Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Öðru hvoru verður íslenska þjóðin þess vör að fyrir því eru full rök að landið sem hún byggir heitir Ísland. Þegar mánuður er af sumri eru um þessar mundir u.þ.b. 4 / 5 hlutar landsins undir gaddi og ís og veðrátta svipuðust því sem í apríl væri eða jafnvel enn framar á vetri í sumum byggðum. Það er við þessar aðstæður sem íslenskir bændur mæta nú mesta annatímanum og þá sérstaklega sauðfjárbændur þar sem sauðburður stendur nú yfir, einmitt sá tími sem ræður mestu um það hver afkoman verður í sauðfjárbúskap.
    Vissulega eru aðstæður mismunandi eftir landshlutum og þau héruð sem sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af eru þar sem óþurrkar geisuðu á sl. sumri austan lands með þeim hætti sem óvenjulegt verður að teljast, enn fremur norðausturhluti landsins og Vestfirðir þar sem snjóalög eru sem um hávetur væri.
    Í þessum héruðum má ætla að um 1 / 3 hluti sauðfjárstofnsins sé og við lauslega athugun má líka ætla að fóðurþörf fyrir þann bústofn sé núna um 100 tonn á hverjum degi umfram það sem gerist í meðalári. Og ef gengið er út frá því að í hinum hlutum landsins sé þessi umframfóðurþörf hálfur hlutur á við það sem gerist á harðindasvæðunum má ætla að fóðurþörf í sauðfjárbúskap að því er varðar kjarnfóður nálgist 200 tonn á hverjum degi umfram það sem gerist í venjulegu árferði. Það er mikil ástæða að hyggja að því hvernig þessar fóðurbirgðir eru í landinu og þá ekki síst með tilliti til þeirrar þróunar, sem verið hefur á síðustu árum, að mjög hefur dregið úr kjarnfóðurinnflutningi. Fóðurinnflytjendum hefur fækkað svo að ætla má að af þeirri ástæðu séu minni birgðir í landinu en full þörf væri á við þessar aðstæður.
    Örlög túnanna og ræktunar eru enn hulin undir gaddi og ís. Um afkomu í þeim efnum fær enginn að vita fyrr en snjóa leysir og grös fara að gróa. En það má vissulega undrum sæta ef ekki er í uppsiglingu eitt af kalárunum sem við könnumst við og vissulega má búast við að í sumum byggðum verði áhrif kals mjög alvarleg.
    Mér finnst af þessu tilefni ástæða til að vitna aðeins í skýrslu eftir Bjarna Guðleifsson ráðunaut, sem hefur mesta þekkingu og reynslu í þessum efnum, en hún hefur nýlega borist mér í hendur. Hann segir svo, með leyfi forseta: ,,Hef ég líkt kalskemmdum við náttúruhamfarir eða bruna sem við ráðum ekkert við og stöndum nánast varnarlausir gagnvart nema hvað við getum í einhverjum mæli notað fyrirbyggjandi aðgerðir.``
    Og enn fremur segir ráðunauturinn: ,,Fyrir einstaka hreppa virðist uppskera í verstu kalárum rýrna um 30--40% en eðlilega meira á einstökum bújörðum og minna yfir landið í heild.``
    Gagnvart þessum aðstæðum standa nú íslenskir bændur. Ráðunauturinn líkir horfunum við náttúruhamfarir eða bruna.
    Það er af þessu tilefni sem ég skrifaði hæstv.

landbrh. svofellt bréf í gær:
    ,,Að fengnu samþykki forseta sameinaðs þings hef ég ákveðið að hefja umræður utan dagskrár um ástand í landbúnaði með tilliti til harðinda í veðurfari. Spurningar sem ég mun leita svara við eru m.a. þessar:
    1. Hafa verið gerðar ráðstafanir umfram venjulega forðagæslu til að kanna ástand fóðurbirgða með tilliti til harðinda í veðráttu?
    2. Ef svo er ekki, hyggst ríkisstjórnin láta slíka könnun fara fram?
    3. Eru þær birgðir af fóðurkorni og fóðurblöndum sem til eru í landinu í samræmi við þá miklu fóðurþörf sem nú er fyrir hendi í hefðbundnum búgreinum?
    4. Hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja nægilegar birgðir af sáðkorni til að mæta þeim uppskerubresti er kann að leiða af óvenjulega erfiðu árferði?
    Ég vænti þess að þú sjáir þér fært að svara framangreindum spurningum þegar málið kemur til umræðu.

Virðingarfyllst.

Egill Jónsson.``