Útfararþjónusta
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í orðum forseta er hæstv. kirkjumálaráðherra fjarverandi af óhjákvæmilegum ástæðum og fór hann þess á leit við mig að ég svaraði þessari fsp. í hans fjarveru. Ég hef gert hv. fyrirspyrjanda grein fyrir því þannig að það er með hans samþykki að fsp. er svarað þó að hæstv. kirkjumálaráðherra sé fjarstaddur.
    1. liður fsp. var: ,,Fá einkaaðilar, sem sjá um útfararþjónustu, greitt með sama hætti af kirkjugarðsgjöldum og opinberir aðilar?`` Svar við þeirri spurningu er að samkvæmt upplýsingum Kirkjugarða Reykjavíkur fá einkaaðilar hér í Reykjavík ekki greitt af kirkjugarðsgjöldum fyrir sína þjónustu. Athuga ber að í þeim tilvikum þegar fólk kýs að notfæra sér þjónustu einkaaðila annast Kirkjugarðar Reykjavíkur hluta af útfararþjónustunni án þess að taka sérstakt gjald fyrir það. Þeir sjá þannig um líkflutninga, að veita aðstöðu í líkhúsi og ýmsa aðra þjónustu í sambandi við líkið og sjá um grafartöku. Á þessu stigi er ekki hægt að svara því hvernig þessu er háttað víðs vegar um landið. Til þess þyrfti því miður lengri tíma.
    2. liður fsp. var: ,,Hvaða gjöld taka opinberir aðilar við útfararþjónustu í Reykjavíkurprófastsdæmi fyrir útleigu á líkvagni og störf útfararstjóra og aðstoðarmanns?`` Svar við þessum lið er að samkvæmt upplýsingum Kirkjugarða Reykjavíkur er ekki tekið sérstakt gjald fyrir þessa þjónustu.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Telur kirkjumálaráðherra eðlilegt að sett sé löggöf um útfararþjónustu þar sem einkaaðilum verði m.a. tryggð sama greiðsla af kirkjugarðsgjöldum og opinber fyrirtæki njóta?`` Svar við þessum lið er að ef vilji er fyrir hendi væri möguleiki á því að koma slíkum ákvæðum fyrir í frv. til laga um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu sem nú er verið að leggja síðustu hönd á og virðist því ekki þörf á sérstakri löggjöf um þetta efni.
    Svona hljóða svör við þessum þremur liðum fsp. hv. þm. E.t.v. má segja að í 3. tölul. sé spurt um persónulega afstöðu eða álit kirkjumálaráðherra og ég get því miður ekki gefið hv. fyrirspyrjanda annað svar en það sem hér hefur þegar verið flutt.