Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Það er auðvitað skoðun sem hægt er að hafa og rökstyðja eins og hv. síðasti ræðumaður gerði að ákvæði af þessu tagi eigi illa heima í löggjöf. Ég skil það mjög vel og auðvelt er að rökstyðja þá skoðun. Hins vegar er það svo að slík ákvæði er víða að finna í lögum og frv. var samið að höfðu samráði við lögfróða menn. Ég ítreka þá skoðun mína að ekkert sé því til fyrirstöðu að ákvæði af þessu tagi séu í lögum til þess að taka af tvímæli og staðfesta með mjög ótvíræðum hætti hver er andi laganna að því er þessi efni varðar. En ég skil út af fyrir sig rök og málflutning hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar þótt við séum ekki sammála um þetta efni.