Júlíus Sólnes:
    Virðulegur forseti. Við þingmenn Borgfl. í Ed. flytjum sérstaka brtt. við frv. sem kemur fram á þskj. 1223, en hún varðar 2. gr. frv. þar sem er fjallað nánar um með hvaða hætti afla skuli tekna í þann sjóð sem skal mynda til þess að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana eins og svo er orðað í frv.
    Nú er það ljóst að við styðjum þetta mál. Við teljum að hér sé um mjög gott mál að ræða í sjálfu sér. Reyndar gat ég þess þegar við 1. umr. þessa máls að ég teldi það vera þjóðinni til vansa hvað hún hefur hugsað illa um menningarbyggingar sínar, hin menningarlegu verðmæti sín. Þess vegna viljum við að sjálfsögðu taka þátt í því og stuðla að því að betur megi halda á þessum málum í framtíðinni. Ég er hins vegar ekki, né við þingmenn Borgfl., algerlega sáttur við það að eyrnamerkja sérstaka skatta til þess arna eins og kemur fram í 1. tölul. 2. gr. frv. þar sem segir svo: ,,Tekjur sjóðsins eru: Sérstakur eignarskattur, sbr. 3.--6. gr.``
    Nú er nánar tíundað í 3.--7. gr. hvernig þessi eignarskattur skuli á lagður. Við hefðum fremur kosið að í stað þessa kæmi að framlag úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni skuli nema minnst 5% af álögðum eignarskatti.
    Ég sé nú að okkur hafa orðið á mistök þannig að það þarf einnig að breyta 3. gr. og reyndar þá líka 3.--7. gr. og bið ég hv. þm. velvirðingar á því, en ég held að það komi skýrt fram hvað vakir fyrir okkur, að í stað þess að leggja á sérstakan eignarskatt til að mynda tekjur fyrir þennan sjóð teljum við að það eigi einungis að gera ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði, fyrir svo utan liði 3 og 4 sem eru vextir af inneignum sjóðsins á bankareikningum og gjafir. Við erum tilbúnir að setja ákveðin mörk á það framlag sem gert er ráð fyrir að renni til sjóðsins úr ríkissjóði á fjárlögum hverju sinni þannig að það verði minnst 5% af álögðum eignarskatti. Það mun víst vera svo að á næsta ári mundi þessi sérstaki eignarskattur, sem er lagður á til að mynda tekjustofn fyrir þennan sjóð, nema u.þ.b. 8% af heildareignarsköttum sem verða á lagðir.
    Ég held ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti. Ég held að það sem vakir fyrir okkur komi mjög skýrt fram með þessari brtt.