Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti í Nd.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt, en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja þeim brtt. sem fram kunna að koma. Undir þetta rita allir nefndarmenn, þar af þrír með fyrirvara, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Júlíus Sólnes og Halldór Blöndal.
    Frv. fjallar um það að gera menn jafnsetta gagnvart hugsanlegum samningum um greiðslu skatta í vanskilum og skulda við hið opinbera og er í rauninni verið að staðfesta og skýra þær venjur sem gilt hafa í þessum efnum. Til fundar við nefndina komu ýmsir þeirra sem um þessi mál fjalla, þeirra á meðal forstjóri Gjaldheimtunnar í Reykjavík og fulltrúar fjmrh. sem töldu þessa breytingu vera til bóta. Skylt er að geta þess að í nefndinni kom fram ágreiningur um 1. efnismgr. frv. og hefur verið flutt brtt. við hana, en nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt með þeim fyrirvörum sem ég hef áður getið.