Deilur Ísraels og Palestínumanna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Utanrmn. hefur fjallað um till. til þál., sem er 102. mál þingsins, um deilur Ísraels og Palestínumanna, en flm. þeirrar tillögu voru Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir og Páll Pétursson.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa tillögu. Ég held að það sé ljóst að öll höfum við áhyggjur af því ástandi sem er í þessum heimshluta, en nefndin hefur komist að samkomulagi með samþykkt á þessari tillögu og flytur brtt. á þskj. 1212, en nál. hljóðar svona:
    ,,Nefndin hefur rætt tillöguna á nokkrum fundum. Hún leggur einróma til breytingu á tillögugreininni eins og fram kemur á sérstöku þingskjali og mælir með samþykkt tillögunnar svo breyttrar.``
    Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn í utanrmn.
    Ég vil taka það fram strax að um það er líka samkomulag við hæstv. utanrrh. hvernig tillgr. orðast eftir okkar brtt. En við leggjum til að tillgr. orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvors annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóv. 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.
    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.``
    Eins og ég tók fram áðan er utanrmn. einhuga um að mæla með samþykkt tillögunnar svo breyttrar og er það að höfðu samráði við bæði flm. og utanrrh.