Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það en orðið er til að lýsa því harðindatíðarfari sem ríkt hefur á landinu okkar síðan um áramót. Afleiðingar þess birtast okkur nú á vordögum þegar vor er komið samkvæmt tímatali en vetur ríkir enn á mestum hluta landsbyggðarinnar.
    Fyrir svo sem hundrað árum, og þarf reyndar ekki svo langt aftur í tímann, hefði við þessar aðstæður fénaður verið farinn að falla og fólk soltið. Enn er á lífi fólk sem man harðindavor þegar sá á bæði fénaði og fólki. En þjóð sem lifir í velsæld er fljót að gleyma og kannski vill hún ekki muna.
    Bændur landsins horfa nú fram á vor sem hlýtur að verða þeim þungt í skauti. Víðast er útlit fyrir að fénaður verði á gjöf lengi enn og þar sem snjó hefur tekið upp fer gróður ekki af stað vegna kulda og víða er útlit fyrir miklar kalskemmdir sem kalla á endurræktun og meiri grænfóðurræktun en í venjulegu árferði.
    Ég vil líka minna á það, eins og hæstv. landbrh. kom inn á í sambandi við verkfallið, að verkfall náttúrufræðinga hefur orðið til þess að minna er nú e.t.v. til af kjarnfóðri úti um verslunarstaði landsins en vegna verkfalls dýralækna hafa bændur nú um mánaðartíma og lengur orðið að fóðra sláturpening sem þeir hafa ekki reiknað með að þurfa að hafa á fóðrum. Það kostar þá nokkuð líka því að fóðrun búpenings allt að tveim mánuðum lengur en í venjulegu árferði kallar á aukna kjarnfóðurgjöf og er bændum kostnaðarsöm bæði í beinum fjárútlátum og ómældu erfiði. Sumir garðyrkjubændur horfa á garðlönd sín undir snjó, aðrir geta ekki unnið þau enn vegna klaka þó að auð séu og skógræktarmenn verða að halda að sér höndum. Þetta eru ekki bjartar horfur fyrir þá sem búa í sveitum landsins og má enn minna á fyrirheitin í stjórnarsáttmálanum um átak til eflingar atvinnu kvenna í dreifbýli. Vafalaust væru mörg heimili betur stödd ef konur ættu aðgang að tryggri vinnu.
    En burt séð frá því getum við þó glaðst yfir því hér á Alþingi að við höfum verið að samþykkja lög sem tryggja bændum greiðslu fyrir framkvæmdir, tryggja það að þeir, sem nú í ár neyðast til að bylta túnum sínum vegna kalskemmda, fái það greitt og þurfi ekki að bíða árum saman eftir því. Í framhaldi af því væri fróðlegt að vita hvort bændur fari ekki að fá í hendur greiðslur fyrir áður unnar framkvæmdir sem þeir hafa beðið eftir um árabil og sömuleiðis hvort greiðslur til loðdýrabænda, sem ákveðnar voru að ég hygg fyrir hálfum öðrum mánuði, fari ekki að skila sér.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra gefi svör við þessum spurningum. Og að endingu: Við sem erum vel menntuð þjóð og teljum okkur vera sæmilega skynsöm megum ekki gleyma því hvar á hnettinum við erum með tilliti til veðurfars. Stjórnvöld verða ávallt að sjá til þess að tryggt sé að til séu í landinu nægar birgðir af fóðurvörum og sáðkorni til að mæta harðæri sem sjaldnast gerir boð á undan sér.

Það verður aldrei um of minnt á mikilvægi þessa og brýnt fyrir stjórnvöldum að raunar ber þeim skylda til að sjá til þess að svo sé.