Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um framhaldsskóla sem þegar hefur sætt meðferð í hv. Ed. Í frv. er um að ræða eftirfarandi aðalatriði:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að festa betur en gert er í gildandi lögum stöðu framhaldsdeilda við grunnskóla og kemur það fram í 1. gr. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því sama máli í 11. gr. frv., þ.e. að menntmrn. geti heimilað stofnun og starfrækslu framhaldsdeildar við grunnskóla. Námstilhögun og námsframboð í framhaldsdeildum skal vera undir faglegri stjórn þeirra framhaldsskóla er menntmrn. ákveður. Hér er með öðrum orðum verið að taka af skarið varðandi þessar framhaldsdeildir og aðeins skýrar en um er að ræða í gildandi lögum.
    Hið sama er í raun og veru að segja um 2. gr. frv. þar sem verið er að kveða skýrt á um það að kostnaður við byggingu heimavistar verði greiddur af ríkissjóði að fullu. Það var ætlunin þegar lögin voru sett í fyrra, en orðalag var ekki talið nægilega afdráttarlaust í þeim efnum.
    Þá er það 2. málsgr. 2. gr. Í henni felst sú breyting að Alþingi verði heimilað að víkja frá meginreglum um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga þegar skóli er í fámennu sveitarfélagi. Breytingin sem þarna er um að ræða er að þetta er takmarkað við fámenn sveitarfélög en ekki gert ráð fyrir því að ríkissjóður fari að leggja til byggingar framhaldsskóla í stærri sveitarfélögum.
    3. gr. frv. er ein veigamesta greinin. Þar er gert ráð fyrir því að hægt verði að skipta landinu í framhaldsskólasvæði, m.a. er miðað við að höfuðborgarsvæðið geti verið eitt framhaldsskólasvæði, ef um það næst samkomulag við viðkomandi skóla, að Norðurl. e. geti verið eitt framhaldsskólasvæði svo dæmi séu nefnd. Tilgangur þessarar greinar er að tryggja að betur sé staðið að stjórn framhaldsskólans en kostur hefur verið samkvæmt gildandi lögum og sérstaklega að tryggja að þeir fjármunir sem lagðir eru til framhaldsskólanna þeir nýtist sem allra best.
    Í 4. gr. frv. er um að ræða breytingu á skólanefndunum. Þar er gert ráð fyrir því að kennarar og nemendur komi inn í skólanefndirnar. Þetta var nokkurt ágreiningsefni á síðasta þingi og hér er gert ráð fyrir því að kennarar og nemendur séu kallaðir til. Það þýðir að fulltrúar sveitarfélaga yrðu ekki meiri hluti í viðkomandi nefndum heldur minni hluti, enda er það svo samkvæmt sömu lögum og við erum hér að tala um að ríkið á hvort eð er að greiða allan kostnað við framhaldsskóla.
    Í 5. gr. er sú breyting ein gerð að orðinu ,,skólaráð`` er breytt í ,,skólastjórn`` til að undirstrika að þessi stofnun á að vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla og rekstur.
    Í 6. gr. er kveðið skýrar á um hlutverk kennarafunda og um þá grein hefur verið gott samkomulag.
    Í 7. gr. eru þau nýmæli helst að það er gert ráð fyrir því að bæta inn í 12. gr. laganna námsráðgjöfum, skólasafnvörðum svo og áfangastjóra og að þeir hafi tiltekna stöðu við skólana. Meginbreytingin er þó sú

að gert er ráð fyrir því að skólameistari geti ráðið námsráðgjafa, skólasafnverði, stundakennara og aðra starfsmenn og hafi hann þar með meira vald en skólameistarar hafa samkvæmt gildandi lögum.
    Í 8. gr. er enn hreyft á þessum ákvæðum um námsráðgjöf og skólasafnverði.
    Í 9. gr., sem lætur ekki mikið yfir sér á pappírnum, felast veigamikil atriði til breytinga á framhaldsskólalögunum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að inntökuskilyrði sem nú gilda í nokkra skóla verði felld niður. Rökin eru ósköp einfaldlega þau að í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að framhaldsskólinn sé opinn fyrir alla og þess vegna teljum við óeðlilegt að heimila það að sett verði inntökuskilyrði við einstaka skóla svo sem hefur verið. Í annan stað er samkvæmt greininni fellt niður ákvæði um að skylt sé að bjóða upp á fornám í hverjum skóla. Ástæðan er sú að fjöldi skóla hefur ekki haft þetta fornám og það er ekki ætlunin að draga úr því, a.m.k. ekki að sinni, vegna þess að ekki hefur farið fram það endurnýjunarstarf í framhaldsskólunum sem skapar möguleika til þess. Því er gert ráð fyrir því að þessi lagaskylda um fornám verði felld niður þó svo að ljóst sé að fornám verði víða í framhaldsskólum á næsta vetri.
    10. gr. frv. gerir ráð fyrir því að 32. gr. laganna verði sveigjanlegri en í gildandi lögum. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að allir framhaldsskólar fái í raun og veru sömu upphæð til síns rekstrar hvernig svo sem stærð þeirra og verkefnum er háttað. Þetta er óframkvæmanlegt og af þeim ástæðum er hér gert ráð fyrir nokkurri breytingu og meiri sveigjanleika en er í gildandi lögum.
    Við meðferð málsins í hv. Ed. var samhljóða samþykkt tillaga um breytingu á 7. efnismgr. 10. gr. sem hljóðar svo:
    ,,Við gildistöku laganna skal gerður samningur milli menntmrn. og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að
skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, skal greitt hverjum skóla fyrir fram. Heimilt er menntmrh. að semja við hvern skóla um aðra tilhögun ef aðilum þykir ástæða til.``
    Rétt er að taka það fram, virðulegi forseti, að frv. er samið í framhaldi af vinnu reglugerðarnefndar. Það eru einar átta nefndir sem eru að fjalla um reglugerðir sem þarf að setja á grundvelli framhaldsskólalaganna. Það má segja að í raun og veru séu meginbreytingarnar í þessu ábendingar sem fram hafa komið frá þessum nefndum, auk þess sem þarna er tekið af skarið varðandi þætti eins og þá sem eru í 1. og 2. gr. og þykja óljósir í lögunum eins og þau eru.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.