Staða og þróun jafnréttismála
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu hæstv. félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála, en eins og fram hefur komið er það á tveggja ára fresti sem hæstv. ráðherra leggur fram slíka skýrslu en framkvæmdaáætlunin í þessum málum er samkvæmt gildandi lögum gerð til fjögurra ára í senn og erum við nú stödd á miðju eða rösklega komin yfir mitt það áætlunartímabil.
    Í sambandi við þessa skýrslugjöf vil ég nefna að það er gagnlegt að fá yfirlit af þessu tagi frá framkvæmdarvaldinu og margt í skýrslu hæstv. ráðherra sem er fróðlegt og athyglisvert þó að vafalaust mætti þar benda á þætti sem ástæða væri til að gera betri skil en gert er. Ég ætla þó ekki að fara að finna að neinu sérstöku í því efni hér í mínu máli. Ég held að umræða um þessar skýrslur sé tilefni til þess að gera ákveðið stöðumat, ákveðið mat á stöðu þessara mála og það sé eitt af gagninu sem hafa má af því að fá það hér inn á vettvang Alþingis.
    Hins vegar teldi ég æskilegt að breyta til varðandi framlagningu hvað tíma og umræðu snertir af hálfu þingsins. Það á við um skýrslu um jafnréttismál en það á einnig við um lögboðnar skýrslur varðandi aðra málaflokka að það væri ástæða til að fá þær framlagðar og til umræðu hér í þinginu snemma á hverju þingi. Ég tel að það þurfi að breyta til frá því sem blasir við í dagskrá þessa fundar þar sem við erum undir þinglok að ræða um svo mikilvægan málaflokk sem jafnréttismálin af tilefni skýrslu ráðherra og þar sem einnig verða væntanlega til umræðu byggðamálin af sama tilefni, að ráðherra flytur skýrslu.
    Gagnið af umræðu sem þessari verður hins vegar ekki sem skyldi vegna þess að umræðan fer fram í lok þingtímans. Ég vil því hvetja hæstv. félmrh. og forustu þingsins til að taka þessi mál til endurmats, reyna að tryggja að lögboðnar skýrslur komi fram í byrjun þings og verði ræddar snemma á þingi þannig að störf þingsins geti að einhverju leyti mótast af þeirri umræðu sem skapast um viðkomandi málaflokk. ( Félmrh.: Þessi kom fram í desember.) Mér er kunnugt um það og minnist þess að skýrsla ráðherrans kom fram þegar í desember í vetur. Það er auðvitað sérkennilegt að við skulum vera stödd í byrjun sumars og fyrst vera að taka þetta mál hér til umræðu. Ég tel skipta nokkru að þarna verði breyting á.
    Varðandi jafnréttismálin á heildina litið verður að viðurkenna að þó við getum bent á ýmsa þætti þar sem eitthvað hefur þokast til betri vegar gengur allt of, allt of hægt í þessum efnum. Um það getum við vafalaust mörg verið sammála. En það endurspeglar tregðu, skilningsleysi og óvilja eða fyrirstöðu í samfélaginu að taka á þessum málum með þeim hætti að það sem skrifað er og tekið undir í orði nái einnig fram á borði. Þetta eru staðreyndir sem við blasa, þrátt fyrir alla umræðuna um þennan málaflokk, þrátt fyrir undirtektir í orði mjög víða í samfélaginu, að þarna þurfi að verða breyting á. Aðgerðirnar láta á sér standa og þetta á við um flest svið.

    Það er ekki ástæða til þess af minni hálfu að fara að gera neinn samanburð á tímabilum, litið til baka um þessi efni eða litið til ríkisstjórna. Þetta er málaflokkur sem á skírskotun væntanlega í öllum stjórnmálaflokkum þó með mismunandi hætti sé og hver ríkisstjórn seinni árin hefur tekið þessi mál inn í sinn málefnasamning og inn í sitt málasafn og reynt að taka á einstökum þáttum þessara mála. En niðurstaðan er sem sagt sú sem við blasir hér, t.d. á sviði launamálanna þar sem sáralitlu þokar til betri áttar í sambandi við heildarmyndina sem við blasir. Það gildir einnig í sambandi við ábyrgðarhlut kvenna í samfélaginu að því er snýr að opinberum aðilum. Þar hefur ekki orðið teljandi breyting á, í rauninni engin þegar litið er til stjórna, nefnda og ráða eins og hæstv. ráðherra rakti. Það er kannski helst hér á Alþingi þar sem við höfum, litið yfir nokkurn tíma, séð breytingu til bóta en þó allt of, allt of lítið. Hlutur kvenna endurspeglast því langt frá því með eðlilegum hætti í sambandi við valdastofnanir í þjóðfélaginu og nefndir og ráð þar sem verið er að móta stefnu og taka á einstökum málum.
    Ég tel, virðulegur forseti, að einn af þeim lærdómum sem við drögum af þessari þróun og þessari stöðu mála sé það að nauðsynlegt er að tekið sé á jafnréttismálunum hvarvetna í þjóðfélaginu. Það sé haft í huga við meðferð alla mikilvægra mála, og í rauninni mála stórra og smárra, með hvaða hætti er hægt að taka á þessum málflokki þannig að staða þeirra sem hallar á, þ.e. kvennanna í samfélaginu, verði færð til betri vegar og að ábyrgðaraðilar í samfélaginu innan ríkisstjórnar og sveitarstjórna taki á þessum málum út frá þessu sjónarhorni samtengjandi og reyni að hafa heildarsýn með það að markmiði að leiðrétta þennan grófa mismun, þann skort á mannréttindum þar sem mest hallar á í okkar samfélagi. Hér erum við að tala um mannréttindi sem ættu í rauninni að vera stjórnarskrárvernduð að því er þetta varðar og einn af þeim þáttum sem þyrfti að taka á í sambandi við endurskoðun á stjórnarskrá landsins sem einhvers staðar er til endurmats og endurskoðunar.
    Ég tel að sú endurskoðun á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, sem hæstv. ráðherra vék að og liggur fyrir hv. Nd. sem 437. mál
þingsins, sé þýðingarmikið skref og að af hálfu stjórnvalda og þingsins þurfi að leggja áherslu á að ljúka þeirri endurskoðun löggjafar sem fyrst. Þetta er að vísu ekki gömul löggjöf. Gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru frá 1985 og eru þau tekin til heildarendurskoðunar í þessu frumvarpi. Ég átti þess kost að koma að þessu máli þar sem ég átti sæti í nefndinni sem ráðuneytið kallaði til til þessarar endurskoðunar og það var ánægjulegt verkefni að leitast við að breyta og bæta þau lagaákvæði með þeim hætti sem tillögur liggja fyrir um í þessu frumvarpi.
    Eitt af því sem kemur fram í þessu frv., sem ég tel eðlilegt að rætt sé hér í sambandi við þessa skýrslu, er einmitt málsmeðferðin, málstökin af opinberri hálfu.

Þar hefur að okkar mati sem unnum að þessu máli og væntanlega að mati hæstv. ráðherra sem ber frv. fram skort verulega á að haldið væri á málum af löggjafans hálfu með þeim hætti að það væri líklegt til að skila sem bestum árangri. Það er t.d. ekki í gildandi lögum kveðið á um það sérstaklega hvaða ráðuneyti fari með þennan málaflokk þó í reynd sé það félmrn. sem með jafnréttismálin hefur farið í stjórnsýslunni. Í þessu frv. er þetta stjórnkerfi skilgreint á mun árangursríkari hátt, að ég tel, en í fyrirliggjandi lögum. Ég vænti þess að eftir að þetta frv. verður lögfest, væntanlega í aðalatriðum eins og tillögur liggja hér fyrir um, fáum við betri viðspyrnu í þessum málaflokki í heild sinni en við höfum í gildandi löggjöf.
    Þarna er rík áhersla á forustuhlutverk ráðuneytis og ábyrgð ráðherra í þessum málaflokki. Þar hefur nokkuð skort á. Það hefur ekki verið vísað á félmrh. sem hinn ábyrga aðila í þessum málaflokki, enda hefur löggjafinn ekki lagt honum þær skyldur á herðar eins og þyrfti. Jafnréttisráð, sem hefur miklu hlutverki að gegna í gildandi lögum og áfram samkvæmt því frv. sem liggur fyrir Nd., hefur verið í rauninni aðalaðalinn til þess að fjalla um þessi mál og taka á þessum málum. Þangað hafa mál verið send frá ráðuneytinu í ríkum mæli, þangað hafa erindi borist út úr þjóðfélaginu, þangað hefur borist fjöldi klögumála og umkvartana um það sem á skortir í sambandi við jafnréttismál og þar sem brotið er á í sambandi við jafnréttismál. Þarna er gert ráð fyrir breytingum. Ráðuneytið fái aukinn hlut. Sérstök kærunefnd jafnréttismála verði sett á laggirnar til að taka sérstaklega á þeim málaflokki að fylgjast með og sækja rétt þeirra sem á er brotið í sambandi við þessi efni og Jafnréttisráð á samkvæmt þeirri stefnu sem boðuð er í frv. að fá meira ráðrúm til að vera hinn stefnumarkandi aðili í þessum málum, það mætti kannski segja vakandi samviska í sambandi við meðferð jafnréttismálanna, stefnumörkun og tillögugerð.
    Þetta tel ég vera verulega til bóta fyrir það verkefni sem Jafnréttisráði er ætlað samkvæmt gildandi löggjöf og jafnframt er gert ráð fyrir því til einföldunar að ekki verði þörf á sérstakri ráðgjafarnefnd á vegum Jafnréttisráðs heldur geti ráðið tekið á þeim málum sjálft og hafi til þess meira ráðrúm, meiri tíma og væntanlega einnig starfsaðstöðu. Rannsóknir á þessu sviði yrðu ekki síst skipulagðar af Jafnréttisráði, en það skiptir mjög miklu máli að sem fyllstar upplýsingar liggi fyrir hverju sinni.
    Með þessu frv. er einnig verið að gera skilvirkari áætlunargerð á vegum stjórnvalda að jafnréttismálum með því m.a. að gera ráð fyrir fjögurra ára framkvæmdaáætlun sem Alþingi þurfi að taka afstöðu til í formi þál. Að öðru leyti verði jafnréttismálefnin árlegt viðfangsefni þingsins, alveg sérstaklega í tenglsum við fjárlagagerðina hverju sinni. Gert er ráð fyrir því að í fjárlagafrv. hvers árs verði gerð sérstök grein fyrir því hvaða áherslur eru lagðar í jafnréttismálum á vegum stjórnvalda, á vegum ríkisstjórnar sem frv. ber fram, og tel ég að það sé

mjög skynsamlegt að leggja á það áherslu, og þar er m.a. tekið mið af því sem gerist hjá nágrönnum okkar í Noregi og víðar.
    Virðulegur forseti. Ég verð að finna að því að ég heyri svona tæplega í sjálfum mér hér í ræðustól vegna samræðna hér í þingsal þó ekki séu margir. ( Forseti: Þetta er réttmæt athugasemd og vil ég biðja hv. þm. um að gæta þess að vera ekki með samræður í salnum.)
    Í frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er einnig gert ráð fyrir því að lögfesta jafnréttisnefndir á vegum sveitarfélaga þar sem íbúar eru 500 eða fleiri. Þetta tel ég vera mjög mikilsvert atriði. Það hafa vissulega verið starfandi jafnréttisnefndir á vegum nokkurra sveitarfélaga, en þær hafa ekki haft lagastoð og ekki skilgreint verkefni. Hér er þeim ætlað frumkvæði í þessum málum og tengdar reglubundnu starfi sveitarstjórna eins og aðrar lögboðnar nefndir í sveitarfélögum. Auk þess yrðu slíkar jafnréttisnefndir tengiliður bæði við ráðuneyti og Jafnréttisráð og þannig er fenginn farvegur frá byggðarlögunum til stjórnkerfisins hér á höfuðborgarsvæðinu, farvegur sem hefur vantað að væri nógu vel skilgreindur og markaður.
    Það er einnig gert ráð fyrir því að efnt verði til starfa jafnréttisráðgjafa, en það er mál sem hefur verið fyrir hv. Sþ. til umræðu og meðferðar, tillaga um ráðningu jafnréttisráðgjafa til þess að ryðja úr vegi hindrunum í vegi kvenna sérstaklega í stofnunum og fyrirtækjum um land allt. Hér er gert ráð fyrir því að slíkir ráðgjafar starfi ráðnir af félmrn. og
starfi í samvinnu við Jafnréttisráð til þess að ná fram markmiðum í jafnréttismálum, sérstaklega á vinnumarkaði. Þáltill. um þetta efni, sem ég á hlut að, er komin fram í rauninni inni í þessu frv. og ég hef ekki lagt áherslu á að hún kæmi sér á parti fyrir þingið til afgreiðslu vegna þess að undirtektir hafa fengist í frv. sem liggur fyrir hv. Nd. um þessi efni.
    Þetta eru nokkrar ábendingar af minni hálfu sem tengjast framtíðinni varðandi verkefni Alþingis í lagabótum til að bæta stöðuna á sviði jafnréttismála.
    Hæstv. ráðherra vék í sínu máli nokkuð að ástæðunum fyrir þeirri mismunun sem ríkir á milli kynjanna alveg sérstaklega á vinnumarkaði og hvað laun snertir. Þessi mismunur blasir við. Um það er ekki deilt. Á því sviði hafa verið gerðar athuganir og kannanir, úttektir. Ein af þeim liggur fyrir í riti frá Þjóðhagsstofnun sem ber heitið ,,Tekjur karla og kvenna``, gefið út í janúar 1989, og er þar að finna ýmsar gagnmerkar upplýsingar um þetta svið, þann mismun sem þarna liggur fyrir. En það er eitt atriði úr máli ráðherra sem ég vildi sérstaklega víkja að og snertir þetta.
    Hæstv. ráðherra taldi að það væri hinn kynskipti vinnumarkaður sem væri kannski meginorsökin fyrir þessum launamun í samfélaginu milli kynja og úrlausnarefnið væri því að draga úr þessum mismun, jafnvel afnema þennan kynskipta vinnumarkað og tryggja þannig að leiðrétting fáist. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að aukin þátttaka kvenna í störfum

sem hafa verið einlitar karlagreinum geti haft vissa þýðingu og sé jákvætt atriði litið á málið frá fleiri en einni hlið. En ég dreg mjög í efa að þetta sé lykillinn að lausn í sambandi við launamun. Ég held líka að það sé ekkert sjálfsagt markmið að stokka þarna upp spilin þannig að hlutur kynjanna á vinnumarkaði verði sem jafnastur í hinum einstöku störfum. Það er eitt og annað sem veldur því að vinnumarkaðurinn er nokkuð skiptur og verulega skiptur að þessu leyti og það eru ekki eingöngu neikvæðir þættir sem því valda. Þess vegna tel ég að við þurfum að leita úrræða til að leysa þennan launamun þrátt fyrir þennan kynskipta vinnumarkað og með þá staðreynd fyrirliggjandi því að hitt --- þó að það kunni að verða breyting á í þessum efnum á lengri tíma, aukinn hlutur kvenna í karlastörfum og þá væntanlega karla í kvennastörfum því að ekki er eðlilegt að ætla að þetta gerist bara frá einni hlið --- yrði allt of seinvirkt í þessum efnum og auk þess er ég ekkert viss um að markmiðið sé alveg sjálfgefið sem úrlausnarefni.
    Um þetta mætti margt segja, virðulegur forseti, en ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Það liggur fyrir sem eitt brýnasta úrlausnarefnið að bæta úr þessari mismunun í launamálum. Við skulu vona að eitthvað þoki í þá áttina í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið eða verið er að móta. Ég vil ekki leggja mat á það hér, en því er haldið fram af þeim sem hafa staðið að gerð þeirra samninga að þarna hafi náðst nokkur árangur í því efni að lyfta lægstu launum, lægstu tekjuhópunum, sem að miklum meiri hluta eru skipaðir konum þannig að það megi vænta nokkurs árangurs og við skulum vona að það gangi eftir. En ég vil ekki vera með neinar staðhæfingar í þeim efnum. Reynslan er þar besti dómarinn.
    Núv. ríkisstjórn hefur ætlað sér nokkurn hlut í sambandi við leiðréttingu á stöðu kynjanna, leiðréttingu á stöðu kvenna og það má vissulega benda á nokkra jákvæða þætti sem þar hefur verið tekið til. Ég nefni auknar fjárveitingar til dagvistarmála. Þó að þröngur væri stakkurinn í sambandi við fjárlög yfirstandandi árs var þar þó lagt fram aukið fé af hálfu ríkisins til þess aðeins að bæta stöðuna í sambandi við framkvæmdir í dagvistarmálum. Það er ekki óeðlilegt að það sé nefnt hér. Hins vegar er auðvitað svo víðs fjarri því að menn hafi þar eitthvað fram undan, markaða stefnu sem leysi þennan þátt mála sem snertir aðstöðu fjölskyldunnar og stöðu kvenna sérstaklega og barnanna auðvitað alveg sér á parti. Þar skotir mjög mikið á. En ég bind nokkrar vonir við þá stefnumörkun varðandi forskólastig sem er í mótun á vegum menntmrn. og vænti að komandi þing eigi eftir að fjalla um það mál, nýtt forskólastig sem taki við þegar fæðingarorlofi lýkur og ljúki þar sem grunnskólinn tekur við þar sem við fáum réttar áherslur á menntun og uppeldi barnanna á þessu viðkvæmasta stigi undir grunnskólaaldrinum og aðgerðir til að tryggja aðstöðu til þess að ná þeim markmiðum í endurmenntun, rétt foreldra til þess að koma börnum sínum fyrir eða að börn þeirra geti

dvalið á góðum menntastofnunum á þessu væntanlega fræðslustigi.
    Úrbætur í skólamálunum almennt, með samfelldum skóladegi, skólamáltíðum og margvíslegir fleiri þættir, ekki síst varðandi innri starfsemi skólanna, fjölda í bekkjum og náttúrlega varðandi námsefnið að því er kyngreininguna snertir, allt eru þetta mjög þýðingarmiklir þættir í sambandi við jafnréttismálin og að þeim málum er unnið að ég hygg meira nú en verið hefur um langt skeið á vegum menntmrn. til þess að ná fram úrbótum. Þar væntum við að sjá árangur áður en langt um líður því að þetta er mjög þýðingarmikið svið.
    Hæstv. ráðherra hefur verið að þoka fram hugmyndum varðandi jafnréttisáætlanir á vegum ráðuneyta. Ég tel það vera góðar áherslur af hálfu
ráðherrans og margt af því sem hún hefur verið að ýta á eftir á vegum síns ráðuneytis og í samvinnu við aðra í ríkisstjórn horfir til réttrar áttar. Þó að okkur finnist seint miða er skylt að nota öll tiltæk skynsamleg ráð til þess að fá fram breytingar í þessum efnum.
    Hér á þinginu hefur verið hreyft ýmsum málum af ríkisstjórn og einstökum þingmönnum sem snerta jafnréttismálin. Ég hef nefnt jafnréttisráðgjafana í þessu sambandi. Ég nefni tillögur um eflingu kjararannsókna sem ályktað var um hér á Sþ. ekki alls fyrir löngu. Þar er um að ræða rannsóknarsvið sem skiptir miklu til þess að geta metið rétt stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum og þannig mætti rekja fleiri dæmi þar sem þingmenn hafa borið fram tillögur sem hafa fengið undirtektir hér og snerta þetta málasvið.
    Virðulegur forseti. Það væri ástæða til að fara mun víðar um völl, m.a. varðandi alþjóðatengsl í þessum málaflokki sem nokkuð er fjallað um í skýrslu hæstv. ráðherra. Ég ætla hins vegar ekki að taka hér tíma til þess. Á vegum Norðurlandaráðs, þar sem ég á sæti nú um stundir, er talsvert um þessi mál fjallað. Á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur verið tekið á þessum málum og Ísland er aðili að alþjóðasamningi um afnám mismununar á stöðu kvenna, sáttmáli sem staðfestur var af Alþingi og ríkisstjórn 1985. Þar er að finna viðspyrnu sem skylt er að nota og ég hvet hæstv. ráðherra til að nýta þau ákvæði sem þar er að finna einnig til þess að ná fram þeim málum sem snúa að okkar heimaranni í sambandi við þá grófu mismunun sem hér blasir við varðandi stöðu kvenna sérstaklega. Ég vænti þess að næst þegar við ræðum þessi mál á grundvelli skýrslu frá framkvæmdarvaldinu hafi menn eitthvað greikkað sporið í þessum efnum, þá hafi mönnum tekist að greikka sporið til þess að brúa þær gjár sem enn eru til staðar í aðstöðu kynjanna í þjóðfélaginu. Ég vil einnig hvetja til þess að þeir sem sinna þessum málum í sambandi við endurskoðun á stjórnarskrá landsins líti einnig til þessa málaflokks, hvort ekki sé þörf á því að taka inn í stjórnarskrána skýrari og ákveðnari atriði til þess að tryggja jafnstöðu kynjanna í landinu.
    Í frv. sem ég hef gert að umtalsefni hér er að

finna styrkari ákvæði varðandi viðurlög og réttarfar sem eiga að tryggja betri stöðu fyrir konur til að sækja sinn hlut og verja sinn rétt en verið hefur, en við höfum orðið vitni að því að gildandi löggjöf hefur ekki gefið þá aðstöðu og viðspyrnu á þessu sviði sem skyldi.
    Þannig þurfum við hvarvetna að reyna að stoppa í götin varðandi jafnréttismálin sem við köllum svo til þess að bæta okkar samfélag með því að þoka þessum málum til rétts horfs og ná þar mun hraðar fram en verið hefur á undaförnum árum eftir að þessi mál fengu þó þann hljómgrunn í þjóðfélaginu sem raun ber vitni og endurspeglast m.a. í þessari umræðu um skýrslu hæstv. ráðherra þó ekki séu fjölskipaðir þingbekkirnir undir umræðu.