Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. samgn. fyrir vinnuna við þetta frv. og þær lagfæringar sem þar eru á gerðar samkvæmt tillögum nefndarinnar sem ég tel vera til bóta og eru reyndar margar í samræmi við þá umræðu sem hér fór fram um málið, 1. umr., þar sem rætt var sérstaklega um margt af því sem síðan hefur orðið hv. samgn. tilefni til að flytja brtt. um og er mikilvægt. Ég fagna því að samstaða hefur tekist í nefndinni um afgreiðslu málsins og brtt. sem nefndin flytur.
    Varðandi það sérstaka atriði sem hv. 6. þm. Norðurl. e. vék að og mér er kunnugt um, þar sem ég veit hvert tilefnið er þó að engin nöfn séu nefnd, þá eru þar uppi vandamál sem vonir hafa nú staðið til að mætti nota þennan aðlögunartíma til að leysa. Það kann að vera að hann dugi ekki til og yrði það slæmt ef ekki tækist með einhverjum hætti að leysa þetta og þá helst með samkomulagi. Ef svo færi ekki yrði að taka á því sérstaklega.
    Ég er tilbúinn að ræða við formann nefndarinnar milli umræðna um þetta mál, hvort einhver breyting á orðalagi að þessu leyti mætti verða til samkomulags, en út af fyrir sig held ég að það sé grundvallaratriði sem hér er lagt til og verði nánast undirstaðan undir því stjórnkerfi sem frv. byggir á þannig að það er ekki um það að ræða að falla frá því í aðalatriðum hvort það kæmi til greina að veita meiri hemildir vegna þeirra aðstæðna sem fyrir eru. Það má að sjálfsögðu velta því fyrir sér og skoða það þó að æskilegast væri að reyna að nota einhvern slíkan aðlögunartíma eins og nefndin gerir tillögur um eða eins og í frv. var upphaflega, að þetta yrði heimilt til bráðabirgða óskilgreint til þess að koma lagi og þeirri skipan mála á að á hverju svæði væri einungis eitt félag.
    Því miður er það svo með þessa merku stétt, sem vill svo til að ræðumaður tilheyrir, bílstjórana, að henni hefur stundum gengið illa að koma sér saman og þetta eru ekki einu deilurnar sem uppi hafa verið og þessum málaflokki tengjast og afgreiðslu þessa frv. En ég vil leggja á það sérstaka áherslu við umræður um þetta mál, eins og ég reyndar gerði í 1. umr., að það er orðið nánast óframkvæmanlegt að stýra þessum málum og stjórna með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarin ár á grundvelli mjög gamalla og algerlega ófullnægjandi laga sem síðan hefur leitt til þess að stjórnvöld hafa teygt sig jafnvel lengra en góðu hófi gegnir við setningu reglugerða sem eiga sér þá í sumum tilvikum ekki nægilega trausta lagastoð. Þess vegna er það mjög brýnt, og ég vil leggja á það sérstaka áherslu, að fá þessa endurskoðun laganna í gegn þannig að unnt verði að taka á þessum málum með öðrum og markvissari hætti en mögulegt hefur verið hin síðari ár vegna þess hversu úrelt og ófullkomin þau lög eru orðin sem við er að styðjast.