Ritvinnslusamningur
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er enginn ágreiningur milli hv. fyrirspyrjanda og mín um að það er æskilegast að við Íslendingar vinnum sem mest af okkar verkum sjálfir, og á það við um hvort sem er framleiðsluvöru eða hvers kyns þjónustuvinnu, og reynum að vera sjálfbjarga og okkur sjálfum næg á sem allra flestum sviðum, hvort heldur er ritvinnsla, skráning gagna eða framleiðsla á smjörlíki. En ég hygg að það sem hér hafi mestu um valdið sé að verkið er stórt og óvenjulegt fyrir íslenskan tölvumarkað og hugbúnaðariðnað. Hér er um að ræða tækni sem er enn þá í þróun og er viðkvæm fyrir ýmsum breytingum. Skönnun á ritmáli er enn þá afar viðkvæm fyrir t.d. misjöfnun við leturgerð og fleiri slíkum hlutum og auk þess er verulegur hluti vinnunnar uppfletting í erlendum skrám sem líklegt er að hefði orðið mun kostnaðarsamari hér hjá minni fyrirtækjum innan lands en hjá þessum gríðarstóra aðila sem er einmitt sérhæfður í skráningu á þessu sviði. Þetta er það sem ég veit um málið til að upplýsa hvers vegna ... ( GuðnÁ: Var það erlendi þátturinn?) Það er þessi erlendi þáttur verksins sem ég get ímyndað mér að hafi valdið því sérstaklega að menn lögðu ekki í það verk að semja við íslenska aðila eða innlenda aðila um þetta, en ég vona og trúi að í því felist ekki á nokkurn hátt stefnumörkun af því tagi að menn vilji frekar leita til erlendra aðila en innlendra. Þvert á móti mundi ég treysta hinu gagnstæða og ég þekki ekki menntmrh. af öðru en því að vera þjóðernislega sinnaðan alveg í ágætu hlutfalli við það sem gengur og gerist í landinu. (Gripið fram í.) Þetta var staðfest af núv. menntmrh., en hafði verið undirbúið af fyrrv. menntmrh. og nánast gengið frá samningsdrögum í tíð fyrri ríkisstjórnar.