Tekjustofnar sveitarfélaga
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég hefði í sjálfu sér ekki þurft að kveðja mér hljóðs ef ég hefði þá áður hlustað á ræðu hv. 4. þm. Austurl. því það kom mjög skýrt fram í henni um hvað þetta mál snýst og ég er sammála því sem hann sagði.
    Ég vildi aðeins leggja á það áherslu að meinsemdin í þessu máli er sú að aðstöðugjaldið er versti skattur sem til er í íslensku skattakerfi og er í sjálfu sér ekki hægt að verja hann. Þetta er skattur sem leggst á veltu og tekur ekkert tillit til afkomu og hann er í mörgum tilvikum mjög ranglátur og leggst mjög misjafnlega á vöruverð í landinu. Það sem hér er um að ræða er að sjáfsögðu ekki að skattleggja viðkomandi fyrirtæki því öll skattlagning kemur með einum eða öðrum hætti fram í vöruverði eða þeirri þjónustu sem seld er.
    Það hefur verið þannig um langan tíma að það hefur verið litið öðruvísi á svokölluð umboðssöluviðskipti en önnur viðskipti. Þannig er það í mörgum tilvikum að menn sjá sig tilneydda að versla með vörur í umboðssöluviðskiptum m.a. til þess að komast fram hjá þessari skattlagningu, og er ekkert óeðlilegt við það. Um langan tíma hefur það verið þannig að því er varðar landbúnaðarvörur, og þá tala ég af þeirri reynslu sem ég öðlaðist áður fyrr þegar ég kom nálægt slíkum uppgjörum, að litið hefur verið á vinnslustöðvar landbúnaðarins sem umboðssöluviðskipti í þessum skilningi. Ég sé ekki hvaða nauðir rekur til þess að breyta þessu nú, einmitt á þeim tíma sem þessar vinnslustöðvar eiga í meiri erfiðleikum en nokkru sinni fyrr. Það þykir e.t.v. góð latína á hv. Alþingi að auka skattlagningu á fyrirtæki sem eru í miklum taprekstri og þá er rétt að grípa tækifærið þegar verst stendur á. Með þeim hætti væri að sjálfsögðu verið að auka skattlagningu sem er í útsöluverði landbúnaðarvörunnar sem mundi þá koma fram í hækkuðu vöruverði eða aukinni niðurgreiðsluþörf. Ég er því þeirrar skoðunar og hef ávallt verið að þessi mál eigi að vera óbreytt og ekki eigi að gera neina breytingu þar á þar til menn manna sig einhvern tímann upp í að leggja þennan vitlausa skatt niður. Það er eins og með marga aðra skatta að þá þarf að finna eitthvað annað í staðinn, en ég vona að ég lifi þann dag að sjá aðstöðugjald lagt niður á Íslandi.