Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Valdimar Indriðason:
    Virðulegi forseti. Ég tel mig knúinn að taka þátt í þessari umræðu því að mér finnst að við séum á hálli braut og ég skil ekkert í því að ungur þingmaður, hv. þm. Guðni Ágústsson, skuli koma með slíka tillögu sem hér er lögð fram vegna þess að eins og hv. 1. þm. Vestf. kom inn á áðan verðum við að fara að fikra okkur út úr þeim helgu lögum sem voru helg á sínum tíma, gömlu landhelgislögunum, 67 ára gömlum. Tímarnir hafa breyst svo mikið. Þau lög voru til þess að verja okkur fyrir því þegar fiskað var inn um alla flóa og firði að afli yrði tekinn við nefið á okkur og fluttur í burtu. Tímarnir hafa breyst og við verðum að breytast með.
    Það er eitt í þessu máli sem ég held að menn geri allt of mikinn úlfalda úr. Menn þurfa ekki að óttast að erlend veiðiskip fari að landa í miklum mæli á Íslandi. Því höfum við séð við, Íslendingar sjálfir, með því að greiða ekki það verð á hráefninu sem er verið að landa hér að við séum samkeppnisfærir við aðrar þjóðir. Af hverju löndum við loðnunni í Færeyjum? Af hverju löndum við loðnunni í Noregi? Af hverju ekki að landa heima? Það er hærra verð á þessum stöðum. En vegna alls konar bagga sem bundnir eru íslenskum loðnuverksmiðjum, og þær eru því miður ekki nógu margar komnar svo vel á veg í sinni vinnslu að þær geti borgað nógu hátt hráefnisverð, er þetta að ske.
    Ég hélt um daginn þegar við vorum að ræða um samningana við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga í þessum efnum að við værum sammála um að takast á við þetta mál, auka samskipti á milli þjóðanna og koma fram eins og samningsaðili í þessu máli og sýna hug okkar. Þess vegna harma ég að heyra það frá hæstv. sjútvrh. áðan að hann skyldi ekki vilja fara þá leið sem verið er að fara heldur taka undir þá tillögu sem flutt var af þingmanni Suðurlands áðan. Ég harma það vegna þess að ég tel það ekki til að bæta okkar viðskipti við þessar þjóðir.
    Það er nefnilega full ástæða til að rekja aðeins þá sögu. Það er um að ræða ekki mikið magn sem á að veiða samkvæmt samningum sem eru að komast á, eða vonandi, kannski um 100 þús. tonn af loðnu. Það má ekki gleyma að það er heimild í þessum samningi til að veiða til 15. febrúar á Íslandsmiðum í íslenskri lögsögu til að ná þessum samningi upp. Erum við bættari með því að senda þetta í burtu? Af hverju má ekki landa þessu í verksmiðjunum fyrir vestan, norðan og austan ef þeir aðilar kæra sig um það sem eru að fá þessi leyfi? ( Sjútvrh.: Það er heimilt samkvæmt samningi.) Það er heimilt samkvæmt samningi, já, en það má ekki veita þeim það leyfi nema með sérstakri heimild til að landa samkvæmt þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Þess vegna styð ég tillögu meiri hl. sjútvn., hvernig hún vill framkvæma málið. Við eigum að brjóta þarna í blað og við getum sett í lög hjá okkur þennan tíma að leyfa þessum mönnum löndun hér alveg hindrunarlaust. Það er þungamiðjan í málinu en ekki að vera með úrtölur og slíkt til þess að skemma fyrir þessu máli. Við þurfum að leita þarna

góðra samskipta. Við gerum það ekki nema með því að rétta hendina á móti. ( GuðnÁ: Höfum við ekki gert það?) Ekki í nógu miklum mæli. Það er ekki eingöngu fiskurinn sem við erum að sækjast eftir. Það er alls konar þjónusta við þessi skip sem við sækjumst eftir eins og Grænlendingana sem landa bæði á Ísafirði, í Hafnarfirði og annars staðar. Þeir sækja mikla þjónustu í land. Þetta er mikils virði fyrir okkur.
    Það er ekki svo mikið til skiptanna hjá Íslendingum sjálfum og þeirra verksmiðjum og frystihúsum að þeir geti ekki tekið á móti fiski ef þeir geta keypt hann. En það sem ég óttast er að fiskimennirnir muni ekki bjóða hann til sölu nema slatta í algerri neyð vegna þess að það er ekki verð í boði hér á móti því sem fæst erlendis. Þess vegna er ég hissa á þessum umræðum og ég legg eindregið til að þingið samþykki hiklaust tillögu meiri hl. sjútvn. eins og hún liggur fyrir.