Þingfararkaup alþingismanna
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Munurinn liggur a.m.k. í augum uppi hvað eitt atriði varðar. Ríkisstarfsmaður sem segir upp sínu starfi, hafi verið t.d. um að ræða starfsmann hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins sem sagði upp í desembermánuði sl. af eigin hvötum, fær ekki biðlaun. Ef honum er hins vegar sagt upp af vinnuveitanda sínum fær hann biðlaun. Það má segja að alþingismanni sem felldur er í kosningum sé sagt upp starfi af atvinnuveitanda hans, íslenskum kjósendum. Það liggur a.m.k. alveg í augum uppi hver munur hlýtur að vera á því annars vegar að maður segi upp þingmennsku og hins vegar að hann falli í kosningum. Það er sami munur á því og er á því að maður segi upp starfi sínu af eigin hvötum og því að honum sé sagt upp störfum.