Deilur Ísraels og Palestínumanna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég lýsi ánægju minni með að tekist hefur víðtækt samkomulag um það þingmál sem hér er til umræðu með framlagningu þeirrar brtt. frá utanrmn. sem hér hefur verið kynnt.
    Það var í nóvember sl. að við fluttum þrír hv. þm. till. til þál. um deilur Ísraels og Palestínumanna. Þessi mál voru þá rædd í Alþingi og málinu vísað til utanrmn. Í nefndinni hefur, eins og fram hefur komið, tekist einhuga samkomulag um þá brtt. sem hér liggur fyrir. Ég er aðili að því máli sem fulltrúi í utanrmn. Mér er óhætt að bera fram þakkir fyrir hönd annarra flm. málsins, þingmannanna Kristínar Einarsdóttur og Páls Péturssonar sem stóðu að þessari tillögu með mér fyrr á þinginu.
    Margt hefur gerst sem tengist þessu máli á þeim tíma sem liðinn er frá því að tillagan var flutt og ég tel að það hafi undirstrikað nauðsyn þess að Alþingi léti mál þetta til sín taka. Ég tel að þær áherslur sem koma fram hér í tillögu nefndarinnar feli í sér eðlileg viðbrögð, jákvæð og nauðsynleg af Íslands hálfu í ljósi þeirra alvarlegu atburða og þeirrar alvarlegu þróunar sem orðið hefur í Palestínu vegna deilna Ísraels og Palestínumanna. Þau grundvallargögn sem vikið er að í tillögunni og vísað er til á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru að mati þeirra sem um málið hafa fjallað sá grundvöllur sem líklegur er til að geta skapað frið á þessu svæði og það skiptir miklu að Ísland, sem hefur látið sig varða málefni Ísaraelsríkis um langt skeið, láti þessi mál og þessa stöðu mála sig varða með þeim hætti sem hér er lagt til.