síðan koma stjórnmálamennirnir og bjóðast til þess að leysa þann vanda sem á sér stað í hinni hörðu baráttu á milli verkalýðsins annars vegar og vinnuveitenda hins vegar.
    Þetta atriði sem lýtur að 600 milljónunum margumtöluðu, þar sem það kom fram eftir því sem mér skilst af svari ráðherra að um væri að ræða tvennar 600 millj. kr., þ.e. annars vegar 600 millj. kr. sem samið var um við kvennalistakonur um og hins vegar 600 millj. kr. sem samið var við Alþýðusamband Íslands um, er náttúrlega nýtt í málinu. Og það er mjög merkilegt að það er verið að tala um 1200 millj. kr. á sama tíma sem ekki er hægt að leggja fram fé til þess að tryggja t.d. stöðu fiskeldisstöðva í landinu. Það er mjög merkilegt atriði að þarna skuli hafa verið samið um 600 millj.
    Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir kvennalistakonur að heyra hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna þetta loforð sitt við þær. ( SkA: Þú skalt nú ekki eigna þér einhverja peninga sem ríkissjóður á.) Ég hef nú álitið að kvennalistakonur hafi stutt frv. burt séð frá 600 milljónunum, en það hefur alla vega hjálpað til að semja um það atriði með öðrum. Það kom skýrt fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur að kvennalistakonur höfðu skoðað þetta mál mjög gaumgæfilega og það var á grundvelli efnislegra atriða sem þær tóku afstöðu með því frv. sem ég er að ræða um, burtséð frá peningunum. En mér finnst mjög þýðingarmikið að kvennalistakonur átti sig á því að þetta með 600 milljónirnar er ekkert annað en sjónhverfingar af hálfu æfðra stjórnmálamanna sem kunna að tefla refskákina. Hæstv. félmrh. kann það mjög vel og hefur verið í mjög góðum skóla í Alþfl. og annars staðar.
    Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan eiga þessar 1200 millj. kr. að koma? Eru þetta kannski peningar sem launafólkið á sjálft að leggja fram til að fullnægja þeim samningum sem við erum að tala um, þ.e. láglaunafólkið sem margt hvert styður Kvennalistann og verkalýðurinn sem styður okkur hina líka töluvert? Það væri fróðlegt að heyra hvort það sé meiningin að hæstv. ríkisstjórn segi síðan við verkalýðshreyfinguna, þ.e. við lífeyrissjóðina eða aðra aðila: Nú skuluð þið reiða fram þessa peninga sjálfir. Það vill svo til að ég hef sjálfur upplifað það í verkalýðshreyfingunni að gera samning við ríkisstjórn sem beitti akkúrat þessum brögðum. Það voru vinstri

mennirnir í verkalýðshreyfingunni sem voru búnir að semja um það í bakið á okkur hinum að við ættum að borga þetta með eigin fé. Það var ekki einu sinni sagt takk fyrir en það dugði vel í kosningabaráttunni fyrir vinstri flokkana í næstu kosningum vegna þess að fólk áttar sig oft ekki á því hvernig verið er að misnota það. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hér um pólitískan sjónhverfingaleik að ræða þar sem verið er að semja við kvennalistakonur annars vegar og Alþýðusambandið hins vegar með peninga fólksins úr lífeyrissjóðunum? Á að leggja á sérstaka skatta vegna þessa? Eða í þriðja lagi: Á að skerða lánarétt annarra? Þetta eru atriði sem ég við gjarnan fá að vita strax hér við 1. umr.
    Að lokum, virðulegur forseti, er það tvennt sem ég vil láta koma fram í þessari umræðu og það er í sambandi við húsnæðiskerfið. Ég hef verið á móti þessu kerfi frá upphafi. Þetta kerfi er með því rotnasta sem nokkurn tímann hefur verið sett upp á Íslandi, húsnæðismálakerfið í heild. Ég veit að hæstv. ráðherra er sammála mér í því að kerfið sem slíkt verður að breytast. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að það er nauðsynlegt að hreyfa til í þessu og breyta. Ég er sammála því að húsbréfakerfið sem slíkt eigi að koma til framkvæmda en hvort það gerist nákvæmlega á grundvelli þessa frv. ætla ég ekki að tjá mig um fyrr en ég hef fjallað um þetta í nefnd. En því miður held ég að því hafi verið breytt þannig að það sé ekki æskilegt að samþykkja það í núverandi mynd og þyrfti e.t.v. að athuga það betur.
    En ég vek athygli hv. þm. á því að Húsnæðisstofnun hefur aldrei endurgreitt krónu til lífeyrissjóðanna sem leggja til meginhluta þess fjármagns sem fer inn í húsnæðislánakerfið. Venjan er sú --- og er náttúrlega enn frekar í dag þar sem búið er að skylda sjóðina til að leggja fram 55% af sínu ráðstöfunarfé --- að hálfum mánuði fyrir gjalddaga kemur bréf frá húsnæðismálstjórn, undirritað af Sigurði Guðmundssyni framkvæmdastjóra, þess efnis að nú þurfi sjóðirnir annaðhvort að lána að nýju eða efna sína kaupskyldu og þá er það yfirleitt alltaf með mun hærri upphæðum en húsnæðismálastjórn á að greiða til lífeyrissjóðanna, þannig að þeir hafa aldrei borgað krónu til baka.
    Raunverulega eru lífeyrissjóðirnir húsnæðismálakerfið og því má leggja niður
Húsnæðisstofnunina. Það er atriði sem kannski hinum æfðu stjórnmálamönnum --- þeir sem þurfa að lifa á því að vera að búa til stofnanir, búa til stjórnir, búa til samningsstöðu fyrir suma verkalýðsleiðtoga, fyrir suma stjórnmálamenn, þeir þurfa að viðhalda svona kerfi.
    En þetta kerfi er fólkinu dýrt og kemur niður á þjóðinni í auknum kostnaði í húsnæðismálum. Ég er því fylgjandi öllu því sem stefnir að því að leggja niður Húsnæðisstofnun í núverandi mynd og vil ganga mjög langt til samkomulags við ráðherra og þá sem standa að baki frv. um það. Það þarf að hreyfa við núverandi kerfi og það er markmið frv. að færa starfsemina út á markaðinn, þ.e. að færa þetta til

fólksins, færa þetta til sjóðanna, út í bankakerfið, leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins og selja þetta dýra hús sem kostaði 100 millj. kr. Húsið sem Húsnæðisstofnun er nýlega búin að kaupa og byggja kostar hundruð milljóna og þarna sitja menn í marmarahöll húsnæðislánakerfisins sem kostar hér um bil jafnmikið og 600 millj. kr. sem kvennalistakonurnar voru að semja um. Allt vegna þeirra sem vilja þjóna í þessu kerfi og hafa gott af því.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég óska eftir því að ráðherrann svari því hér og nú við 1. umr. hvort meiningin sé sú að þessir peningar sem um er verið að tala eigi að koma frá verkalýðshreyfingunni eða annars staðar frá.