Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég lýsi aðeins aðdáun minni á hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og hvað hann er kjarkaður að tala svona til fjölmiðla um launamál og kjör þingmanna. Ég gæti bætt við þann lista sem hann var með um hvernig ýmsir aðrir í þjóðfélaginu en þingmenn njóta biðlauna, og þar á meðal opinberir starfsmenn. Ég þekki ágætlega vel hvernig þeir hafa notið biðlauna þótt þeir hafi horfið til launaðra starfa eftir að þeir hafa hætt af að vísu breytilegum ástæðum, m.a. vegna þess að stöður þeirra hafa verið lagðar niður.
    En ég skildi ræðu hv. þm. þannig að hann væri heldur hlynntur þessu frv. Hann gerði grein fyrir því að þegar núgildandi lög voru til meðferðar í þinginu hefði hann ekki gert ráð fyrir því að sá sem hyrfi af eigin hvötum af þingi tæki með sér þriggja eða sex mánaða biðlaun. Ég skildi ræðu hv þm. þannig.
    Nú var það svo að ég var á þingi þegar þessi lög voru samþykkt 1980 og hafði reyndar nokkur afskipti af þeim málatilbúnaði eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki sérstaklega eftir umræðu sem kann að hafa orðið um það tilvik sem núna er hér uppi. En ég spyr enn og mér fannst það vanta í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar: Hver er munurinn á því að maður skuli njóta biðlauna ef hann fellur í kosningum, fer ekki í framboð eða segir af sér? Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinu öðru en því að sá sem segir af sér þingmennsku skuli ekki njóta biðlauna ef hann hverfur til annarra starfa, en sá sem fellur í kosningum eða fer ekki í framboð má njóta biðlauna eftir sem áður. Þetta frv. tekur ekki á því. Ég er aðeins að reyna að fá það fram hver sé þessi reginmunur. Og hvers vegna í ósköpunum liggur svona á því að afgreiða þetta mál einmitt núna þegar það liggur alveg ljóst fyrir að þetta hittir ekki nema einn mann, ekki svo að vitað sé? Ég hafði að vísu þann fyrirvarann á hvort kannski væri búið að hrókera einhverju meiru í utanríkisþjónustunni sem væri ekki búið að skýra frá. Það má vel vera. En annars hittir þetta ekki nema einn. Mig langar til að fá frekari skýringar á því hjá áhugamönnum um framgang þessa máls hver sé þessi meginmunur.