Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er reyndar hálfólánlegt að hér fór fram nokkuð áköf umræða um þetta fyrsta dagskrármál, sem allnokkrir þingmenn tóku þátt í, og þeirri umræðu var frestað með því að einn þeirra þingmanna sem tekið hafði þátt í þeirri umræðu óskaði eftir frestun þar sem hæstv. dómsmrh. var ekki viðstaddur. Nú er enginn þessara þingmanna viðstaddur sem tóku þátt í umræðunni hér fyrr í dag, en það er að sjálfsögðu ekki mál þeirrar sem hér stendur og mun ég segja það sem ég ætlaði mér þó að það væru vissulega viðbrögð við þeim orðum sem þeir þingmenn létu falla sem töluðu hér fyrr í dag.
    Ég hélt nú reyndar að við værum komin að lokum þessa máls og reyndar allt útlit fyrir að þetta frv. og fylgihnettir þess yrðu lögfestir núna á þessu vori með þeim góða fyrirvara sem er á framkvæmd málsins og ég ætlaði mér endilega að benda hv. 11. þm. Reykn. á að hann virtist ekki hafa tekið eftir því að frv. tekur ekki endanlega gildi fyrr en 1992. Hann hafði hér nokkuð stór orð uppi um að hér væri um kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að ræða sem ekki væri gert ráð fyrir á fjárlögum og talaði um lögbrot, ef ég man rétt, þar sem ekki væri búið að fjalla um þetta af réttum aðilum. En ég ætlaði einmitt að benda honum sérstaklega á að það væri sannarlega nógur tími til þess að sjá fyrir þeim þætti svo að allt mætti það nú vera á löglegan máta.
    Kvennalistinn hefur stutt þetta mál frá upphafi og við leggjum þar til grundvallar aðild Íslands að Evrópuráðinu, mannréttindasáttmála þess og þeim skuldbindingum sem þeirri aðild fylgja. Þeir eru vissulega til og við höfum heyrt til þeirra sumra hér í dag sem telja okkur fært að hliðra okkur hjá því að axla þær skuldbindingar með því móti sem þetta frv. og fylgifrv. þess kveða á um, en þeir hafa ekki getað bent á aðrar færar leiðir. Það hafa mjög margar aðrar leiðir verið ræddar og verið til umfjöllunar, bæði í ríkiskerfinu og í embættismannakerfinu og á Alþingi, en þeim hefur verið hafnað. Það er alls ekki hægt að segja að þetta mál sé óskoðað á nokkurn hátt þar sem það hefur veri mjög lengi til meðferðar og var m.a. til umfjöllunar í milliþinganefnd í sumar. Staðreyndin er sú, sem við komumst ekkert fram hjá, að réttarfar okkar hér á Íslandi er komið undir smásjá samstarfsþjóða okkar í Evrópuráðinu og það verður okkur dýrt spaug, ég er ekki í nokkrum vafa um það, ef við ekki breytum því til viðunandi horfs.
    Um þetta mætti hafa langt mál, en óþarfi er að gera það nú. E.t.v. talar skýrustu máli um þá óeðlilegu skipan sem er á þessum málum hér og nú dæmi sem Markús Sigurbjörnsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, setti upp fyrir okkur í allshn. Nd. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til þessa dæmis sem Markús gaf okkur.
    Þetta er sem sagt dæmi um tilvik þar sem handhöfn sýslumanna og bæjarfógeta á dómsvaldi og framkvæmdarvaldi getur leitt til ,,líklegs brots`` á 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er þá á þann

veg að sýslumaður er innhemtumaður ríkissjóðs og annast þannig t.d. innheimtu þinggjalda.
    Nú verða vanskil á slíkri kröfu. Innheimtumaður ríkissjóðs, þ.e. sýslumaður, biður handhafa fógetavalds, sem sömuleiðis er sýslumaður, um að framkvæma lögtak hjá gjaldanda vegna vangoldinna þinggjalda. Fógeti, þ.e. sýslumaður, tekur lögtakið fyrir í fógetarétti að viðstöddum gjaldanda. Fógeti gætir þar hagsmuna innheimtumanns ríkissjóðs sem er ávallt sami maður, sýslumaður, en á um leið að veita gjaldendum leiðbeiningar um varnir gegn kröfu innheimtumannsins. Ef ágreiningur rís um réttmæti gjalda skuldara við lögtakið leysir fógeti, þ.e. sýslumaður, úr honum með úrskurði. Lögtakið fer því næst fram með eða án úrskurðar, eftir því hvort ágreiningurinn hefur risið eða ekki, í eign gjaldanda. Að verki loknu afhendir fógeti, þ.e. sýslumaður, innheimtumanni ríkissjóðs, sýslumanni, endurrit úr fógetabók af lögtaksgerðinni til áframhaldandi aðgerða. Að fengnu endurriti lögtaksgerðar sem hefur t.d. farið fram í fasteign gjaldanda biður innheimtumaður ríkissjóðs, sýslumaður, uppboðshaldarann í dæminu, sýslumann, um að semja skattkröfuna til lúkningar á skattkröfunni. Uppboðshaldari, sýslumaður --- ég held að það sé vissast að taka það alltaf fram --- tekur uppboðsbeiðni innheimtumannsins, þ.e. sýslumanns, fyrir og leggur m.a. fram endurrit lögtaksgerðar fógeta, sýslumanns, sem uppboðsheimild. Þetta kynnir uppboðshaldari, sýslumaður, uppboðsþolanum og fer m.a. að veita honum leiðbeiningar um varnir gegn uppboðskröfunni eftir atvikum um annmarka á lögtaksgerð fógetans, sýslumanns. Um leið gætir uppboðshaldari, sýslumaður, hagsmuna innheimtumanns ríkissjóðs, sýslumanns, við uppboðið. Ef uppboðsþoli heldur uppi vörnum fyrir uppboðsrétti, kveður uppboðshaldari, sýslumaður, upp úrskurð um hvort uppboðið nái fram að ganga samkvæmt kröfu innheimtumanns ríkissjóðs, sýslumanns, og leysir þá eftir atvikum úr hvort ágallar hafi verið á starfi fógeta, sýslumanns, þegar hann framkvæmir lögtakið. Ef uppboðsþoli greiðir ekki skattkröfuna fer uppboðssala fram. Uppboðshaldari, þ.e. sýslumaður, ákveður þá úthlutun á uppboðsandvirði, m.a. til innheimtumanns ríkissjóðs, sýslumanns. Uppboðshaldari, sýslumaður, fær þá hlut uppboðsandvirðis í sinn hlut í formi aukatekna. Uppboðshaldari, sýslumaður,
greiðir innheimtumanni ríkissjóðs, sýslumanni, hlutdeild hans í uppboðsandvirði. Innheimtumaður ríkissjóðs, þ.e. sýslumaður, stendur ríkissjóði skil á skattgreiðslunum sem hann fékk fyrir atbeina fógetaréttar, sýslumanns, og uppboðsréttar, sýslumanns. Innheimtumanninum er ákveðin þóknun í formi aukatekna úr ríkissjóði fyrir framlag sitt til innheimtunnar.
    Þannig er nú þessi ferill og efast ég ekki um að sumum hafi þótt erfitt að hlýða á þetta, enda töluvert flókið mál. Hér er sem sagt sami maður í æðimörgum hlutverkum. En varðandi þennan feril er rétt að hafa í huga að sýslumenn og bæjarfógetar fara ekki með

innheimtu þinggjalda í umdæmum þar sem sérstakar gjaldheimtur starfa, einkum í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi. Sýslumenn og bæjarfógetar fara þó alltaf einir með innheimtu söluskatts, tolla og fleiri gjalda til ríkisins í umdæmum þar sem gjaldheimtur starfa utan Reykjavíkur. Í öðru lagi er rétt að hafa í huga að aukatekjur til uppboðshaldara vegna framkvæmdar uppboða og til innheimtumanna ríkisjóðs vegna innheimtu opinberra gjalda leggjast endanlega af samkvæmt lagaboði í árslok 1990. Þetta er e.t.v. ekki sú gengislækkun sem menn hafa haft á orði og eiga við þegar þeir lýsa áhyggjum vegna breytts hlutverks sýslumanna en á kannski einhvern hlut að máli.
    Það hefur nokkuð verið fjallað um kostnaðarauka ríkissjóðs af þeirri skipan sem frv. kveður á um og undir það skal tekið að hann er töluverður og sennilega meiri en menn áætla hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, en auðvitað hljóta menn að reyna að standa á bremsunni þegar kemur til framkvæmdanna og við skulum ekki gleyma þeim kostnaði sem ríkið hefði af því að gera þessar breytingar ekki og er þá vísað til þeirra kærumála sem það hefði óhjákvæmilega í för með sér og dóma í framhaldi af því. Þeir sem spyrja hvar á að taka tekjurnar til að mæta þeim kostnaði sem hlýst af samþykkt þessara frv. verða þá allt eins að svara því hvar eigi að taka tekjurnar til þess að taka þeim kostnaði sem íslenska ríkið hefur af því ef það ekki breytir til þess horfs sem tekið er gott og gilt. Og hvað verður þá um skuldbindingar okkar í samstarfi við aðrar þjóðir á alþjóðavettvangi? Ég held að við þurfum að svara þeim spurningum líka og ég óttast vissulega að það verði nokkuð mikill kostnaður af þessu.
    Ég vil líka benda á það að í þeirri kostnaðaráætlun sem við fengum, bæði um aukinn rekstrarkostnað sem hugsanlega hefði hvort eð er ekki verið hægt að komast hjá, a.m.k. ekki öllum þar sem ekki er svo fjarskalega vel búið að þeim embættum sem hér um ræðir nú þegar, þá er einn mikilvægur þáttur sem er ekki meðtalinn þar sem gerð er grein fyrir hugsanlegum stofnkostnaði og það er varðandi dómstól hér í Reykjavík. Það verða sameinaðir dómstólar í Reykjavík eftir að þetta hefur komið til framkvæmda og það er a.m.k. mjög margra mál að það verði ekkert undan því vikist að bæta verulega aðstæður þeirra dómstóla sem hér eru. Það vita allir hvernig búið er að borgardómi sem hefur verið í leiguhúsnæði árum saman og þurft að sæta því að nánast grátbiðja um framhald á þeim leigusamningi og er þó ekki sérlega rúmt um þá þar. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að huga að því hvernig eigi að leysa húsnæðisvanda dómstólanna í Reykjavík, hvort það verður nú gert með þeim hætti sem menn hafa kannski ýtrastar kröfur um, þ.e. byggingu dómhúss yfir alla dómstólana, Hæstarétt, borgardóm og fleiri sérdómstóla, eða leyst með öðrum hætti sem við hljótum að athuga vel og vandlega. Það kynni kannski að vera eitthvert verslunar- og skrifstofuhúsnæði á lausu.

    En ég vildi fyrst og fremst og ekki síst úr því að hv. 11. þm. Reykn. er genginn í salinn benda honum á að hann þarf a.m.k. ekki að hafa áhyggjur af því við samþykkt þessa frv. að þar með sé framið eitthvert lögbrot eða gengið á svig við fjárlög þar sem lögin tækju ekki gildi fyrr en árið 1992 svo það er allgóður tími til að vinna að því.