Öryggismálanefnd sjómanna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvenær megi vænta skýrslu samgrh. til Alþingis um framkvæmd loka- og áfangatillagna öryggismálanefndar sjómanna svo og um stöðu öryggismála sjómanna almennt.
    Öryggismálanefnd sjómanna sem þáv. samgrh., Matthías Bjarnason, skipaði í mars 1984 skilaði eins og kunnugt er tveim skýrslum, annars vegar áfangaskýrslu í október 1984 og lokaskýrslu í október 1986. Síðan þá hefur verið unnið að framkvæmd þeirra tillagna sem í þeirri skýrslu voru með ýmsum hætti og skýrsla samgrh. um framkvæmd tillagnanna verður lögð fyrir Alþingi á hausti komanda og vænti ég þá að um hana og öryggismál sjómanna almennt verði góðar umræður. Þessi skýrsla er nú til lokafrágangs í samgrn. í samráði við Siglingamálastofnun.
    Áfangaskýrsla um tillögur öryggismálanefndar sjómanna og framkvæmd þeirra var unnin á árinu 1987 og til greina hefði komið að leggja hana fram á þessum vetri, en við nánari athugun var valinn sá kostur að endurvinna þá skýrslu og gefa hana út og leggja fyrir Alþingi á næsta hausti þar sem ýmislegt er að gerast og hefur gerst einmitt á þeim tíma sem liðinn er frá miðju ári 1987 þegar áfangaskýrslan var unnin.
    Rétt er að taka fram að reiknað var með að skýrsla yrði lögð fyrir Alþingi að tveimur árum liðnum eins og það stóð í tillögum öryggisnefndarinnar frá 1986, en það hefði þá þýtt að eðlilegt hefði verið að þann tíma hefði borið upp á lok ársins 1988. En þegar farið var að fara yfir þessi mál í samgrn. eftir að ég tók þar við störfum varð niðurstaðan sú að láta endurvinna þessa skýrslu og gera hana ítarlegri og leggja hana fyrir Alþingi á komandi hausti.
    Rétt er að taka fram og undirstrika að mjög margt af því sem öryggismálanefndin lagði til bæði í áfangaskýrslu sinni 1984 og eins í lokaskýrslunni 1986 hefur þegar komið til framkvæmda. Ég leyfi mér að nefna nokkur atriði í því sambandi til þess að það komi fram að að þessu málum hefur verið mikið unnið.
    Ég nefni nýja löggjöf um Siglingamálastofnun sem sett var 1986. Þá hefur verið unnið að því að efla menntun yfirmanna á skipum, fyrst og fremst til að fækka undanþágum til starfa og auka hlut réttindamanna í þeim störfum, og undanþágum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum. Frá ársbyrjun 1986 hefur verið í gangi átak í öryggisfræðslu sjómanna. Slysvarnafélag Íslands hefur haldið námskeið um allt land og með starfsreglum ráðuneytisins frá 1988 var Slysavarnafélaginu formlega falin starfræksla Slysavarnaskóla sjómanna sem hefur með höndum þessa fræðslu.
    Öryggisfræðslunefnd sjómanna undirbýr nú átak í öryggisfræðslu og réttindamálum stjórnenda smábáta, en því er ekki að leyna að nú hin síðustu ár hefur athygli manna verulega beinst að tíðum slysum á

smábátum.
    Með breytingu á siglingalögum frá 1986 var stofnuð rannsóknarnefnd sjóslysa sem skipuð er mönnum sérfróðum um siglingar og sjómennsku. Þessi nefnd starfar sjálfstætt og óháð og er staða hennar svipuð ákvæðum loftferðalaga um flugslysanefnd.
    Þá hafa ýmsar breytingar verið gerðar á reglum um björgunar- og öryggisbúnað skipa og yrði of langt mál að telja það allt upp. Nefna má að í nýrri reglugerð um hafnamál er kominn sérstakur kafli um slysavarnir í höfnum og enn fremur að sett hafa verið ný lög um lögskráningu sjómanna sem verulega eiga að bæta framkvæmd lögskráningar.
    Þetta eru nokkur dæmi um það sem unnið hefur verið að og gerst hefur síðan á árinu 1986, þ.e. frá þeim tíma sem lokaskýrslan kom út. Fjöldamargt annað er í vinnsu eða er að koma til framkvæmda og það er von mín að yfirlitsskýrsla um þessi mál, sem unnið verður að í sumar, geti gefið glögga mynd af framkvæmd þessara mála og stöðu á komandi hausti.