Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Í því frv. sem hér er til umfjöllunar er hreyft viðkvæmu og vandasömu máli, þ.e. breytingu á lögum um fiskveiðar og sjávarútveg, nr. 33 frá 1922, sem er að mínu mati mjög mikilvæg löggjöf þótt hún sé í mörgum atiðum úrelt eins og eðlilegt er um svo gamla löggjöf. Hins vegar er það mjög mikilvægt ákvæði í þessari löggjöf að erlendum fiskiskipum er ekki heimilt að landa hér á landi nema þá með sérstökum milliríkjasamningi. En í 12. gr. segir svo í lögunum, með leyfi hæstv. forseta: ,,Með lögum þessum eru ekki skert á neinn hátt réttindi þau, sem samkvæmt ríkjasamningum kynnu að vera veitt öðrum.`` Slíkir samningar hafa oft verið til umfjöllunar í ríkisstjórnum og þá jafnan verið fjallað um þá í fullu samráði við hv. utanrmn. Í sjálfu sér hefði verið eðlilegt að fjalla um mál þetta jafnframt í þeirri nefnd því það hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum þegar um svipuð mál hefur verið að ræða.
    Það mun hafa verið á árinu 1982 að Grænlendingum var veitt heimild samkvæmt þessum lögum, á grundvelli 12. gr., til að landa rækju hér á landi og var það gert til að greiða fyrir samskiptum Íslands og Grænlands og stíga jákvætt skref af hálfu Íslendinga til að koma þeim málum á betri rekspöl. Sannleikurinn er sá að lítil samskipti höfðu verið milli landanna og hafa þau samskipti blómgast mjög á síðustu árum sem er mjög gott og nauðsynlegt að stefna að því. Grænlendingum hefur hins vegar ávallt verið gerð grein fyrir því í öllum samtölum sem hafa farið fram á milli þeirra annars vegar og íslenskra stjórnvalda hins vegar að löndunarréttur hér á landi væri samningsatriði sem þyrfti að taka til meðhöndlunar í sambandi við samskipti landanna. Hins vegar hafa þau réttindi sem hér er rætt um verið framlengd ár frá ári og hafa þeir fengið hér fullnægjandi þjónustu eftir því sem ég best veit, en reynt hefur verið að hafa áhrif á það að haldið væri í nokkru við upphaflega löndunarhöfn þegar þeir fengu þessa aðstöðu, en þá var gert ráð fyrir að það væri fyrst og fremst á Ísafirði. Á seinni árum hafa þeir sótt í meira mæli til Hafnarfjarðar eins og kunnugt er.
    Það hafa staðið yfir samningaviðræður milli þjóðanna um mjög margra ára skeið um skiptingu á loðnustofninum eins og kunnugt er og eitt atriði í þeim samningi er gagnkvæmur löndunarréttur landanna, en að sjálfsögðu er ekki gert ráð fyrir að Íslendingar muni landa loðnu á Grænlandi þar sem þar er engin aðstaða til slíks og nánast ekki hægt að stunda slíkar veiðar og slíka vinnslu á Austur-Grænlandi. Hins vegar er þeim mjög í mun að geta landað hér eða þá selt skipum annaðhvort frá Íslandi, Noregi eða Færeyjum veiðirétt þennan og þeir hafi þá löndunarrétt hér á landi.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að ýmsir þeir aðilar sem hafa heimildir til að veiða við Austur-Grænland hafa sótt á um að fá að landa hér fiski því að mun hægara er um vik að stunda veiðar frá Íslandi en Austur-Grænlandi. Þar hafa ýmsar þjóðir

komið við sögu eins og Norðmenn, Japanir, Færeyingar og fleiri þjóðir.
    Ég er talsmaður þess að góð samskipti séu við Grænlendinga og ég tel að þau hafi batnað mjög í seinni tíð. Samningurinn um loðnuna er tímamótasamningur í þessum samskiptum og áfram verður haldið í viðræðum við þá á næstu mánuðum og gerð þar tilraun til að komast að samkomulagi um nýtingu annarra sameiginlegra stofna og með hvaða hætti heimilt er að landa þeim fiski, m.a. hér á landi. Ég tel því mjög mikilvægt að andanum í lögunum frá 1922 verði haldið, þ.e. að réttindi sem þessi verði veitt samkvæmt milliríkjasamningi milli Íslands og Grænlands. Þetta er í samræmi við þann málflutning sem við höfum fram haldið öll þessi ár í okkar samskiptum við Grænlendinga frá því að ég þekki til og mér er ekki kunnugt um að það hafi á nokkurn hátt skaðað þau samskipti og væri mjög undarlegt, svo að ekki sé meira sagt, miðað við þá meðferð mála sem hefur verið í fullu samráði við ríkisstjórn og utanríkismálanefnd Alþingis, ef það yrði samþykkt af Alþingi Íslendinga að þarna yrði breytt um stefnu og þetta mál ætti ekki lengur að vera samningsmál í þessum milliríkjasamskiptum. Ég vil því lýsa því hér yfir við þessa umræðu að ég er andvígur frv. en lýsi mig samþykkan því minnihlutaáliti sem hv. þm. Guðni Ágústsson mælti hér fyrir.