Frsm. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um þetta frv. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að mæla með samþykkt málsins með einni brtt. Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins.
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn að henni undanskilinni. Þó skrifa þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og hv. þm. Halldór Blöndal og Júlíus Sólnes undir nál. með fyrirvara.
    Brtt. sem nefndin mælir með er við 7. gr. frv. um að hún orðist svo sem hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Menntmrh. skipar þrjá menn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu kirkjumálaráðuneytis og tvo án tilnefningar, og skal annar hafa sérþekkingu á sviði þjóðminjaverndar. Sameinað Alþingi kýs hlutfallskosningu þrjá menn í stjórnina til jafnlangs tíma. Menntmrh. skipar formann nefndarinnar úr hópi stjórnarmanna.``
    Þessi háttur þykir eðlilegri að ýmsu leyti og till. er flutt í fullu samráði við og með vitund hæstv. menntmrh. og um þetta atriði var ekki ágreiningur í nefndinni. Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þingskjali og með þeim fyrirvörum sem ég hef áður getið.