Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Frv. er flutt til að efna þau hin ýmsu fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf í þeim bréfum sem ég fyrir hennar hönd ritaði annars vegar Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og hins vegar Alþýðusambandi Íslands.
    Í þeim bréfum er annars vegar gagnvart vinnuveitendum heitið að létta af ýmsum sköttum og gjöldum en hins vegar gagnvart Alþýðusambandi Íslands aðgerðum sem eru félagslegs eðlis eins og ég mun nú rekja hér nánar.
    Í fyrstu grein frumvarpsins er farið fram á heimild til þess að ríkissjóður megi enn taka lán samtals að upphæð 400 millj. kr. sem verði notað til þess að halda áfram greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði til frystiiðnaðarins og humarvinnslunnar ef aðstæður verða svo þegar líður á árið að slíkt verður talið nauðsynlegt. Ég vil taka það fram að ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að úr þessum greiðslum verið smám saman dregið og þær hverfi ekki síðar en um áramótin. Ég vil einnig taka það fram að þegar fyrirætlun um greiðslu lýkur nú í lok mánaðarins verða nokkrir fjármunir eftir í sjóðnum sem ættu að duga til að halda áfram greiðslum út júnímánuð. Rætt hefur verið um það að lækka þær síðan í 4% og síðan 1. september í 3%, en þó verð ég að leggja á það ríka áherslu að slíkar hugmyndir eru nátengdar því hvaða verðlagsbreytingar kunna að verða á afurðum þessum á erlendum mörkuðum. Menn binda enn þá verulegar vonir við að verðlagshækkanir geti orðið á Evrópumarkaði þótt á því virðist verða nokkur dráttur.
    Að sjálfsögðu verður að skoða þetta í nánum tengslum við afkomu sjávarútvegsins, enda eins og segir í bréfi ríkisstjórnarinnar til vinnuveitenda, ,,þá mun ríkisstjórnin stuðla að því eins og henni er kleift að samkeppnisstaða sjávarútvegsins verði viðunandi``. Farið hafa fram ítarlegar athuganir á stöðu sjávarútvegsins að mati Þjóðhagsstofnunar. Áður en til þess samnings kom sem hér er um að ræða var halli á veiðum og vinnslu samtals upp á 3% en á vinnslunni upp á 0,5% og þar skiptist frystingin í mínus 2% og söltun í plús 2%. Þeir samningar sem hér hafa verið gerðir munu leiða til þess að afkoma vinnslunnar verður u.þ.b. 5% lakari en hún er í þessum tölum talin, en nauðsynlegt er að geta jafnframt þess að fiskvinnslan telur að vinnslan sé í dag u.þ.b. 2% lakari en kemur fram í tölum Þjóðhagsstofnunar og ber þar fyrst og fremst á milli mikinn fjármagnskostnað.
    Ríkisstjórnin hefur heitið fiskvinnslunni að í samráði við hana verði afkoma hennar skoðuð mjög vandlega og hafa að sjálfsögðu þegar verið skoðuð áhrif samninganna á raungengi. Að mati Seðlabanka Íslands valda þessir samningar, þegar allt er komið fram, því að raungengi byggt á mælikvarða launa verður u.þ.b. 3% lakara, hins vegar raungengi ef byggt er á mælikvarða verðlags u.þ.b. 7% lakara

þegar yfir árið allt er litið.
    Ríkisstjórnin hefur þegar látið gengi íslensku krónunnar síga um 1,5% sem á að vera nægilegt til þess að vega upp á móti fyrstu áhrifum þessara samninga, og hefur auk þess veitt Seðlabanka Íslands heimild til svigrúms sem nemur 2,25% til að mæta þeim sveiflum sem verða á erlendum gjaldmiðlum.
    Inn í þetta dæmi kemur vitanlega æðimargt, t.d. sú staðreynd að gengi dollarans hefur hækkað verulega á undanförnum árum og þær greinar sem hér er fyrst og fremst verið að ræða um, þ.e. frystingin, njóta í langtum ríkara mæli dollaragengis en sjávarútvegurinn þegar á heildina er litið. Ég vil hins vegar undirstrika að það er að sjálfsögðu enginn vafi á því að einkum staða frystingar er slök og reyndar botnfiskveiðanna á heild litið og afar mikilvægt að unnt reynist jafnt og þétt að bæta stöðu þessarar greinar þegar á árið líður.
    Síðan er gert ráð fyrir að fella niður eða lækka nokkur gjöld. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að fella niður svokallað erlent lántökugjald sem er 6%. Í upphaflegu frv. var gert ráð fyrir að það yrði fellt niður frá 1. júlí 1989 en í meðferð hv. efri deildar var það fært fram til 1. júní 1989.
    Þá er gert ráð fyrir að lækka sérstaka skatta á verslunar- og skrifstofuhúsnæði úr 2,2% í 1,5% og kemur það að sjáfsögðu til framkvæmda strax við álagningu á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir að frá 1. sept. 1989 falli niður vörugjald, sem lagt var á um áramótin, af timbri, járni og blikki og er það rakið hér í tollskrárnúmerum og nánar í grg. með þessu frumvarpi þannig að menn geti gert sér nokkuð skár grein fyrir því sem þar er um að ræða.
    Ég vil taka það fram um öll þessi gjöld að þau verður að sjálfsögðu að skoða að mati ríkisstjórnarinnar með tilliti til þeirrar stöðu sem er í þjóðarbúinu. Það er ljóst að þensla hefur mjög minnkað og er ekki ástæða til þess í dag að leggja eins mikla áherslu á að draga úr fjárfestingu eins og áður var talið, eða á erlendar lántökur vegna fjárfestinga, og því að mati ríkisstjórnarinnar eðlilegt að fella niður lántökugjaldið af erlendum lánum. Sömuleiðis er það svo að verslun á við mikla erfiðleika að stríða um þessar mundir og því talið rétt að lækka það gjald.
    Vörugjaldið hefur verið í ítarlegri athugun frá því að það var á lagt og
komið hefur í ljós að það er mörgum vanköntum háð að leggja vörugjald á slík aðföng til íslensks iðnaðar. Þetta hefur verið ítarlega rætt við fulltrúa iðnaðarins sem hafa tekið þátt í því að leita leiða til að gera álagninguna auðveldari, en í samráði við þá varð niðurstaðan sú að fella það með öllu niður 1. september eins og fyrr segir. Ríkisstjórnin telur jafnframt að svigrúm sé til þess að hækka jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur úr 3% í 5% og byggir það á því að söluskattsstofninn er miklu breiðari nú en hann var þegar 3% gjald var ákveðið og sömuleiðis hefur söluskatturinn hækkað úr 20% í 25%. Þetta er að sjálfsögðu tímabundið eða þar til vörugjald kemur hér til framkvæmda.

    Þetta eru þeir liðir sem snúa fyrst og fremst að atvinnurekendum. Eins og ég sagði áðan þá eru aðrir liðir félagslegs eðlis sem snúa að ASÍ eða launþegum í þessum samningum og 6. og 7. gr. fjalla um þá liði. Í fyrsta lagi er í 6. gr. gert ráð fyrir að veita Atvinnuleysistryggingasjóði heimild til að lengja bótatímabil í 260 daga áður en viðkomandi bótaþegi fellur af bótum næstu 16 vikurnar. Um þetta er samkomulag milli vinnuveitenda og ASÍ og var sameiginleg ósk þeirra að þessi heimild yrði veitt sem að sjálfsögðu verður ekki notuð nema stjórn sjóðsins ákveði svo og þá í sérstökum tilfellum.
    Í öðru lagi var eindregið farið fram á að Atvinnuleysistryggingasjóður tryggði launafólki fyrirtækja sem stöðvast vegna gjaldþrots greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án bóta í uppsagnarfresti. Á það var fallist og gerir 7. gr. ráð fyrir því. Hins vegar er þá nauðsynlegt að tryggja endurkröfurétt Atvinnuleysistryggingasjóðs og er í greinargerð með frv. vísað til frv. sem liggur hér fyrir hinu háa Alþingi þess efnis. Niðurstaðan í hv. Ed. varð hins vegar sú að bæta við nýrri grein á eftir 7. gr., í raun efnislegu innihaldi þess frv. og kemur frv. þannig frá hv. Ed.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið á þessum annatímum þingsins, en ég vil vekja athygli á fjölmörgum öðrum atriðum í þeim bréfum sem aðilum deilunnar voru skrifuð, m.a. í bréfi til Alþýðusambands Íslands þar sem lagður er grunnur að nánu samstarfi um atvinnumál og atvinnuástand sem er mjög mikilvægt og sömuleiðis samstarf að verðlagsmálum eins og var árið 1986, ýmsar áherslur sem koma fram í því bréfi á betri innheimtu skatta, lækkun vaxta o.s.frv. Sérstaklega er rétt að geta um 6. lið, um húsnæðismál, þar sem ríkisstjórnin lofar að beita sér fyrir sérstöku átaki í félagslegum íbúðabyggingum þannig að unnt verði að hefja byggingu a.m.k. 200 nýrra íbúða í því kerfi á þessu ári. Ekki hafði verið gert ráð fyrir að hefja nýjar byggingar nú í þessu kerfi í ár enda allmargar byggingar hafnar á síðasta ári. Hins vegar þykir æskilegt miðað við atvinnuástand að hefja slíkar byggingar nú og það er svigrúm í Byggingarsjóði verkamanna til þess að byrja á slíkum byggingum. Er það því að ýsmu leyti æskileg ráðstöfun.
    Herra forseti. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.