Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. minni hl. sjútvn. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Það er rétt að sjútvn. Nd. klofnaði við afgreiðslu þessa máls. Að vísu sýnist ég einstæðingslegur í svipinn þar sem ég er einn á nál. með sérálit.
    Ég lagði til í sjútvn. að þetta mál fengi eigi að síður mjúka meðferð, því yrði með vinsemd vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég legg til að hv. þingdeild vísi málinu þá leið. Rökstuðningur minn er þessi á þskj. 1202:
    ,,Samkvæmt samkomulagi hafa grænlensk skip, sem stunda veiðar við Austur-Grænland, heimild til löndunar og allrar skipaþjónustu í íslenskum höfnum. Þetta er frávik frá ákvæðum laganna en þar segir að erlendum fiskiskipum sé ekki heimilt að leita hafnar á Íslandi nema í neyðartilvikum. Hafa Grænlendingar nýtt sér þessa aðstöðu við rækjuveiðar á Dohrnbanka.
    Færeyingar, sem veitt hafa botnfisk hér við land samkvæmt sérstöku samkomulagi, hafa aldrei leitað eftir að fá að landa afla hér á landi.
    Í nýgerðum samningum milli Íslands, Grænlands og Noregs er skipum þessara þjóða, sem loðnuveiðar stunda, veittur löndunarréttur í hverju þessara landa. Var sérstaklega tiltekið að færeysk skip, sem veiddu loðnu í umboði Grænlendinga, fengju þennan rétt.
    Við gerð samnings um rétt Grænlendinga til löndunar hér á landi og um skiptingu loðnustofnsins milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen verður að telja að Færeyingum og Grænlendingum séu tryggðir þeir möguleikar til löndunar á Íslandi sem þeir þarfnast eins og staðan er nú. Það er því rétt að áliti minni hlutans að láta breytingar á ákvæðum um löndunarrétt þessara þjóða bíða uns náðst hafa frekari samningar um gagnkvæma nýtingu sameiginlegra fiskstofna því að telja verður að löndunarréttindi muni skipta verulegu máli í viðræðum um nýtingu þessara stofna. Gæti það veikt samningsaðstöðu okkar ef við hefðum í raun einhliða afsalað okkur ákvörðunarrétti í þessu efni.`` --- Svo mörg voru þau orð.
    Þótt ég hafi klofnað frá hv. þingnefnd um afstöðu til þessa máls þýðir það ekki að ég sé einn um þessa skoðun. Sjútvn. sendi málið til umsagnar til fjölmargra aðila og nefndin kallaði fulltrúa úr utanrrn. og sjútvrn. á sinn fund. Ef ég gríp ofan í umsagnir leggst Sjómannasamband Íslands gegn þeim breytingum á lögunum sem felast í frv. Þetta samþykkti framkvæmdastjórn þess einróma á fundi sínum. Stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna samþykkti að mæla eindregið gegn samþykkt þessa frv. Stjórn Fiskifélagsins telur að vísu brýnt að lögin verði endurskoðuð og þá í víðara samhengi. En þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Meðan ekki næst samkomulag við nágranna okkar um skiptingu og veiðar á sameiginlegum fiskstofnum meðan Grænlendingar selja öðrum þjóðum veiðirétt á þessum stofnum eins og karfa og rækju, þá eigum við ekki að ganga þessa leið.``
    Farmanna- og fiskimannasamband Íslands varar eindregið við þeirri stefnumótun sem fram kemur í frv. varðandi sérréttindi Færeyinga og Grænlendinga

umfram aðrar þjóðir. Enn fremur er varað við svo víðtækri merkingu eins og fram kemur í grg. frv., sérstaklega hvað varðar löndun afla í íslenskum höfnum. Það er að vísu Félag ísl. fiskimjölsframleiðenda eitt sem fagnar þessu frv.
    Fulltrúi sjútvrn. lagðist gegn frv. og tíundaði mörg rök máli sínu til stuðnings, ekki síst að við stæðum í samningum við Grænlendinga um skiptingu og veiðar á sameiginlegum fiskstofnum. Þessi rök sagðist fulltrúi utanrrn., sem einnig mætti á fund nefndarinnar, virða.
    Hvers vegna skyldum við Íslendingar á sama tíma og við stöndum í viðkvæmum milliríkjasamningum um fiskstofna og nýtingu hafsins í kringum Ísland gefa trompin af hendi? Hafið er einu sinni dýrmætasta auðlind Íslands. Ef við ekki stöndum þar á rétti okkar mun illa fara.
    Ég spyr hv. þm.: Er það tekið fram í lögum nágrannaþjóða okkar að öllum sé heimilt að landa þar fiski? Hvað er í Noregi? Ég hygg að það gildi víðast hvar að gefnar eru heimildir. Víðast hvar eru landanir leyfisbundnar. Það gefur engin þjóð það alveg frjálst eða tekur fram í lögum að útlendingum sé landið opið og frjálst. Hvað gerðist ef samningurinn um loðnuveiðar yrði ekki staðfestur af viðkomandi ríkisstjórnum? Eins og fram kom í greinargerð minni er þar eitt veigamesta atriðið löndunarréttur í viðkomandi löndum. Þá, ef þetta frv. yrði að lögum, værum við einir þessara þjóða búnir að lögbinda að hinum er landið okkar opið og frjálst. Hér hefur legið frammi og er líklega búið að samþykkja á þessu þingi þál. um samning milli Grænlands, Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu á milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen. Hver eru veigamestu rökin --- þetta er samningur til þriggja ára --- í þessum samningi? Í 6. gr. segir t.d.: ,,Grænlenskum og norskum fiskiskipum skal heimilt á hverri vertíð að veiða loðnu í íslenskri efnahagslögsögu norðan 64 30' N til 15. febrúar. Ísland mun einnig leyfa þessum veiðiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum og taka um borð vistir í íslenskum höfnum. Að fengnum tilmælum grænlenskra stjórnvalda getur Ísland veitt fiskiskipum af öðru þjóðerni, sem fengið hafa grænlenskt
fiskveiðileyfi, sömu réttindi, enda sé gerður um það samningur við Ísland sem gildi fyrir eina vertíð í senn.`` ( Forseti: Ég vil inna hv. frsm. eftir því hvort hann eigi langt mál eftir. Það er komið fram á þingflokksfundatíma og þarf senn að fresta fundi.) Já, ég hygg að það séu tvær til þrjár mínútur. ( Forseti: Ég tel rétt að hv. ræðumaður geri hlé á máli sínu og taki til aftur þegar haldið verður fram fundi klukkan 17.15, en það er gefið hlé til þingflokksfunda til kl. 17.15. Gera má ráð fyrir að settur verði nýr fundur þá fljótlega og þessu máli verður þá fram haldið. --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Ég var staddur á seinni hluta ræðu minnar þar sem ég ræddi frv. um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands og það hafði komið fram að sjútvn. klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Ég er þar einn í minni hluta, en ég hafði í máli mínu minnt á að þó

ég þætti einstæðingslegur á nál. stæði ég ekki einn því að flestir þeir aðilar sem á fundi nefndarinnar komu eða sendu henni skriflega umsögn lýstu því yfir að þeir væru andstæðingar þess að frv. yrði samþykkt. Þetta voru aðilar sem jafnan hefur verið tekið mark á af sjútvn. og Alþingi að mér hefur fundist, þ.e. Sjómannasamband Íslands, stjórn Fiskifélags Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Allir þessir aðilar vöruðu við því að frv. yrði samþykkt og lögðust gegn því. Fulltrúi sjútvrn. hafði flutt varnaðarorð og bent á mörg atriði sem skiptu máli og fulltrúi utanrrn. hafði síðan tekið undir öll þau rök sem fulltrúinn frá sjútvrn. hafði bent á, sagðist að fullu virða þau. Ég tel mig því ekki hafa leyfi til að fordæma þessa umsagnaraðila sem þekkja málin út frá íslenskum hagsmunum o.s.frv.
    Ég hafði minnst á þál. sem samþykkt var á þessu Alþingi og farið yfir kjarnaatriði í henni þar sem er samningur milli Grænlands, Danmerkur, Íslands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu á milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen. Ég hafði bent á að einn þyngsti punkturinn í þeim samningi er löndunarréttur á Íslandi, svo og eins árs heimild til að leyfa þjóðum, sem Grænlendingar fela veiðina fyrir sig, að landa í íslenskum höfnum, en aðeins eitt ár í senn. Ég spurði einmitt hvað yrði ef við hefðum allt í einu, Íslendingar, sett í lög, einir og sjálfir, að öllum væri heimilt að landa sínum fiski í íslenskum höfnum. Hvað yrði um þennan samning sem rennur úr gildi sjálfkrafa 1992? Ég vil því lýsa því yfir, hv. þm., að mér finnst fljótræði og flan einkenna meiri hl. sjútvn. í þessu máli sem mér kemur að vísu mjög á óvart þar sem þar eiga hlut að máli bæði reyndir, gætnir og glöggir menn. Finnst mér að þeir hafi sett leppa til hliðar við augu sín og horfi nú bara beint fram á veginn. Af hverju það stafar veit ég ekki svo glöggt. En vinnubrögð þessara manna hafa komið mér mjög á óvart. Ég segi að við eigum enn ósamið við Grænlendinga um karfastofninn. Ef ég man rétt urðum við að minnka sókn okkar í hann í ár um 10% vegna þess að þeir selja öðrum veiðirétt þrátt fyrir mótmæli okkar og þá varðar ekkert um mótmæli okkar í því sambandi og selja hann síðan hiklaust þriðja aðila. Ég sé ekki heldur, þó við opnum allar hafnir til löndunar, að Grænlendingar eða Færeyingar muni selja okkur fisk eins og menn hafa nú mjög á orði, að þetta muni verða til þess í stórum stíl að þeir muni selja okkur fisk og það muni skapa hér atvinnu. Ég hef rætt þetta við menn sem þekkja það mjög vel og þeir telja á því litlar líkur.
    Við eigum ósamið um, eins og ég sagði, karfa- og rækjustofnana. Enn eiga ríkin eftir að staðfesta þann samning um loðnustofninn á hafsvæðinu á milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem ég hér vitnaði í fyrr í ræðu minni.
    Hæstv. forseti. Ég hef því samfærst um að það væri glapræði að samþykkja þetta frv. En eru það skyndihagsmunir í einhverjum bæjum sem fá menn til að þrýsta svona fast á þetta mál? Því má velta fyrir

sér. Hafnirnar í Hafnarfirði og á Ísafirði vega sjáfsagt þungt í þessu máli. En ekki finnst mér allt geðfellt í ,,bisniss`` og síst það framferði þessara tveggja hafna að hygla sérstaklega útlendingum eins og nú tíðkast á þessum tveimur stöðum. Íslendingar sæta því í þessum tveimur höfnum að verða að borga hlutfall af aflaverðmæti, allt upp í 700 kr. á tonn. Á meðan borga útlendingarnir fast gjald eða 161 kr. á tonn. Hafnarfjörður og Ísafjörður láta erlend skip aðeins borga fjórðapart af því verði sem Íslendingarnir verða að sæta á þessum stöðum. Er þetta það sem koma skal hér á öllum sviðum? Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta sé það sem Alþingi og þjóðin vill láta yfir sig ganga á öllum sviðum. Við getum tekið ljós dæmi úr daglega lífinu síðustu daga þar sem t.d. hagsmunaaðili eins og Hagkaup ber sér á brjóst og segir að matvörur séu allt of dýrar á Íslandi. Auðvitað eru þær dýrar, undir það skal tekið, og það verður að leita allra úrræða til þess að lækka þær í verði. Þeir heimta hins vegar að flytja inn smjörlíki. Einn ráðherrann verður við því og þykist hafa fullt vald. Þegar er hafinn innflutningur á því. Útlendingarnir greiða það niður og hafa það ódýrt til að byrja með. Íslendingar sleppa því að taka af því tekjur, hvorki tolla né innflutningsgjöld. Svona drepa menn íslenskan iðnað. Svo verður þetta til þess að það bitnar einnig á landbúnaðinum.
    Ég minnist á þetta því að mér finnst undanlátssemi og undansláttur gagnvart
útlendingum koma fram á mörgum sviðum í allríkum mæli, þó að það komi mér á óvart að hv. 1. þm. Vestf. standi í slíku. En það getur farið svo að mönnum glepjist sýn með aldri og tíma.
    Mér finnst mjög athyglisvert að það skuli eiga sér stað í þessum hafnarbæjum að útlendingarnir séu þar alveg á sérstökum kjörum og þurfi ekki að borga nema einn fjórða af því sem íslensk skip þurfa að borga á þessum stöðum. En ég lýk ræðu minni og ítreka að ég vara þessa hv. þingdeild við því að samþykkja frv. og ítreka þá skoðun mína að ég tel eðlilegt við þessar aðstæður, við þau rök og mótmæli sem hér hafa komið fram, að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það afgreitt þar með þeim hætti að menn skoði þetta í heild sinni og flani ekki að neinu.