Skógrækt
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Landbn. hafði til meðferðar stjfrv. um skógvernd og skógrækt sem er 412. mál þingsins. Talsvert var fjallað um málið og eins og kemur fram í grg. með frv. sem var til umræðu í hv. deild er hér um að ræða mjög viðamikið frv. en nefndin telur ekki mögulegt á þeim stutta tíma sem nú er til þingslita að taka frv. til jafngaumgæfilegrar athugunar og æskilegt er um svo þýðingarmikið mál. Það er hins vegar skoðun nefndarinnar að nauðsynlegt sé að lögfesta nú þegar það ákvæði frv. sem felur í sér að aðalstöðvar Skógræktar ríkisins verði á Fljótsdalshéraði en það er í samræmi við ályktun Alþingis frá 11. maí 1988. Í því skyni ákvað nefndin að flytja frv. til laga um breytingu á lögum nr. 3 6. mars 1955, um skógrækt, með síðari breytingum.
    1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein svohljóðandi:
    Aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skulu vera á Fljótsdalshéraði.``
    Og 2. gr. hljóðar svo:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Nefndin var algjörlega sammála um að flytja þetta frv. til laga en fresta aftur því máli sem var til meðferðar hjá nefndinni, þ.e. frv. um skógvernd og skógrækt, þar sem tíminn er of stuttur og hér er um mjög vandasamt mál að ræða sem þarf að skoða vel milli þinga og svo mun væntanlega verða gert.
    Nefndin leggur einróma til að frv. verði samþykkt.