Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Þegar lögin um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslendinga voru samþykkt á Alþingi fyrir 67 árum, eða nánar tiltekið 1922, voru þessi lög mikil nauðsyn fyrir íslensku þjóðina og þá var hörð samkeppni erlendra veiðiskipa sem fiskuðu hér upp við landsteina. Það var því brýn nauðsyn á að vernda íslenska fiskveiðimenn og auka starfsemina í landi og koma lögum yfir allar þær erlendu þjóðir sem hér veiddu og unnu sinn fisk svo að segja upp við landsteina þó að við höfum þá haft þriggja mílna fiskveiðilögsögu, en flóar voru opnir fyrir erlendum veiðiskipum.
    En síðan þessi lög voru samþykkt er mikið vatn runnið til sjávar. Þau voru nauðsyn og brýn nauðsyn í þó nokkra áratugi. Við höfum fært út okkar landhelgi hvað eftir annað og nú eigum við fiskveiðilögsögu að 200 mílum. Hér er um að ræða að það er ekki verið að veita undanþágu til veiða innan 200 mílna frá því sem var þegar lögin voru sett að það voru 3 mílur, heldur er verið að opna þann möguleika að tvær þjóðir, náskyldar okkur, Færeyingar og Grænlendingar, fái jafnan rétt og við höfum. Þessu er svo illa tekið af einstaka þingmönnum og ég trúi því ekki að þeir séu margir sem enn eru svo á eftir tímanum. Við erum að taka upp aukin viðskipti og aukið frjálsræði í viðskiptum við aðrar þjóðir og við erum sem sagt að komast til nútímans frá því að hafa verið lengi á eftir.
    Hv. 5. þm. Suðurl. lýsti því hér með allmiklum fjálgleik að umsagnir ágætra stofnana og samtaka, eins og Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands og Fiskifélags Íslands, hafi mælt gegn samþykkt frv. Þessir aðilar mæla gegn frv. Það komu hins vegar ekki fram minnstu rök í einni einustu umsögn þessara aðila fyrir því áliti. Landssamband ísl. útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands telja alveg sjálfsagt að íslensk skip fái að landa afla sínum í Færeyjum. Ég er hræddur um að það mundi eitthvað heyrast ef færeysk stjórnvöld settu allt í einu hömlur á þessa löndun. Hins vegar segja samtök Félags ísl. fiskimjölsframleiðenda að þau mæli með samþykkt frv. af þeirri ástæðu að þau sjá möguleika á því að einhver löndun eigi sér hér stað og við getum aukið þjóðartekjur okkar.
    Ég þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir föðurlega áminningu til mín og okkar sem stöndum að þessu nál. Hins vegar gaf hann hvorugum flm. þessa frv. neina föðurlega áminningu --- hann hefur kannski verið búinn að því einhvers staðar annars staðar --- en þeir eru tveir þeirra sem halda hæstv. ríkisstjórn lifandi ef líf skal þá kalla, hv. 2. þm. Vestf. sem var að fara úr ræðustól og hv. 4. þm. Reykn. sem flytja frv. Af hverju flytja þeir þetta frv.? Flytja þeir frv. af því að þeir vilja sýna útlendingum einhverja náð og miskunn fram yfir það sem Íslendingar hafa? Ég hef ekki heyrt getið fyrr en í ræðu hv. 5. þm. Suðurl. áðan að útlendingarnir þessir borgi ekki nema einn fjórða af þeim gjöldum sem íslensk skip borga eins og hvað snertir Ísafjarðarhöfn. Ég hef ekki heyrt það

fyrr. Ég hef aftur heyrt að þegar grænlensku skipin fóru að landa í Hafnarfirði fannst Ísfirðingum þeir hafa misst æðimiklar tekjur og vildu gera allt sem hægt var til þess að fá þá aftur til þess að vera eingöngu á Ísafirði. Það skildi ég vel. Ég skil ekki að það sé vegna þess að þeir hafi ekkert borgað fyrir sína aðstöðu. Ég held að Ísfirðingum hafi þótt fengur að því að fá þessi viðskipti. Það eru mikil viðskipti í kringum það að erlend skip leita hér hafna án þess að þurfa að leita í hvert einasta skipti til æðsta stjórnvalds á Íslandi um hvort það megi landa hér, hvort sem tonnin eru mörg eða fá. Ég er ansi hræddur um að Íslendingar mundu ekki sigla mjög mikið með fisk á erlendan markað, eins og t.d. til Vestur-Þýskalands eða Bretlands, ef það þyrfti að senda skeyti og jafnvel sendiherrann í ráðuneytin í Bonn eða í London í hvert skipti sem íslenskt skip hyggst landa afla sínum. Ég er hræddur um að þau viðskipti færu algerlega forgörðum. Ég ætla að segja við hv. 5. þm. Suðurl. að hann er alveg aftur í grárri forneskju, maður á besta aldri. Ég bið hann að taka nú sprett inn í nútíðina. Svo ruglar hann með hluti sem er alveg fráleitt að tala um. Hann fer að víla í þingsalnum út af því að það sé verið að flytja inn smjörlíki og erlendir aðilar sem framleiða og selja þetta smjörlíki selji þetta ekki á nema broti af verði á smjörlíki sem við höfum verið að kaupa hér undanfarna áratugi. Það væri ekkert smjörlíki flutt inn ef ríkisstjórnin hefði ekki heimilað það. Núv. hæstv. viðskrh. hefur heimilað það. ( GuðnÁ: Ég minntist á það.) Já. En ég var líka í ríkisstjórn á undan og fór með sama málaflokk og núv. hæstv. viðskrh. Þá kom þessi beiðni líka. Ég sagði alveg hreint nei. Það kemur ekki til greina að leyfa þessum aðilum að flytja inn smjörlíki.
    Það er ríkisstjórn hv. 5. þm. Suðurl. sem þetta gerir. En innflutningur á smjörlíki, sem Jón Sigurðsson viðskrh. hefur veitt Hagkaupi, KRON og ég held einhverjum fleirum undanfarið, kemur löndunum grænlenskra og færeyskra skipa á Íslandi ekkert við, svo að það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Suðurl. að vera að væla um það í ræðustól.
    Ég vissi ekki að hv. þm. væri svona góður fimleikamaður, þá á ég við andlega fimleika, því að hann fór a.m.k. tvo hringi í gegnum sjálfan sig hérna í
ræðustólnum á ekki lengri tíma. Að vísu var hlé gert til þingflokksfunda þannig að hann gat sótt í sig veðrið í seinni hluta ræðunnar. Hann talaði um hvað það væri ógæfulegt ef ætti að veita heimildir sem þessar því að þá væri hér eiginlega allt dautt. Síðan stökk hann aðeins til og sagði að hann skildi ekki í því að það mundi nokkurt erlent skip landa hér afla og Færeyingar hefðu aldrei beðið um það. Það er einmitt það sem maður er að vona, að einhverjir biðji um að landa afla hér. Það er nær en að neita þessum samskiptum að höggva á hnútinn sem verið hefur í öll þessi ár í samskiptum þjóða og velja til þess tvær nágrannaþjóðir okkar. Við erum búnir að ná viðamiklum samningum sem við erum mjög ánægðir

með, eins og samningnum um skipti á loðnuveiðunum, og við viljum halda áfram. Við eigum svo margt sameiginlegt. Hugsið ykkur ef fleiri skip koma hér og landa þurfa að fá hér viðgerðir. Þau þurfa að versla hér. Þau þurfa að kaupa veiðarfæri, jafnvel tæki sem verið er að framleiða hérna. Ekkert af þessu selst ef enginn má koma hingað nema náðarsamlegast að sækja um það í hvert eitt skipti sem skip vilja koma hingað og landa hér afla. Veitir okkur af því að fá aukinn afla sem fenginn er utan við 200 sjómílna fiskveiðilögsögu okkar ef við getum aukið tekjur þjóðarinnar sem því nemur? Ég held að það sé eingöngu af því góða. Þess vegna skil ég ekki hvernig menn geta tekið þessu frv. þannig sem mér finnst svo sjálfsagt í alla staði. Ég skil ekki andstöðu samtaka, að segja bara: Við mælum gegn samþykkt frv., en koma ekki með nein rök fyrir því af hverju þeir gera það. Ég minni líka á hversu oft er búið að flytja hér tillögur um að auka samskipti við nágrannaþjóðir eins og Grænlendinga og Færeyinga, samskipti milli Íslands, Grænlands og Færeyja. Við höfum verið að auka þessi viðskipti. Við höfum verið að auka og efla tengsl á milli þessara þjóða. Meinum við þá ekkert með þessu? Er þetta þá orðagjálfur eitt? Við eigum að hafa einhverja samningsstöðu, segja menn. Af hverju leyfa Færeyingar íslenskum loðnuskipum að landa án þess að setja á oddinn: Ef við kaupum fisk eða loðnu af íslenskum skipum verðið þið að veita okkur leyfi til veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu? Við gerðum það einu sinni meðan við höfðum efni á því og gátum það? Þeir eru ekkert að biðja um og þurfa ekkert að biðja um. Þeir vilja fá þetta til þess að auka sínar þjóðartekjur og hafa þess vegna verið að kaupa loðnu af íslenskum skipum. Sama reglan gildir gagnvart okkur sjálfum. Við viljum fá afla sem er veiddur utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögumarkanna og auka þar með þjóðartekjur okkar og okkur veitir sannarlega ekki af.
    Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að rifja upp hvernig Færeyingar komu fram við okkur í landhelgisstríðinu. Við áttum ekkert marga bandamenn á þeim tíma. Flestar þjóðir töldu það glapræði af okkur eftir að vera búnir að færa út í 50 mílur að færa þá út í 200 mílur. Þá var það þessi fámenna frændþjóð okkar sem stóð við hliðina á okkur og aflaði sér óvinsælda Breta fyrir bragðið. Við skulum ekki gleyma því.
    Við höfum gert Færeyingum margt gott á liðnum árum, en við eigum líka að halda því áfram. Við eigum að efla þessi samskipti. Við eigum að auka skilning og vináttu á milli þessara nágrannaþjóða. Við heyjum sömu lífsbaráttuna og þessar þjóðir og það gerum við ekki með því að nota tækifærið til að hafa eitthvert kverkatak á þeim. Við skulum ekki gera okkur það til skammar að láta þurfa sækja undir okkur í hvert skipti sem eitthvert skip ætlar að landa hér afla. Við ætlum ekki, og ég tek undir þau orð með hv. 2. þm. Vestf., flestir alþingismenn, að Grænlendingar eigi að semja við stórþjóðir sem koma með verksmiðjuskip á mið þeirra til þess að taka við

afurðum þeirra eins og þeir mundu þurfa að gera við allar veiðar við Austur-Grænland. Við eigum að breiða faðminn á móti þessum þjóðum og auka samskipti við þær og sýna þeim af heilum hug að við erum góðir nágrannar sem viljum auka og efla tengsl á milli þessara þjóða. Þetta er eitt höfuðatriðið fyrir því að við eigum að samþykkja frv. Að lokum þakka ég báðum flm. frv. fyrir að hafa flutt það á tveimur þingum í röð.