Ástand og horfur í landbúnaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég verð að fá að gera örstutta athugasemd sagnfræðinnar vegna. Það er ekki svo að mér sé höfundarréttur á þessari nefndarskipan eða þessum ráðstöfunum fastur í hendi, en ég tel þó sagnfræðinnar vegna, eins og ég segi, að það sé rétt að menn hafi atburðarásina nokkurn veginn á hreinu. Það er alveg óþarfi fyrir jafnkynsælan mann og hv. þm. Egil Jónsson að eigna sér annarra manna börn. Hann þarf þess ekki.
    Undirbúningur undir þetta nefndarstarf hófst fyrir um viku til tíu dögum með samstarfi við Búnaðarfélagið og fleiri aðila. Nefndin var skipuð í fyrradag. Hún hélt sinn fyrsta fund í gærmorgun, sendi bréf til búnaðarsambanda í gærdag, en vitneskju um þessa utandagskrárumræðu og bréf hv. þm. fékk ég í hendur síðdegis í gær, reyndar undir kvöld í gær, og hafði því nóttina til að svara því.
    Þannig var atburðarásin eins og ég veit hana besta og ég held að það sé enginn annar Íslendingur sem getur betur borið um það hvernig þessa hluti hefur borið að en ég.