Útfararþjónusta
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Fyrirspyrjandi Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu fsp. til kirkjumálaráðherra um útfararþjónustu, en eins og öllum er kunnugt um hefur verið starfrækt útfararþjónusta í einkaeign hér í höfuðborginni óslitið í nokkra ættliði. Það er því eðlilegt að spurst sé fyrir um það hvort sú starfsemi njóti jafnstöðu við opinber fyrirtæki á þessu sviði. Því er spurt:
,,1. Fá einkaaðilar, sem sjá um útfararþjónustu, greitt með sama hætti af kirkjugarðsgjöldum og opinberir aðilar?
    2. Hvaða gjöld taka opinberir aðilar við útfararþjónustu í Reykjavíkurprófastsdæmi fyrir útleigu á líkvagni og störf útfararstjóra og aðstoðarmanns?
    3. Telur kirkjumálaráðherra eðlilegt að sett sé löggjöf um útfararþjónustu þar sem einkaaðilum verði m.a. tryggð sama greiðsla af kirkjugarðsgjöldum og opinber fyrirtæki njóta?``