Framhaldsskólar
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær ítarlegu umræður sem hér hafa farið fram um frv. Það er bersýnilegt að það er ágæt samstaða um ýmsa þætti í frv. þó að þeir hv. þm. sem hér hafa talað nálgist málið kannski með talsvert öðrum hætti en ég hef gert. Ég tel að það hafi t.d. komið ágæt samstaða fram um 1., 2., 5., 6., 11. og 12. gr., svo ég nefni dæmi. En auðvitað vakna margar spurningar um meðferð máls af þessu tagi og það er ekkert við því að segja og er það fullkomlega eðlilegt.
    Ég vil þakka báðum hv. þm. fyrir þær athugasemdir sem þeir gerðu og tel að þær séu út af fyrir sig allar umhugsunarverðar. Út af athugasemdum hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar vegna 3. gr. vil ég segja að það kann að vera að málið sé flókið, eins og hér er gert ráð fyrir, en framhaldsskólakerfið hjá okkur er nú dálítið flókið. Þetta er mjög mismunandi eftir kjördæmum og það er mjög erfitt að finna almenna reglu. En það er mjög nauðsynlegt að stuðla að samstarfi þessara skóla, bæði um námsframboð og innritun og fleira, til þess m.a. að spara peninga. Af þeim ástæðum er þessi grein hér sett fram. Það er út af fyrir sig hugsanlegt að eitthvað af þessu mætti gera með reglugerðum. Mér finnst þó betra að þingið taki á svona málum ef nokkur kostur er. Það er svona almennt viðhorf sem ég hef í þeim efnum. Ég held satt að segja að ráðherrar reyni stundum fullmikið á reglugerðarþanþol laganna að ekki sé meira sagt.
    Varðandi 4. gr. þá er auðvitað vandi að finna leið til þess að skipa skólanefnd. Fulltrúar sem eru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga eru ekki endilega fulltrúar sveitarstjórna. Þetta eiga að vera fulltrúar umhverfisins. Það er mjög erfitt að finna leið til þess að skapa aðstæður þar sem tryggt er að fulltrúar fólksins í kringum skólann komi örugglega með í þau verk sem verið er að vinna í skólanum. Mér finnst að það séu rök að kalla fólk til og skapa því aðstöðu. Ég hef séð framhaldsskóla, eins og fleiri hv. þm. hafa örugglega gert, þar sem skólinn hefur orðið eyland og ekki hluti af hinu virka atvinnuumhverfi sínu. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að það sé fólk úr hinu almenna atvinnu- og félagslífi byggðarlagsins sem fær aðgang að þessum skólanefndum. Á sama hátt er það mín skoðun að það sé óhjákvæmilegt að kennarar eigi þarna fulltrúa, það er algjörlega óhjákvæmilegt, og sömuleiðis nemendur. Mér finnst satt að segja mjög sérkennilegt hvernig menn hafa talað um þau mál með býsna léttúðugum hætti, ekki hér í þessari hv. deild heldur í hv. Ed. þar sem þessi mál voru ítarlega rædd.
    Ég vil aðeins víkja að umræðum um 9. gr. og segja þá fyrst: Það er ekki hægt að segja annars vegar að framhaldsskólinn sé opinn fyrir öllum og hins vegar að sumir skólar geti takmarkað inngang. Það rímar ekki. Það gengur ekki. Á þeim forsendum er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður. Hins vegar gerum við ráð fyrir því að það verði ekki lengur skylt að hafa fornám við hvern skóla heldur verði það heimilt. Við gerum ráð fyrir því að mjög víða verði

fornám í haust og það verður að vera þannig þangað til inntaki framhaldsskólans hefur verið breytt þannig að þar skapist kostur á margvíslegum stuttum námsbrautum, brautum sem eru kannski í miklu meira mæli en nú er byggðar upp á verknámi, m.a. með samvinnu við atvinnulífið.
    Í menntmrn. höfum við að undanförnu átt í viðræðum við fulltrúa atvinnulífsins um tengsl atvinnulífsins og framhaldsskólans. Við teljum að það sé í raun og veru mjög erfitt að ná því að byggja upp almennilegt verknám öðruvísi en að atvinnulífið komi þar eitthvað til skjalanna með samningum sem yrðu þá gerðir við einstök fyrirtæki eða einstök samtök atvinnurekenda eftir atvikum um aðgang nemenda að þessum vinnustöðum til að þeir geti öðlast þar tiltekna verkþjálfun eftir reglum sem yrðu settar. Þetta er vinna sem við erum að vinna og meiningin er sú að námsbrautir af þessum toga fari af stað í a.m.k. tveimur framhaldsskólum í haust.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir spurði um námsráðgjöfina og um hana er þetta að segja: Í fyrsta lagi að það hefur verið ákveðið að við hliðina á innritunarskrifstofunum, t.d. fyrir framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu, muni starfa námsráðgjafar. Þeir munu taka við öllum þeim umsóknum sem koma inn í framhaldsskólana, fara yfir stöðuna og bjóða upp á sína þjónustu. Það eru námsráðgjafar, kennarar, sem verða ráðnir í þessi verk, tveir, þrír eða fjórir einstaklingar eftir atvikum, meðan innritunin stendur yfir og á meðan verið er að raða fólki inn í framhaldsskólana í haust.
    Það er svo rétt hjá hv. þm. að til þess að ná því að um sé að ræða, mér liggur við að segja, eðlilegt framhaldsskólanám þar sem fólki er leiðbeint eftir hæfni hvers og eins en ekki eftir reglustikuaðferðum, sem ég er algjörlega á móti og mér finnst eima furðulega mikið eftir af gömlum afturhaldsviðhorfum í þeim efnum á hv. Alþingi satt best að segja, og að námsráðgjafar verði burðugur þáttur í skólunum verða þeir auðvitað að vera fleiri. Til þess að undirbúa það átak, að koma við námsráðgjöf bæði inn í grunnskóla og framhaldsskóla, höfum við ákveðið að ráða til starfa við ráðuneytið frá og með 1. ágúst nk. sérstakan starfsmann, einn af skólastjórum
grunnskólanna í Reykjavík, til að undirbúa átak í námsráðgjöf í grunnskólum og framhaldsskólum.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka ákvörðunina þannig að þessu sé í raun og veru hellt inn í framhaldsskólana eða grunnskólana án undirbúnings. Ég vil vandaðan undirbúning að svona málum og því höfum við ákveðið að fara þessa leið.
    Mér þótti vænt um margar þær athugasemdir sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson var með hér áðan. Ég er svo sem ekkert hissa að hann sé tortrygginn á þá brtt. sem gerð var á bls. 3 að því er varðar 32. gr. Ég veit að hann þekkir þessi mál alveg nákvæmlega eins og ég. Fyrir mér vakti aldrei og hefur ekki vakað að skerða fjárhagslegt sjálfstæði skólanna og því var í grg. tekið fram að skólarnir ættu að fá aukinn hluta rekstrarfjármagns til sín. Menn töldu hins vegar að

það væri ekki nægilegt og vildu frekar hafa það í lögunum og það var mér að meinalausu og rúmlega það. Í þessum efnum geta ráðherrar náttúrlega ekki kennt neinum um nema sjálfum sér ef embættismenn vaða yfir hausinn á þeim og þannig liggur þetta mál. Ég veit að hvorki ég né hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson kærum okkur um að fara ofan í saumana á þessum málum í einstökum atriðum. Ég held að við séum alveg nákvæmlega sammála um kjarna málsins sem er sá að skólarnir eiga að vera sjálfstæðar stofnanir, fjárhagslega og faglega, í vaxandi mæli og það á að vinna samkvæmt því á öllum sviðum.
    Ég heyrði að hv. þm. var sammála mér um efni 11. gr. og ég er algjörlega sammála hans ábendingu um að það á að fara fram með varúð við fjölgun framhaldsdeilda. Það er enginn ágreiningur við mig um það. Það er líka rétt sem hv. þm. sagði að mér var gjörsamlega nauðugur sá kostur að fella þarna niður Verslunarskólann og Samvinnuskólann, gjörsamlega nauðugur, vegna þess að ég tel að þeir séu framhaldsskólar og eigi að vera partur af þessu kerfi af því að þeir eru borgaðir af ríkinu hvort eð er. Það gekk nú svona í ríkisstjórninni og þegar maður er í ríkisstjórn tekur maður náttúrlega tillit til sinna samverkamanna. En það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að þakka mér fyrir að greinin er úti. Það er eiginlega öðrum að þakka eða kenna eftir atvikum.
    Hverjir sömdu frv.? Það eru embættismenn menntmrn. sem hv. þm. þekkir. Við sögu koma fólk eins og Hörður Lárusson, Sólrún Jensdóttir, Stefán Ólafur Jónsson og Örlygur Geirsson. Margar þær brtt., sem hér eru gerðar, eru svo í átt við það sem t.d. hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir var að nefna varðandi aðild kennaranna að skólanefndunum í vaxandi mæli.
    Virðulegi forseti. Ég endurtek þakkir mínar fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa farið fram.