Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ætlunin er að þetta frv. um ráðstafanir vegna kjarasamninga verði afgreitt á þeim skamma tíma sem þingið hefur til umráða. Þetta frv. gefur manni ástæðu til að rifja upp hin hagrænu vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn ástundar. Hér var Alþingi mjög upptekið í desembermánuði sl. við að leggja nýja skatta á þjóðina, m.a. hækkun á sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hann var hækkaður úr 1,5% í 2,2%. Það var einnig lögð mikil áhersla á það að leggja vörugjald á fjölmargar vörutegundir og nú er aftur lagt til að þetta vörugjald verði afnumið samkvæmt þessu frv.
    Ef nokkur stofnun þarfnast hagræðingar í starfi sínu held ég að það sé Alþingi Íslendinga. Það hefði getað sparað sér alla þá vinnu, umstang og fyrirhöfn sem fór í þessar skattahækkanir. Hefði hæstv. ríkisstjórn verið sæmra að taka ábendingum stjórnarandstæðinga, einkum okkar sjálfstæðismanna, um að það gengi ekki að fara þessa braut.
    Ríkisstjórnin varð fyrir miklu áfalli meðal þjóðfélagsþegnanna að ganga inn á allar þessar skattlagningar hér fyrir áramótin undir verðstöðvun sem var og launastöðvun sem ríkti í landinu. Komu því þessar ráðstafanir eins og köld vatnsgusa yfir allan almenning í landinu. Þegar við lítum á það hversu vel almenningur tók verðstöðvun og launastöðvun í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og svo aftur framhaldi þeirra aðgerða í tíð þessarar ríkisstjórnar hefði hæstv. ríkisstjórn verið sæmra að fara gætilega í þessum efnum en rasa ekki um ráð fram eins og nú þegar er komið á daginn. Það liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin er með þessu og með þessu samkomulagi við launþegasamtökin hreinlega að viðurkenna afglöp sín í desembermánuði sl. Hún er að segja Alþingi og fólkinu í landinu að hún hafi farið villur vegar. Í stað þess að játa og segja: Við erum ekki færir um það að stjórna þessu landi, við sveiflumst til og frá og eigum auðvitað að fara frá. Það dettur þeim ekki í hug að gera þessum herrum.
    Ég ætla að fara nokkuð inn á efnisatriði frv. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sé heimilt, til viðbótar við lántöku skv. 1. gr laga nr. 9 frá 2. mars 1989, að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 400 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Síðan segir að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna endurgreiðslu láns þessa. Það er svo ætlunin að 350 millj. kr. sé varið til greiðslu verðbóta á freðfisk, en allt að 50 millj. kr. af andvirði þessara 400 millj. kr. skal varið til greiðslu verðbóta á hörpudisk. Þetta er framhald af því sem gert var með bráðabirgðalögunum um 800 millj. kr. lántöku til Verðjöfnunarsjóðsins. Þá var það gagnrýnt af okkur sjálfstæðismönnum að hafa slíkan hátt á þar sem hér væri um það að ræða að sú deild í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, sem að mestu leyti tæki þetta lán, væri sú sem ekkert á til. Hún átti til um 12 millj. kr. um síðustu áramót en það hafði hækkað vegna

gengisbreytinga í febrúarlok, ef ég man rétt, upp í 22 millj. kr. Þessari deild, sem á 22 millj. kr., er ætlað að endurgreiða á næstu þremur árum 750 millj. kr. af þessum 800 millj. kr. frá sl. hausti og er nú samkvæmt frv. ætlað að taka enn á sig 350 millj. kr. Með öðrum orðum: Deild sem í febrúarlok á 22 millj. kr. á að taka á sig endurgreiðslu á láni samtals upp á 1100 millj. kr. á næstu þremur árum.
    Nú spyr ég hæstv. forsrh. og hæstv. bankamálaráðherra að því hvort þeir telji virkilega að það sé nokkur möguleiki fyrir því. Eða er það ætlun hæstv. ríkisstjórnar að leggja þær álögur á frystideildina á næstu þremur árum að frystihúsin eigi að endurgreiða þessar 1100 millj. kr. ásamt vöxtum og öllum kostnaði? Ég tel það útilokað sama hvor leiðin er farin, hvort það eigi að leggja þennan skatt á eftir að eigið fé frystihúsanna er að verulegu leyti brunnið upp, að leggja slíkan skatt á. Því eru þá ekki tekin upp heiðarleg vinnubrögð og ríkissjóður látinn yfirtaka þetta lán frá sl. hausti og taka svo einnig aftur þessar 400 millj. kr. sem frv. gerir ráð fyrir? Það er vitað mál að þetta kemur á ríkissjóð nema ríkisstjórnin hugsi sér að skattleggja frystihúsin, eins og þau standa nú vel, á næstu þremur árum til þess að endurgreiða lán.
    Hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir í haust við setningu þings Sjómannasambands Íslands að hér væri ekki um það að ræða að sjávarútvegurinn eigi að endurgreiða þetta lán, þetta mundi tvímælalaust koma á ríkissjóð. Þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar er þetta atriði endurtekið með frv. Það er höggvið öðru sinni í sama knérunn. Ég skil ekki þessi vinnubrögð, engan veginn. Ég skil ekki af hverju menn vilja ekki játa staðreyndir og viðurkenna það sem liggur fyrir nema þetta sé á bak við. Hvar stendur þá frystiiðnaðurinn ef á að fara að innheimta af honum 1100 millj. kr. lán þegar kemur fram á þetta ár? Er staða hans með þeim hætti að við sjáum fram á að slíkt sé hægt? Af hverju er verið að fara inn á þessa braut? Hver ræður ferðinni í þessari vitleysu? Ég spyr því einu sinni enn: Er það ætlunin að frystideildin eigi á næstu þremur árum að endurgreiða þetta lán? Hefur þannig verið búið að frystideildinni og
þeim fyrirtækjum sem hún á og starfa samkvæmt lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins að henni sé þetta fært?
    Jafnvel þótt hæstv. ríkisstjórn láti sér þetta til hugar koma þá spyr ég: Hvar eru þingmenn stjórnarliðsins? Eru þeir viljalaus verkfæri? Ég sé að það er aðeins einn þingmaður stjórnarliðsins inni svo að ekki virðist áhugi stjórnarliða vera mikill í þessu máli. Hvar eru þeir? Er bara á þá kallað þegar á að greiða atkvæði um vitleysuna? Hafa þeir enga skoðun á málum? Láta þeir bjóða sér slík vinnubrögð sem þessi? Þetta eru menn sem eru kjörnir af fólki sem er að framleiða útflutningsverðmæti fyrir þjóðina og ættu að vita hvernig málum er komið víðast hvar úti um hinar dreifðu byggðir landsins. En þá sjást þeir ekki, þá eru þeir horfnir, gufaðir upp allir með tölu nema einn.
    Hér er gert ráð fyrir því að auka útgjöld

atvinnuleysistrygginga og til að bregðast við langvarandi og verulegu almennu eða staðbundnu atvinnuleysi á að gefa stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimild að lengja bótatímabil í 260 daga áður en viðkomandi bótaþegi fellur af bótum næstu 16 vikur. Heimild þessari skal stjórnin beita almennt eða staðbundið miðað við aðstæður á hverjum stað fyrir sig. Einnig er í 7. gr. frv. gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi að tryggja launafólki fyrirtækja sem verða gjaldþrota rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti á meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum, sbr. lög nr. 23 frá 1985, um ríkisábyrgð á launum. Með þessu er verið að auka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs og þá verða menn líka að hafa í huga hvað núv. hæstv. ríkisstjórn gerði þegar hún var mynduð. Þá ákvað hún að fella niður ríkisframlagið til Atvinnuleysistryggingasjóðs þrátt fyrir það að þegar Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður eftir langvarandi, harða og erfiða vinnudeilu, var gert þríhliða samkomulag um þá löggjöf og um skattlagningu til þess að standa undir þeirri löggjöf, annars vegar á milli atvinnurekendasamtakanna og sveitarfélaganna og ríkissjóðs. En einn aðilinn, ríkissjóður, ákveður að hlaupast undan merkjum á sl. hausti og hætta að greiða til atvinnuleysistrygginga þótt allir viðurkenndu, ríkisstjórnin líka, að ástandið væri ískyggilegt
    Nú spyr ég hæstv. forsrh.: Er ætlunin að halda áfram að stýfa framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs? Á bara að gera samþykkt um að auka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs? Ætlar ríkisstjórnin aftur að leggja sjóðnum til, eins og gert hefur verið fram til þessa, eða á að halda áfram að snuða sjóðinn um framlag ríkissjóðs? Þetta skiptir verulegu máli.
    Eins og ég sagði áðan þá held ég að það hefði verið hyggilegra að leggja ekki vörugjaldið á allar þessar vörur sem hér er lagt til og nú á að afnema frá 1. september. Ég spyr hæstv. forsrh. eftir það sem hann sagði áðan, og er rétt, að minnkandi spenna væri á vinnumarkaðinum: Er það eðlilegt að láta þetta ekki koma til framkvæmda fyrr en 1. september? Verða ekki viðbrögð manna þau að þessar vörur verða ekki fluttar inn nú í sumar? Verður ekki beðið með fjölmargar framkvæmdir þangað til í haust eða vetur? Nú bætist einmitt á vinnumarkaðinn skólafólkið sem kvartar nú sáran um að fá ekki atvinnu. Hvers vegna er þá verið að halda sér í þessa dagsetningu? Hvers vegna er þetta ekki fellt niður strax við gildistöku frv.? Ég fæ ekki skilið að þetta sé til hagsbóta. Því ber ég fram þessa fyrirspurn mína.
    Ætlunin er að jöfnunargjaldið, eins og segir í 5. gr., hækki úr 3% í 5%. Hæstv. forsrh. minntist á að söluskattur hefði hækkað úr 20% í 25%, eða um 25%, en hér er lagt til að jöfnunargjaldið hækki úr 3% í 5%, eða eftir mínum reikningum um tæp 67%. Mér finnst það nokkuð mikil hækkun en þó ætla ég ekki að gera neinn hávaða út af því. Það sem ég set fyrst

og fremst út á í þessu frv. er að taka stórlán til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, til deilda sem ekkert eða lítið eiga. Ef vel á að vera og ef taka á tillit til þess sem er að gerast í atvinnulífinu, bæði hvað snertir frystinguna víðs vegar um landið, á að líta á þetta sem ríkisframlag að mínum dómi og það á viðurkenna það strax og heiðarlega.
    Hinu ber að fagna að sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er lækkaður og sömuleiðis að vörugjaldið er fellt niður. Það hefðu þó verið ólíkt heppilegri vinnubrögð að ganga aldrei til þessarar hækkunar í desembermánuði á sl. ári.
    Við sjálfstæðismenn höfum enga löngun til þess að bregða fæti fyrir afgreiðslu þessa máls á nokkurn hátt þó að það sé seint á ferðinni. Við munum taka þátt í að afgreiða málið og greiða fyrir gangi þess í gegnum þingið en okkur finnast þetta mjög dapurleg vinnubrögð sem hér hafa átt sér stað og því full ástæða til þess að gera þær ákveðnu athugasemdir sem ég hef þegar gert í sambandi við þetta mál frá byrjun.
    Ég vil svo í lokin nefna að ekki hafa verið sett ný lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þrátt fyrir margítrekuð loforð. Sjútvn. Nd. var sammála um að leggja til að kjörin yrði sérstök milliþinganefnd til þess að fjalla um þetta mál og það hefur kvisast að hæstv. sjútvrh. hafi orðið mjög vondur þegar hann heyrði um þessa afgreiðslu og hafi viljað koma í veg fyrir það að slík tillaga
næði fram að ganga. Ég vara hæstv. ríkisstjórn við að beita einhverjum slíkum brögðum þar sem nefnd í þinginu er sammála um að málið eigi að fá greiðan aðgang á Alþingi.
    Ég tek undir orð hæstv. landbrh. hér fyrr í dag þegar hann sagði að ráðherrar gætu ekki búist við því að koma öllum sínum frumvörpum fram óbreyttum. Það yrði að taka tillit til þingræðis, það yrði að taka tillit til vilja alþingismanna í þeim efnum. Ég vænti þess að forsetar þingsins greiði fyrir afgreiðslu þessa máls því það er sannarlega kominn tími til að Alþingi taki ákvörðun í þessu mikilvæga máli en láti ekki framkvæmdarvaldinu það í hendur að sitja á úrbótum eins og raun ber vitni.