Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans. Að vísu liggja þau nú ekki öll fyrir. Ég spurði um Atvinnuleysistryggingasjóðinn og framlagið til hans, hvort það væri ætlun ríkisstjórnarinnar að rúa sjóðinn aftur framlagi á næsta ári eins og gert var á þessu ári. Ég gagnrýndi það að rjúfa þríhliða samkomulag sem gert var á sínum tíma þegar til sjóðsins var stofnað. Sömuleiðis gerir frv. ráð fyrir auknum útgjöldum sjóðsins og því er ekki úr vegi að spyrja af þessu tilefni og skal ég ekki hafa um það fleiri orð.
    Þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem fær frv. til meðferðar gefst okkur kostur á því að óska þar eftir ákveðnum upplýsingum eins og þeim hvaða áhrif þessir kjarasamningar hafa á ríkissjóð sjálfan og á atvinnulífið. Það liggur fyrir.
    Það sem ég hef gagnrýnt í sambandi við Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins er ekki að lán sé tekið til sjóðsins til þess að halda uppi atvinnustarfrækslu í landinu, hvorki með 800 milljónunum né þessum væntanlegu 400 millj. kr. samkvæmt frv. heldur hitt að verið er að láta þann sem á ekki neitt vera að taka lánið. Það er verið að taka lán fyrir þann sem ekkert á og getur ekkert borgað. Því segi ég að ég tel það miklu heiðarlegri vinnubrögð að ríkisstjórnin geri tillögu um það í frumvarpsformi til Alþingis að ríkissjóður reiði þetta lán af hendi. Menn óttast að það eigi jafnvel að ganga mjög nærri frystiiðnaðinum á næstu þremur árum, og það er opið á meðan þetta form er haft á, en ekki að ríkissjóður leggi sjóðnum til þetta fjármagn. Þetta kemur alveg á skjön við yfirlýsingar einstakra ráðherra og þá á ég við yfirlýsingu sjútvrh. á sl. hausti við setningu þings Sjómannasambands Íslands.
    Ég ætla ekkert að þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir það þó að gengið hafi breyst þannig að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafi verðlagning á erlendum gjaldeyri hækkað um 15,5%. Það er vitaskuld brýn nauðsyn sem þar var að baki en því miður var allt of lengi beðið og stigið of stutt skref í einu. Ég er alls ekki að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir það. En ósköp held ég að hæstv. viðskrh. sé lítið sannfærður um það í hjarta sínu að það sé betra jafnvægi á lánamarkaði á Íslandi nú og að fyrirtæki í sjávarútvegi eða samkeppnisiðnaði standi betur að vígi en á sl. ári. Ég held að þetta standi hörmulega að vígi og menn geta orðið sammála um það eitt en þeir geta aftur verið ósammála um til hvaða úrræða er nauðsynlegt að grípa. Mér fannst afar lítil sannfæringarkraftur í þessum kafla ræðu hæstv. viðskrh.