Jöfnun á raforkukostnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu máli hér á Alþingi og var hann raunar manna vísastur til að svo yrði gert. Það er líka afar mikilvægt að það skuli hafa verið skýrt hér frá því af hendi ríkisstjórnarinnar að í þessum málum hafi enginn árangur náðst að því er varðar heimilin í landinu. Hæstv. iðnrh. talar um viðmiðun við orkukostnað í Reykjavík og hann talar um langtímasjónarmið í þessum efnum. Það sem skiptir máli í þessu efni sleppti hins vegar hæstv. ráðherra að orða, þ.e. hvaða hluta af launum fólkið í landinu þurfi að greiða eftir búsetunni fyrir orkuna sem það kaupir og hverjar hafi orðið breytingar í þeim efnum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er auðvitað það sem skiptir máli í þessum efnum, ekki um einhver sérstök hlutföll heldur hvað það er stór hluti af laununum sem fer til þess að halda hitanum í húsunum vítt um landið. Það er einmitt það sem er hin brennandi spurning, en henni hefur ekki verið svarað og ástæðan er sú að í tíð núv. ríkisstjórnar hefur verið haldið til ófarnaðar í þessum efnum.