Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hl. félmn. um frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga á þskj. 1193:
    ,,Nefndin hefur komið saman á ný til að fjalla um frv. eftir breytingu sem gerð var á því í meðferð neðri deildar. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á breytingu neðri deildar og vísar í því sambandi til álits nefndarinnar á þskj. 765. Til að koma hins vegar til móts við sjónarmið neðri deildar flytur nefndin brtt. á sérstöku þingskjali sem hún væntir að sé ásættanleg fyrir flesta aðila. Um orðalag þeirrar tillögu hefur verið haft samráð við Ævar Ísberg vararíkisskattstjóra.
    Brtt. nefndarinnar miðar að því að taka af öll tvímæli um það að sú undanþága, sem lagt er til að mjólkurbú hafi frá greiðslu aðstöðugjalds, nái ekki til annarrar framleiðslu en mjólkurafurða. Undanskilin er því framleiðsla eins og ávaxtagrautar og vín sem nú er farin að tíðkast í sumum mjólkurbúum.``
    Undir þetta rita Margrét Frímannsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Jóhann Einvarðsson og Valgerður Sverrisdóttir.
    Brtt. sem er á þskj. 1194 er við 34. gr.:
    ,,C-liður 2. mgr. orðist svo:
    Starfsemi sláturhúsa og mjúlkurbúa. Undanþága mjólkurbúa nær einungis til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða.``
    Í hv. Nd. var gerð sú breyting á frv. að hún fól í sér að undanþága mjólkurbúa frá því að greiða aðstöðugjald var felld út og eins og kemur fram í nál. gat nefndin ekki fallist á það en reyndi að ná samkomulagi með viðræðum við nefndarmenn hv. Nd. um það orðalag sem er á brtt. á þskj 1194.