Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um Hagþjónustu landbúnaðarins eins og frv. heitir eftir breytingu í hv. Nd. Frv. fjallar um að komið verði á fót Hagþjónustu landbúnaðarins og hún verði þá starfrækt á Hvanneyri í Borgarfirði í tengslum við búvísindadeild Bændaskólans þar.
    Helstu markmið og verkefni þessarar hagþjónustu verði að hafa yfirumsjón með og skipuleggja búreikningahald ásamt úrvinnslu búreikninga, vinna að ýmsum hagskýrslum í landbúnaði og ýmsum sérverkefnum, vinna grunnupplýsingar fyrir verðlagningu búvara og fleira af því tagi og hafa enn fremur umsjón með hagrænum leiðbeiningum í landbúnaði og annast e.t.v. þann þátt kennslunnar í búvísindanámi.
    Á undanförnum árum hafa fjölmargir aðilar ályktað um nauðsyn þess að koma á fót og efla þjónustu af þessu tagi sem kæmi í stað Búreikningastofu landbúnaðarins sem starfrækt hefur verið undir yfirstjórn Búnaðarfélags Íslands í Búnaðarfélaginu. Það er einnig enginn vafi á að á því er veruleg þörf að bætt séu vinnubrögð við söfnun hagrænna upplýsinga í landbúnaði og á það ekki bara við um það sem til þessarar stofnunar mundi heyra heldur og almennt um söfnun hagrænna upplýsinga úr þessari atvinnugrein og hygg ég að það sé sameiginlegt mat þeirra sem til þekkja bæði hjá Þjóðhagsstofnun, Hagstofu og annars staðar að þeim málum þurfi að koma betur fyrir en nú er.
    Það er einmitt ætlunin að þessi stofnun, Hagþjónusta landbúnaðarins, leggi lið í þessum efnum með þeim hætti að þær upplýsingar sem þar verður safnað verði á sambærilegu og tæku formi fyrir aðra aðila sem hafa með upplýsingasöfnun á þessu sviði að gera og það er einmitt von mín að sem mest og best samstarf geti tekist milli þessara stofnana, Hagþjónustu landbúnaðarins og Hagstofu, Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem sinna verkefnum á þessu sviði. Þess vegna er mjög mikilvægt að við meðferð málsins í hv. Nd. mættu fulltrúar þessara aðila á fundi landbn. Nd. og tókst eftir atvikum allgott samkomulag um tilteknar breytingar á frv. sem einmitt lúta að því að skilgreina hlutverk Hagþjónustunnar þannig að það sé í eðlilegu samræmi við verkefni annarra stofnana á þessu sviði.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð, herra forseti. Ég undirstrika þó að hér er verið að stíga skref, þó ekki sé það mjög stórt, í þá átt að færa þjónustu út um landið sem margir hafa talað mikið um á undanförnum árum en minna orðið úr framkvæmdunum. Þetta er ekki eina málið af þessu tagið sem verið hefur til skoðunar og er til skoðunar í landbrn. heldur er þar nánast verið að skoða alla hluti með það í huga að það af opinberri þjónustu og ekki síst af ýmiss konar þjónustu tengdri landbúnaðinum sem staðsetja megi úti um land og efla e.t.v. þéttbýliskjarna eða staði með því að færa þangað slíka starfsemi skuli fært. Ég er þess fullviss að þetta mun verka hvetjandi á það starf sem þegar er unnið

að málefnum landbúnaðarins á Hvanneyri í Borgarfirði og er það vel því að sá staður og sú stofnun eru mjög mikilvæg fyrir landbúnaðinn vegna þess hlutverks sem hann gegnir í fræðslumálum og rannsóknastarfi sömuleiðis. Þess vegna er það að mínu mati ánægjulegur fylgifiskur frv. um leið og fyrir því standa mjög veigamikil efnisleg rök, sem ég hef hér gert stuttlega grein fyrir, að bæta þessa þjónustu, að hún yrði byggð upp á þessum stað.
    Ég tel að eins og frá málinu var gengið eftir umfjöllun landbn. Nd. og meðferð í Nd. og þá samstöðu sem tókst um breytingar á frv. að höfðu samráði við Hagstofu, Þjóðhagsstofnun og fleiri aðila megi ætla að allgóð samstaða sé um þetta mál og fagna ég því og vona að sömuleiðis takist um það samstaða hér í hv. Ed. og afgreiðslu þess.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.