Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla sem sett voru á Alþingi á sl. vori. Eins og mönnum er kunnugt höfðu ekki áður verið til sérstök lög um framhaldsskóla heldur voru lagaákvæðin um framhaldsskóla á víð og dreif og aðallega í ýmsum sérlögum um sérstaka skóla. Því var það talið brýnt að setja heildarlög um framhaldsskólana, lög sem fyrst og fremst væru rammalög og hefðu að geyma ákveðnar meginreglur sem gætu gilt um allt framhaldsskólastigið en síðan yrði að fylla upp í þau með nákvæmari ákvæðum í reglugerðum eftir eðli og sérstöðu hvers skóla fyrir sig. Þessi lög voru frumsmíð og því má segja að það sé ekki óeðlilegt að lög af þessu tagi þurfi að koma til endurskoðunar, ekki síst þegar þau komast til framkvæmda og menn sjá að það kunni að vera nauðsynlegt að breyta einstökum þáttum þeirra.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sú reynsla sem komin er á þessi lög sé allt of stutt til að fara að gera verulegar breytingar á þeim og tel miður að hæstv. menntmrh. skuli hafa lagt frv. af þessu tagi fram fyrir Alþingi og leggi mikla áherslu á að það verði afgreitt fyrir þinglok, ekki síst vegna þess að frv. er afar hroðvirknislega unnið og mjög kastað höndum til undirbúnings þessa máls. Þetta kemur gleggst fram í því að það eru til þrjár prentaðar útgáfur af þessu frv. Það var fyrst lagt fram, síðan kom önnur útgáfa sem var prentuð upp og loks þriðja útgáfa sem var endurprentuð upp. Þetta sýnir auðvitað hvað kastað er höndum af hálfu hæstv. ráðherra um jafnveigamikið og mikilvægt mál og hér um ræðir.
    Það kemur ekkert fram í grg. með frv. hvernig frv. er tilkomið. Hver samdi það? Er þetta samið af skólamönnum eða af hæstv. ráðherra sjálfum? Eru þetta einhverjir embættismenn eða hvaða hugmyndir eru þarna á bak við sem reka ráðherra til þess að flytja frv. nú á þessu vori? Frv. ber það auðvitað með sér að á því eru svona ákveðin fingraför, ég vil segja embættismanna. Það er afturför að vissu leyti. Það er óneitanlega verið að draga á vissan hátt úr sjálfstæði skólanna sem er auðvitað þvert ofan í þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra er að gefa í tíma og ótíma. Því vekur það furðu að hæstv. ráðherra skuli þvert ofan í allar sínar fyrri yfirlýsingar leggja fram þetta frv. og leggja jafnmikla áherslu og raun ber vitni á að það verði afgreitt.
    Ég vil við 1. umr. þessa máls fara nokkuð yfir einstakar greinar frv. og gera þær að umtalsefni. Ég á að vísu sæti í menntmn. þessar hv. deildar og hef þar tök á því að fara ítarlega yfir frv. en ég tel þó rétt við þessa 1. umr. að drepa á nokkur atriði varðandi einstakar greinar.
    1. gr. frv. fjallar um framhaldsdeildir við grunnskóla og á að skerpa orðalag sem fyrir er í lögunum. Það er reyndar ekki alveg ljóst hver er tilgangurinn með þessari grein því að í 1. gr. núgildandi laga er raunar ótvírætt að lögin um framhaldsskóla taka til framhaldsdeilda. Í lögunum stendur að þau taki til náms á framhaldsskólstigi eins

og nánar er svo síðan skilgreint í greininni. Síðan segir: ,,Enn fremur framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntmrn. heimilar.`` Þessu er nú breytt í: ,,... sem menntmrn. hefur heimilað og mun heimila.`` Það kann vel að vera að þetta sé skýrara orðalag en það er erfitt að sjá tilganginn með þessu. Framhaldsdeildir við grunnskóla eru, eins og mönnum er kunnugt um, nokkuð umdeildar og ég skal aðeins víkja nánar að því á eftir þegar kemur að nánari ákvæðum um þær í þessu frv.
    Í 2. gr. er fjallað um kostnað við byggingu heimavista og í staflið a er ákvæði um að ríkið greiði allan stofnkostnað við byggingu heimavistar, en um það var reyndar skýrt kveðið á um í 6. mgr. 3. gr. núgildandi laga. Mér sýnist reyndar að eins og ákvæðið er þá sé það alveg ótvírætt, en út af fyrir sig er ekkert sem mælir gegn því að skerpa það enn frekar en það virðist tæplega vera tilefni sérstakrar lagasetningar. En í b-staflið 2. gr. frv. er heimild til ríkissjóðs með samþykki Alþingis að greiða hærra hlutfall stofnkostnaðar en 60%, eins og meginregla laganna er, þegar skóli er í fámennu byggðarlagi, þ.e. þegar um er að ræða fámenn eða févana byggðarlög. Það kann að vera að ákvæði af þessu tagi eigi rétt á sér en mér finnst hins vegar að úr því að verið er að flytja frv. sem á að skerpa skilning manna á ákveðnum þáttum laganna og auðvelda framkvæmd laganna sé þetta ákvæði mjög óljóst og þyrfti auðvitað að reyna að setja á ákveðnari reglur um það í lögunum hvers konar sveitarfélög er hér um að ræða.
    Ég vek t.d. athygli á því að í frv. til laga sem nú er til meðferðar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er sett inn ákveðið ákvæði varðandi tónlistarskóla. Við þekkjum deilurnar um tónlistarskóla og hverjir eigi að reka þá, þ.e. hvort það eigi að vera ríkið eða sveitarfélög. Það ákvæði er einmitt sett inn í þau lög til þess að koma í veg fyrir að févana eða fámennari byggðarlög líði fyrir setningu þessara laga. Þar er miðað við 700 manna byggðarlög og gert ráð fyrir því að þau fái úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sömu greiðslur vegna reksturs tónlistarskóla og þau hafa haft, þ.e. helming kennslukostnaðar. Ég hefði talið að ákvæði af þessu tagi ættu að
koma inn í frv. eins og hér um ræðir því að þetta er mjög óljóst og auðvitað er spurning hvernig eigi að túlka þetta ákvæði. Hér stendur að vísu að heimilt sé með samþykki Alþingis að víkja frá meginreglum um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga þegar skóli er í fámennu sveitarfélagi. Spurningin er þá sú: Er þetta einföld fjárlagaafgreiðsla eða hvernig mundi slík ákvörðun koma til þegar um það er að ræða að auka á kostnaðarhlutdeild ríkisins?
    3. gr. frv. fjallar um samstarfsnefnd framhaldsskóla og er um að ræða breytingu á 6. gr. núgildandi laga sem kveður nánar á um verkefni slíkrar samstarfsnefndar og jafnframt að menntmrh. sé heimilt að skipta landinu í framhaldsskólasvæði. Ég minnist þess að á síðasta þingi flutti Alþb. sérstakt frv. um framhaldsskóla, og reyndar síðan ítarlegar brtt. við það frv. sem síðar varð að lögum, þess efnis að landinu

yrði skipt upp í fræðsluumdæmi á framhaldsskólastigi á sama hátt og gert var á grunnskólastigi. Þær tillögur náðu ekki fram að ganga og rökin fyrir því voru þau að það væri ástæðulaust að flækja svo mjög stjórnsýslu hinna tiltölulega fáu framhaldsskóla í landinu. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort verið sé að endurtaka þessa hugmynd og opna leið fyrir stjórnunarkerfi af því tagi, sem ég mundi telja mjög miður og allt of þunglamalegt, að setja grunnskólana undir fræðsluskrifstofur eins og meiningin var í frv. Alþb. á síðasta þingi.
    Það er auðvitað í lagi að setja í lög nokkur nánari ákvæði um samstarfsnefndir framhaldsskólana og hver eigi að vera helstu verkefni þeirra. Hins vegar fyndist mér frekar að það ætti að vera reglugerðarákvæði. Mér sýndist að allt það sem þarna er tilgreint, nema skipting landsins í framhaldsskólasvæði, rúmist innan þeirra laga sem nú gilda um framhaldsskólann.
    Í 4. gr. er um að ræða breytingar á skipun skólanefndanna, en um skólanefndirnar og skipan þeirra var nokkur ágreiningur hér á síðasta þingi. Samkvæmt núgildandi lögum mega sitja í skólanefndum fimm menn, þ.e. fjórir tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða sveitarfélögum og jafnframt einn sem menntmrh. skipar án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Meiningin með þessum skólanefndum var að treysta samstarf við borgarana í viðkomandi sveitarfélögum. Ég vek athygli á að þar sem það hefur tíðkast hefur það gefið góða raun. Við samningu laganna voru til fyrirmyndir um skólanefndir af þessu tagi, ég nefni t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík og iðnskólana þar sem slíkar skólanefndir hafa verið. Þau tengsl við sveitarfélögin, þau tengsl við fólkið í viðkomandi byggðarlögum eru að mati þeirra skólamanna, sem við þessa skóla starfa, mjög til góðs. Þau hafa treyst samvinnu skólanna og fólksins í viðkomandi byggðarlögum sem á auðvitað mjög mikið undir því hvernig skólarnir starfa, t.d. hvert námsframboð er í viðkomandi skóla.
    Samkvæmt þessu ákvæði eiga sveitarstjórnir að skipa minni hluta skólanefndanna, þ.e. þrjá af sjö, en síðan skipa starfsmenn tvo, nemendur einn og ráðherra einn. Með því eru fulltrúar fólksins í viðkomandi byggðarlögum komnir í minni hluta í skólanefndunum sem eru orðnar að meiri hluta nefndir starfsfólks í skólunum, nemenda og menntmrh. Það má að vísu segja sem svo að þegar ríkið er orðið aðalrekstraraðili framhaldsskólanna sé ekki rétt að sveitarstjórnir skipi meiri hluta skólanefnda. En ef maður hefur hins vegar í huga verkefni skólanefndanna eins og þau eru, t.d. varðandi námsframboð í viðkomandi skólum, sem er mjög mikilvægt fyrir byggðarlögin, held ég að það sé miður að minnka þessi tengsl á milli fólksins á viðkomandi stöðum og skólanna með því að gera starfsfólkið raunverulega að meirihlutaaðilum í skólanefndunum.
    Það er rétt að benda á að það er ekki gert ráð fyrir því að 8. gr. laganna verði breytt, en þar er fjallað um verkefni skólanefnda. Þar er í 1. mgr. tilgreint að skólanefnd og skólameistari ákveði námsframboð með

samþykki menntmrn. Hér er fyrst og fremst átt við að skólanefnd fjalli um hvers konar nám er í boði í hverjum framhaldsskóla fyrir sig. Eins og ég sagði þá er það mjög mikið hagsmunamál þess fólks sem býr á viðkomandi stöðum.
    Þá er í 2. mgr. 8. gr. laganna fjallað um afskipti skólanefnda af fjárlögum og fjármálastjórn skólanna. Á hinn bóginn er í lögunum gert ráð fyrir að skólaráð, en það er vettvangur skólameistara, kennara og nemenda, verði skólameistara til aðstoðar við ýmiss konar faglega stjórnun skólanna. Það var sem sagt verið að gera nokkurn greinarmun annars vegar á verkefni skólanefndanna og hins vegar skólaráðanna í lögunum. Skólanefndirnar áttu fyrst og fremst að fjalla um það sem snýr út á við, þ.e. að fólkinu á viðkomandi stöðum, en skólaráðin, þar sem kennarar og annað starfslið skólanna átti aðild, átti fyrst og fremst að fjalla um hinn faglega þátt í skólastarfinu. Þessu er sem sagt ekki breytt og manni virðist að verkaskiptingin á milli þessara tveggja stofnana innan skólanna sé orðin nokkuð óljós, ekki síst þegar maður hugar að öðrum breytingum sem síðar koma í þessu frv.
    Þá er í 4. gr. frv. gerð sú breyting að menntmrh. skipar ekki formann skólanefndar heldur velur nefndin sér formann til tveggja ára í senn. Það er rökstutt með því að þetta auki á lýðræðislegan hátt sjálfstæði skólanna. Ég
tel satt að segja mikið vafamál að þetta verði til bóta þegar haft er í huga hvernig skólanefndirnar verða skipaðar ef þessi brtt. nær fram að ganga. Ég get ekki fallist á þau rök að þetta auki sjálfstæði skólanna. Ég tel þvert á móti að ýmis ákvæði í frv. dragi úr sjálfstæði skólanna og þetta nái engan veginn til þess að vega upp á móti því.
    Þá eru það einnig nýmæli í 4. gr. að nú er gert ráð fyrir að tveir eða fleiri skólar í sama kjördæmi geti sameinast um eina skólanefnd og talið að það geti stuðlað að nánara samstarfi skóla en verið hefur. Með undirbúningi framhaldsskólafrumvarpsins, sem varð að lögum á sl. vori, var þetta einmitt mjög mikið rætt. Niðurstaðan varð sú að hafa eina skólanefnd við hvern skóla til þess að tryggja sjálfstæði skólanna. Það er enginn vafi á því að hægt er með einni skólanefnd yfir marga skóla, t.d. í einu kjördæmi eða á einhverju landsvæði eins og á höfuðborgarsvæðinu, að tryggja alls kyns samræmi og samhæfingu en þá er skólanefndin orðin stjórnunaraðili fyrir marga skóla og auðvitað dregur það úr sjálfstæði viðkomandi skóla. Hugmyndin á bak við lögin var sú að stíga, ég vil segja, fyrsta skrefið í átt til sjálfstæðis framhaldsskólanna en nú er verið að stíga hálft skref til baka með þeim hugmyndum sem koma fram í frv.
    Í 5. gr. þessa frv. er gerð sú breyting að í staðinn fyrir orðið ,,skólaráð`` komi: skólastjórn. Með öðrum orðum er einungis breytt nafni á skólaráðinu en hlutverki þess er ekki breytt. Það skiptir litlu máli hvort þetta stjórnunarverkfæri heitir skólaráð eða skólastjórn. Meginatriðið er hvaða hlutverki á þetta ráð að gegna. Mér finnst mikið vafamál að það sé

nauðsynlegt að halda skólaráði eða skólastjórn í þessu formi ef skólanefndirnar verða skipaðar eins og lagt er til í 4. gr.
    Þá hefur enn fremur verið gert ráð fyrir því í frv. að inn í skólaráðið eða skólastjórn komi áfangastjóri, ef hann starfar við skólann. Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. Ég vek hins vegar athygli á því og ítreka að það eru orðin mjög óljós og óglögg mörk á milli verkefna skólanefndar og skólaráðs. Ég sé raunar ekki tilganginn í því lengur að halda þessum tveimur stjórnunarapparötum í gangi í skólunum og þá ekki síst með það í huga hvernig þau eru skipuð, þ.e. að nú eru það kennarar, nemendur og fulltrúar menntmrh. sem skipa meiri hluta þessara nefnda, en það var einmitt tilgangurinn með skólaráðunum að hinn faglegi þáttur kæmi þar inn. Því er vandséð hvers vegna á að halda þeim nú eftir þessa breytingu.
    Í 6. gr. er fjallað um almenna kennarafundi. Í þessum brtt. er nánar skilgreint hvert eigi að vera hlutverk kennarafundar. Ég sé auðvitað ekkert við það að athuga þó að ég telji auðvitað að eins og lögin voru orðuð hefði þetta verið einfalt reglugerðaratriði að skilgreina kennarafundi og þeirra verkefni eins og nú er gert í frv.
    Í 7. gr. er fjallað um skipan í stöður í framhaldsskólunum. Samkvæmt núgildandi 12. gr. framhaldsskólalaganna á menntmrh. að setja eða skipa skólameistara framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefnda. Það er ekki gerð tillaga um að breyta því en samkvæmt lögunum á menntmrh. að setja eða skipa fasta kennara að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara viðkomandi skóla. Skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. En hér er lögð til sú breyting að skólameistari ráði kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði að fengnum tillögum skólanefndar en felld er niður setning þessara starfsmanna, eins og verið hefur til þessa. Hins vegar á menntmrh. að ganga frá skipun þeirra þegar um það er að ræða.
    Mér finnst í rauninni mjög óljóst samkvæmt þessu ákvæði hver staða þessara starfsmanna verður og hver sé munurinn á ráðningu og setningu. Það þarf nánari skýringar frá hæstv. ráðherra um það efni. Er hér t.d. verið að fara inn á það svið að fyrst og fremst sé um að ræða störf þar sem gagnkvæmur uppsagnarréttur er og að hér sé verið að hverfa frá æviráðningum og meginreglan eigi að vera sú að fólk sé fyrst og fremst ráðið í störf við skólana? Það má lesa út úr frv. að það eigi að vera undantekning ef menn séu skipaðir í skólana. Því er nauðsynlegt að fá um þetta nánari skýringu frá hæstv. ráðherra og nauðsynlegt að viðkomandi nefnd, þ.e. menntmn. Nd., fari nánar ofan í þetta ákvæði.
    Þá er bætt inn í þessa grein ákvæði þess efnis að skólameistari ráði aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn, áfangastjóra til fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Hér er um nýtt ákvæði að ræða, en áður var gert ráð fyrir því að skólameistari réði aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Það er ekki sérstaklega gert ráð fyrir

tímabundinni ráðningu í núgildandi lögum og er e.t.v. ekkert við það að athuga að störf af þessu tagi séu á þann veg að til þeirra sé ráðið tímabundið.
    Um 8. gr. er ekki mikið að segja en þar er gert ráð fyrir að setja skuli í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið námsráðgjafa og skólasafnvarða. Ekki er hægt að gera miklar athugasemdir við það.
    Í 9. gr. er ákvæði sem ekki lætur mikið yfir sér en felur í sér verulegar efnisbreytingar frá núgildandi lögum. Hér er um að ræða breytingu á 16. gr.
laganna, þ.e. um inntökuskilyrði í framhaldsskóla. Fyrri málsgrein 16. gr. orðast svo, eins og hún er nú í lögunum:
    ,,Allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskyldum lágmarksárangri.``
    Síðari málsgreinin er svohljóðandi:
    ,,Nemandi sem orðinn er 18 ára gamall getur hafið nám í framhaldsskóla án þess að fullnægja inntökuskilyrðum samkvæmt þessari grein nema að því er varðar starfsþjálfun. Heimilt er að setja lágmarkskröfur til inntöku í tiltekna námsáfanga. Inntaka nemenda í skóla er á ábyrgð skólameistara.``
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að úr fyrri málsgreininni falli niður setningin: ,,Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskyldum lágmarksárangri.`` Enn fremur er ráðgert að niður falli úr lögunum setningin: ,,Heimilt er að setja lágmarkskröfur til inntöku í tiltekna námsáfanga.``
    Rökstuðningur með þessu er sá að það þyki ekki í samræmi við ákvæði greinarinnar, að allir eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskólum, að geta skyldað nemendur til að stunda fornám í einstöku námsgreinum og það þyki heldur ekki í samræmi við rétt nemenda til náms og að skólinn verði að gefa nemendum kost á námi við hæfi hvers og eins að setja hugsanleg skilyrði um lágmarkskröfur eingöngu í ákveðna námsáfanga.
    Með öðrum orðum er með þessu verið að afnema allar hömlur á inngöngu manna í framhaldsskóla. Ég er ósammála þessu og held að það geti haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar og sé í nokkru ósamræmi við umræðu skólamanna nú þessa dagana. Fornámsáfangar eru hagkvæmir þeim nemendum sem ekki hafa nægilegan undirbúning til þess að geta fylgst með öðrum nemendum í byrjunaráföngum á framhaldsskólastigi. Því er það mjög slæmt ef ráðuneytið ætlar að hindra það að fornámsáfangar verði starfræktir, en ég tel að það verði auðvitað gert ef ákvæðin um fornám verða felld úr núgildandi lögum.
    Ég tel líka að það sé óeðlilegt að taka algerlega út úr lögunum heimild skóla til að setja lágmarkskröfu til inntöku í tiltekna námsáfanga. Ég tel raunar að þetta eigi ekkert skylt við frelsi manna til að setjast í

framhaldsskóla. Lögin kveða auðvitað mjög á um rétt manna til að stunda framhaldsskólanám, en það er enginn vafi á því að það hefur horft til hægri verka að sumir skólar hafa um langt skeið notað takmarkanir. Ég nefni t.d. Menntaskólann í Reykjavík sem hefur áratugum saman haft þá reglu að nemendur þurfi lágmarkseinkunn í stærðfræði til að komast í eðlisfræðideildir. Með þessu mundi skólinn ekki lengur hafa heimild til slíkrar takmörkunar.
    Ég vek líka athygli á því og ítreka það að þessi tillaga er mjög í ósamræmi við þá gagnrýni skólamanna sem hefur beinst að því undanfarnar vikur að lögin sem sett voru á sl. vori séu of opin, þ.e. að of litlar hömlur séu á inntöku manna í framhaldsskóla. Um þetta fjallaði t.d. ítarleg fréttagrein í Tímanum þann 11. apríl þar sem rætt var við forsvarsmenn framhaldsskólanna. Ég tel nauðsynlegt við þessa umræðu að vitna í þessa grein. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sl. haust samþykkti Alþingi ný lög um framhaldsskóla, samkvæmt þeim eiga allir þeir nemendur sem lokið hafa grunnskólanámi rétt á inntöku í framhaldsskóla burtséð frá einkunn. Vegna þessa má búast við að mun fleiri nemendur sæki um inngöngu í framhaldsskóla næsta haust en nokkru sinni fyrr.
    Samkvæmt eldri reglunum sem giltu um námsárangur í grunnskóla var gert ráð fyrir því að um 25% hvers árgangs uppfyllti ekki þau skilyrði sem voru varðandi inngöngu í framhaldsskólana. Meðalárgangur telur um 4000 manns. Stærð árgangs er á bilinu 3800 til 4300 manns. Undanfarin ár hafa um 70% farið í framhaldsnám að loknu grunnskólaprófi en næsta haust gæti svo farið að um 1000 fleiri nemendur sæktu um inngöngu í framhaldsskólana en áður.
    Framhaldsskólarnir hafa á undanförnum árum metið umsóknir út frá búsetu viðkomandi svo og árangri á grunnskólaprófi sem samanstendur af samræmdum prófum og skólaeinkunn. Að þessu sinni munu um 4200 nemendur þreyta samræmdu prófin í lok aprílmánaðar.`` --- Þessi grein er skrifuð áður en menn gerðu sér grein fyrir hvaða afleiðingar yfirstandandi verkfall mundi hafa á samræmdu prófin að þessu sinni. Áfram segir: --- ,,Líklegt verður að telja að óvenjumikil þrengsli verði í framhaldsskólunum næsta haust, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og verða væntanlega einhverjar hömlur settar á umsóknir um inngöngu. Til dæmis er líklegt að þeim umsækjendum sem eiga kost á framhaldsnámi í heimabyggðum verði vísað þangað í stað þess að heimila þeim að sækja nám fjarri heimabyggð sinni.
    Í viðtölum sem Tíminn átti við nokkra forsvarsmenn í framhaldsskólunum kom fram að þeir eru ekki ýkja hrifnir af þessari nýbreytni, fyrst og fremst vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á fjárveitingum til skólanna eða meiri fjölbreytni í námsvali sem myndi hugsanlega höfða til þeirra nemenda
sem hefðu sýnt slakan árangur og takmarkaðan áhuga

á bóklegu námi. Einnig er talið að þetta nýja fyrirkomulag valdi því að unglingar slái slöku við námið vitandi það að engin inntökuskilyrði eru fyrir hendi. Þó verður að telja fullvíst, miðað við þróun undanfarinna ára, að framhaldsskólarnir muni taka mið af þeim einkunnum nemenda er þeir fjalla um þær umsóknir sem berast.
    Í einum menntaskólanna fengust þær upplýsingar að brottfall frá námi á fyrsta námsári er á bilinu frá 20--30% og er ljóst að því lægri einkunnir sem nemandi hefur á grunnskólaprófi því meiri líkur eru á að hann hverfi frá náminu. Telja því margir þetta slæma breytingu á lögunum sem geri ungu fólki engan greiða, það sólundi einu ári til einskis við að komast að því að bóklegt framhaldsskólanám er ekki við þeirra hæfi. Á sínum tíma var einn megintilgangur með grunnskólaprófinu að veita forspá um möguleika viðkomandi nemenda í bóknámi.
    Hinir sömu telja að vandinn sé raunverulega sá, að ekki hefur verið til nám við hæfi þeirra einstaklinga sem ekki hafa náð grunnskólaprófunum og með þessum nýju lögum sé vandanum velt yfir á framhaldsskólana í stað þess að taka á honum í ráðuneytinu. Leiðin til að leysa þennan vanda sé ekki sú að fella niður inntökuskilyrðin, vandinn verði áfram óleystur því ekki er gert ráð fyrir að skólarnir breyti kennsluháttum sínum eða settar verði á fót nýjar námsbrautir. Þegar fyrstu fjölbrautaskólarnir voru settir á stofn var boðið upp á nám sem höfðaði til þeirra sem höfðu takmarkaðan áhuga á hefðbundnu bóknámi eða langskólanámi. Þessar brautir eru að mestu leyti horfnar í dag og telja margir ástæðuna vera þá að foreldrar leggi hart að börnum sínum að sækja hefðbundið bóknám í framhaldsskólunum. Í þessu sambandi hefur verið nefnt að leggja þurfi meiri áherslu á námsráðgjöf fyrir unglingana.``
    Þetta var tilvitnun í grein í Tímanum sem endurspeglar þá umræðu sem átt hefur sér stað meðal skólamanna að undanförnu sem telja að framhaldsskólalögin séu of opin að þessu leyti, þ.e. það séu of litlar hömlur á inntöku manna í framhaldsskóla. Nú tel ég að sú umræða sé auðvitað á misskilningi byggð að sumu leyti vegna þess að menn einblína um of á bóknámsskólana, þ.e. menntaskólana eins og við erum vön að kalla þá skóla sem veita stúdentspróf. Framhaldsskólalögin eru eðli sínu samkvæmt rammalög sem eiga að gilda um alla þætti framhaldsskólanáms, þ.e. bæði bóknám og verklegt nám. Einmitt þess vegna tel ég að það sér rangt að afnema úr núgildandi lögum þá heimild sem er til þess að setja ákveðin inntökuskilyrði í vissa námsáfanga, eins og Menntaskólinn í Reykjavík hefur t.d. gert varðandi eðlisfræðibraut þar sem krafist er ákveðinnar einkunnar í stærðfræði svo að dæmi sé nefnt.
    Í 10. gr. eru lagðar til veigamiklar breytingar á kaflanum um fjárhagslegan rekstur framhaldsskóla. Veigamesta breytingin er sú að samkvæmt núgildandi lögum er rekstrarkostnaði framhaldsskóla skipt í tvo meginþætti, þ.e. launakostnað, sem áður er

skilgreindur, og annan rekstrarkostnað. Eins og frv. var upphaflega lagt fram var gert ráð fyrir því að sjálfstæði skólanna yrði mjög skert að þessu leyti. Núgildandi lög gera ráð fyrir því að ríkissjóður greiði launakostnað beint til starfsmanna, en rekstrarframlagið átti að greiðast fyrir fram til skóla ársfjórðungslega. Hér er um mjög veigamikið atriði að ræða til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði skólanna og gera skólastjórnendur ábyrga fyrir hinum fjárhagslega rekstri. Að vísu hefur þessu ákvæði verið breytt í Ed. og ég tel líklegt að það hafi verið fyrir áhrif Skólameistarafélagsins. Nú er sem sagt gert ráð fyrir því í frv. að rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, skuli greitt hverjum skóla fyrir fram. Ég tel mjög mikilvægt að menntmn. Ed. skuli hafa komið viti fyrir hæstv. ráðherra að þessu leyti, þ.e. að hann hafi ekki komist upp með það að skerða fjárhagslega sjálfstæði skólanna eins og að var stefnt með upphaflega frv. Hins vegar er gert ráð fyrir því að það sé gerður samningur milli menntmrn. og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Það er ekki gert ráð fyrir því að þetta sé greitt ársfjórðungslega eins og í lögunum og raunar vantar að skilgreina nánar, eins og ákvæðið er núna eftir meðferð Ed., hversu oft á að greiða slíkt framlag. Á að greiða framlagið í eitt skipti fyrir öll fyrir fram? Á það að vera mánaðarlega eða ársfjórðungslega? Það vantar inn í frv. eins og það er núna.
    Ég tortryggi dálítið þessa breytingu og ég skal skýra hvers vegna. Það var auðvitað ljóst þegar verið var að semja frv. um framhaldsskólalögin og verið var að reyna að efla sjáfstæði skólanna að embættismenn bæði í fjmrn. og menntmrn. voru mjög andvígir þessu ákvæði. Það kom m.a. fram í því að fulltrúi fjmrh. sem átti sæti í undirbúningsnefndinni skilaði séráliti um þennan þátt og þeir sem fjalla um fjármál í menntmrn. eru líka andvígir þessu. Þeir vilja auðvitað geta skammtað fjármagnið til skólanna eins og þeir hafa gert og ef skólarnir hafa náð að spara á einhverjum lið hafa þeir í engu notið þess í öðrum lið. Það fjármagn hefur hreinlega verið af þeim tekið og skömmtunarstjórn ráðuneytanna verið allsráðandi. Þegar búið er að setja það
ákvæði inn að um þetta eigi að gera samning er það háð samþykki ráðuneytisins hvernig þetta verði framkvæmt og ljóst að það verður aldrei gengið lengra en ráðuneytið sjálft telur æskilegt. Þegar maður hefur í huga viðhorf embættismannanna í ráðuneytinu til þessa ákvæðis þá óttast ég að með þessu sé raunverulega verið að skerða þetta fjárhagslega sjálfstæði sem skólarnir þó fengu, þó ekki nema að hluta, með lögunum eins og þau voru samþykkt á sl. vori. Því tel ég að þetta þurfi að athugast betur og kanna verði þetta ákvæði frekar í viðkomandi nefnd.
    Það er enn fremur gert ráð fyrir því að afnumið verði það ákvæði að framlög til skólanna skuli vera sem næst jafnhá hvar sem er á landinu og framlögin

skuli ákveða sem tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega. Þetta atriði var mjög umrætt þegar lögin voru til meðferðar á Alþingi á sl. vetri og óttuðust sumir að fámennari skólar mundu gjalda þessa ákvæðis. Í 34. gr. laganna, sem nú á að afnema, er mjög kveðið á um að þurfi að taka tillit til sérstakra aðstæðna skuli veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf. Nú er sem sagt lagt til að afnema þessar leiðbeiningar í lögunum um fjárframlög til skóla og það algerlega lagt á vald fjárveitingarvaldsins, þ.e. viðkomandi ráðuneyta og Alþingis, að ákveða reksturskostnað fyrir hvern skóla.
    Ég vek sérstaka athygli á því að í greinargerð í kaflanum þar sem fjallað er um 11. gr. segir að í upphafi sé stefnt að því að rekstrarframlagið, annað en kennslulaun, sé greitt hverjum skóla fyrir fram. Um þetta er ekki stafkrók að finna í lagagreininni sjálfri en eftir meðhöndlun Ed., þ.e. samkvæmt þeirri brtt. sem Ed. samþykkti, er þó komið inn ákvæði um þetta sem er þó miklu óljósara en það sem var í greininni sjálfri.
    Í 11. gr. er gert ráð fyrir því að inn komi nú ákvæði um stofnun og starfrækslu framhaldsdeilda við grunnskóla og er það í samræmi við þá breytingu sem einnig var gerð á 4. mgr. 1. gr. laganna. Helsta nýmæli hennar er að ákveðið er að framhaldsdeildir skuli vera undir faglegri stjórn framhaldsskóla til að tryggja samræmingu á landsframboði og samstarfi milli nálægra skóla. Þegar frv. var til meðferðar voru ýmsir skólamenn, þar á meðal skólameistarar framhaldsskólanna, andvígir því að sett yrði inn í lögin ákvæði um framhaldsdeildir grunnskóla og báru því m.a. við að of mikil freisting væri á hinum ýmsu stöðum að setja framhaldsdeildir sem mundu útþynna framhaldsmenntun og gera að verkum að hinir eiginlegu framhaldsskólar sem sinntu því hlutverki eingöngu yrðu undir í baráttunni og nám þeirra yrði þar með útþynnt. Ég skal viðurkenna við nánari athugun að ég er ekki viss um að þessi rök skólameistaranna standist. Ég tel að það sé frekar til bóta að setja ákvæðið um framhaldsdeildir við grunnskóla inn í lögin. Reyndar var ráð fyrir því gert í lögunum, eins og frá þeim var gengið, að það yrði áfram heimild til að stofna slíkar framhaldsdeildir, en það var ekki skilgreint eins og í þessu frv. að þær skyldu starfa undir faglegri stjórn framhaldsskóla. Þarna stangast auðvitað á tvenns konar sjónarmið, annars vegar áhugi heimamanna á að halda nemendum í sinni heimabyggð sem lengst, a.m.k. tvö fyrstu árin í framhaldsskóla, og það er sjónarmið sem hlýtur að verða virða, þ.e. að foreldrar vilja ekki senda börn sín, sem eru á viðkvæmum aldri, úr byggðarlaginu í framhaldsskóla annars staðar. Hitt sjónarmiðið er svo aftur það að ef framhaldsskóli á að standa raunverulega undir nafni verður hann að geta boðið upp á sæmilega gott úrval af námsbrautum og það verður auðvitað ekki gert nema nemendur séu fyrir hendi. Því er hætta á að of mikil fjölgun framhaldsdeilda valdi því að framhaldsskólarnir útþynnist og það nám sem þeir bjóða sé ekki eins gott

og fjölbreytt og æskilegt væri. Því tel ég að reyna verði að fara bil beggja í þessu efni og nýta heimild af þessu tagi mjög varlega svo að framhaldsnámið sé ekki þynnt út um of.
    Það er rétt að vekja athygli á því að í fyrstu tveimur útgáfunum --- eins og ég sagði áðan kom þetta frv. út í þremur útgáfum --- var mjög sérkennilegt ákvæði um Verslunarskólann og Samvinnuskólann sem reyndar var svo kippt út í þriðju útgáfunni. Það var gert ráð fyrir því að um yfirstjórn Samvinnuskólans og Verslunarskólans færi eftir öllum almennum ákvæðum þessara laga en skipan skólanefnda þessara skóla var áður ekki með sama hætti eins og við aðra framhaldsskóla, eins og stóð í greinargerð með frv. Hæstv. ráðherra sá þann kostinn að taka þetta út úr frv. enda vafamál að ákvæði af þessu tagi gætu staðist þegar haft er í huga að hér er um að ræða sjálfstæða einkaskóla sem ríkið stendur að vísu við bakið á samkvæmt sérstökum samningum og sérstökum ákvörðunum. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa séð að sér í þessu efni. Ég efast ekkert um að hann hafi haft fullan vilja til þess að reyna að ná meira valdi og áhrifum yfir þessa ágætu skóla en hvarf frá því ( Menn tmrh.: Nauðugur.) nauðugur, eins og hann segir, væntanlega vegna þess að hann hefur áttað sig á að ákvæði af þessu tagi mundi alls ekki standast. Litið er á það sem hreint ofbeldi að Alþingi samþykkti lög af þessu tagi á þessa skóla.
    Að lokum er gert ráð fyrir því að felld séu úr gildi ákvæði 5. gr. laganna um heyrnleysingjaskóla. Það er auðvitað ekkert við því að segja miðað við þær skýringar sem gefnar eru á því í greinargerð með frv.
    Ég hef, herra forseti, farið yfir einstakar greinar frv. lið fyrir lið. Ég tel nauðsynlegt að einstakar greinar þess séu ítarlega athugaðar í menntmn. Nd. Mér sýnist að þarna þurfi endurbóta við. Ég hefði auðvitað ekki talið æskilegt að nú á síðustu þingdögum væri verið að knýja frv. fram. Það er raunverulega ekkert sem knýr á að svo sé gert. Það eru heimildir í núgildandi lögum sem hæstv. ráðherra getur notað og fyllt nánar út með reglugerðum um mörg af þessum atriðum sem þarna koma fram. Um önnur atriði er verulegur ágreiningur og því hefði þurft að athuga og kanna mun rækilegar þau atriði sem þar er fjallað um. Auk þess, eins og ég hef getið um, er frv. afar illa unnið. Það er mikil hrákasmíð og hroðvirknislega unnið og mjög kastað til þess höndunum. Frekari athugasemdir og umræður um þetta munu þá væntanlega fara fram í menntmn. þessarar hv. deildar.