Ritvinnslusamningur
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort stofnanir sem heyra undir menntmrn. hafi gert verksamninga erlendis um ritvinnslu og í öðru lagi hvort menntmrh. hafi staðfest slíka verksamninga.
    Svör menntmrn. eru þau að ráðuneytinu er ekki kunnugt um að stofnanir á þess vegum hafi gert verksamninga um venjulega ritvinnslu við erlenda aðila. Til að ganga úr skugga um þetta þarf þó nánari athugun með því að hafa sérstaklega samband við hverja stofnun og slík könnun hlyti að taka lengri tíma en þeir fáu dagar leyfa sem liðnir eru síðan þessi fsp. kom fram.
    Rétt er þó að taka fram að þó ekki sé um að ræða venjulega ritvinnslu gerði á sl. ári Háskólabókasafn og Landsbókasafn samninga við fyrirtæki í Lundúnum um svonefnda afturvirka tölvuskráningu erlends ritkosts í söfnum til undirbúnings tölvuvæðingu í Þjóðarbókhlöðu. Þessi samningur var heimilaður og staðfestur af menntmrn. eftir ítarlega athugun á tilboðinu og því verkefni sem hér var um að ræða og var þar sérstaklega haft samband við bæði fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun og sérfræðinga þessara aðila í tölvumálum. Hefur það væntanlega verið vegna eðlis verksins og það að hér var um stórt og sérhæft verk að ræða sem niðurstaðan varð sú að taka tilboði þessa breska aðila sem mun hafa verið lægst þeirra sem fengust erlendis frá í verkið.
    Ég get upplýst að verksamningurinn mun vera upp á --- með nokkrum skekkjumörkum eða hlaupi eftir því hvert verður magn færslna í samningnum --- um 182 þús. bresk pund sem gæti látið nærri að vera 16 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Hér er því vissulega um allstórt verk að ræða, enda viðamikil skráning á ferðinni.
    Þetta er sem sagt eina tilvikið sem menntmrn. er kunnugt um og það eina sem þar hefur verið staðfest er í raun og veru ekki hefðbundin ritvinnsla heldur sú sérstaka skráning sem hér er nefnd, á einhverri þeirri íslensku sem ég tek enga ábyrgð á, afturvirk tölvuskráning.