Námslán og námsstyrkir
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Frsm. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Snemma á þessu þingi var flutt frv. til breytinga á lögum um námslán og námsstyrki. Þetta frv. varðar það hvernig fara skuli að ef gerðar eru breytingar á útreiknuðum framfærslugrunni. Efni frv. er á þá leið að um hugsanlegar breytingar á útreiknuðum framfærslugrunni vegna námslána skuli fjallað í þriggja manna nefnd áður en þær taka gildi.
    Menntmn. hefur fjallað um frv. og mælir með samþykkt þess. Hún hefur fengið umsagnir um það frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Lánasjóði ísl. námsmanna og Stúdentaráði, en vegna athugasemda um að orðalag í grg. gefi vísendingu um rangan skilning á sjálfri frumvarpsgreininni þykir nefndinni rétt að gerð sé breyting á þessari sömu grein og hún orðist þannig:
    ,,Komi fram óskir eða tillögur um breytingar á útreiknuðum framfærslugrunni samkvæmt þessari grein er ráðherra skylt að láta þriggja manna nefnd fjalla um þær áður en slíkar breytingar eru gerðar.``
    Og síðan áfram eins og stóð í frumvarpsgreininni: ,,Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af menntmrh., einum tilnefndum sameiginlega af samtökum námsmanna, auk hagstofustjóra eða fulltrúa hans, og skal hann vera formaður nefndarinnar.``
    Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.