Íslenskur gjaldmiðill
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er ekki skrýtið að hv. flm. þessarar tillögu sem er til umræðu skuli vera nokkuð beiskur þar sem hér er verið að ræða á síðustu dögum þingsins jafnmikilvæga tillögu og hann hefur leyft sér að flytja. Þegar litið er yfir þingsali kemur í ljós að ekki einn einasti ráðherra, fulltrúi framkvæmdarvalds, er viðstaddur. Kannski hefði verið ástæða til þess að gefa hæstv. viðskrh. kost á því að ræða þetta mikilvæga mál við hv. þm., ekki síst vegna þess að hér er verið að tala um undirstöðuatriði í íslenskri efnahagsstefnu á hverjum tíma, þ.e. hvernig fara á með gengismál þjóðarinnar.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. að samkvæmt lögum á Seðlabankinn að skrá gengi íslensku krónunnar. Þar á að styðjast fyrst og fremst við tvennt, annars vegar stöðugleika gengisins en hins vegar við það að reyna að koma á jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd.
    Það er hins vegar þannig að í lögunum eru ákvæði sem hafa verið skilin á þann veg að það sé í raun ríkisstjórn á hverjum tíma sem ráði gengisskráningunni. Fyrir örfáum dögum urðum við vitni að því þegar hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um að lækka gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendri gjaldmynt um 1,5% og síðan heimild fyrir Seðlabankann að breyta genginu sem nemur um 2,25%. Nú spyr maður: Í hvaða skyni er þetta gert? Svarið liggur á borðinu. Það er gert til þess að koma í veg fyrir áhrif kjarasamninga. Það er gert til þess að koma í veg fyrir að kaupmáttur aukist þrátt fyrir að fleiri krónur komi í umslagið. Með öðrum orðum er hæstv. ríkisstjórn að sjá til þess með þessari ráðstöfun að kauphækkunin sem varð í kjarasamningum verði í raun engin. Þetta er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt vegna þess að fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar um að atvinnuvegirnir geti ekki geitt hærri laun.
    Ef við skoðum þetta í samhengi við seðlabankalögin má kannski halda því fram að þarna sé ríkisstjórnin að reyna að halda genginu sem stöðugustu miðað við þessi innri skilyrði. Lítum hins vegar á hallann í viðskiptum við útlönd. Þá kemur í ljós að það er stefna hæstv. ríkisstjórnar að hafa hallann við útlönd 10 milljarða á þessu ári. Með öðrum orðum: Það er pólitísk stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að á degi hverjum náist ekki endar saman í viðskiptum við útlönd upp á 30--40 millj. kr. Þetta er ekki ómeðvitað. Þetta er stefna íslenskra stjórnvalda sem auðvitað brýtur gersamlega í bág við þau lög sem gilda í landinu um Seðlabanka Íslands og gengisskráninguna. Hæstv. ríkisstjórn stendur nákvæmlega á sama. Hún kemur ekki hér í sali, ræðir ekki þetta mál og ég held að enginn af þingmönnum hæstv. ríkisstjórnar muni nenna að koma í ræðustól til að verja hæstv. ríkisstjórn. Og ráðherrarnir sjást ekki hér í dag.
    Það er alveg ljóst að þessi tillaga sem er til umræðu á fullt erindi inn á þing og þyrfti helst að samþykkjast á yfirstandandi þingi því hér er tekið á

jafnveigamiklu máli og því hvernig standa skuli að gengisskráningu í framtíðinni. Á að gera það með því að hafa hér sjálfstæðan seðlabanka eins og sums staðar hefur verið gert? Á að gera það með því að tengja íslenska gjaldmynt erlendri gjaldmynt eða erlendum gjaldmyntum þannig að það verði ekki hægt að þrýsta á ríkisstjórnina til þess að leiðrétta gengið þegar illa hefur árað eða þegar atvinnulífið hefur sjálft tekið ákvarðanir um að greiða meira úr sínum sjóðum en atvinnulífið hefur efni á? Eða á gengi íslensku krónunnar að vera frjálst, afskipti Seðlabankans nánast engin og skráning gengisins eingöngu eins og kaupin gerast á eyrinni á hverjum tíma, þannig að söluverð á gjaldmiðlinum verður ekki meira en kaupendurnir vilja greiða fyrir á hverjum tíma? Að mínu viti er þetta síðastnefnda ekki mögulegt nema tekjuöflunartækin, þau tæki sem við notum til að afla tekna til útflutnings, verði líka gefin frjáls. Þá á ég við sjálfan fiskveiðikvótann. Þá á ég við að það sé útilokað að minni hyggju að hafa frjálsa gengisskráningu hér á landi nema að sala á veiðileyfum verði líka gefin fjráls. Það er undirstöðuatriði. En hér í þessum þingsölum hefur enginn áhuga á þessum málum að því er manni virðist, a.m.k. ekki hæstv. ráðherrar sem láta ekki sjá sig.
    Það er jafnframt ljóst að þessu máli tengjast önnur mjög veigamikil mál. Eins og hvernig á að koma í veg fyrir þær miklu hagsveiflur sem verða vegna sveiflna í sjávarútvegi. Hvernig er hægt að koma því við að hjá fyrirtækjunum sjálfum í viðkvæmustu greinunum, þ.e. útflutningsgreinunum, séu sjóðir, verðjöfnunarsjóðir, þannig að góðæri í sjávarútvegi leiði ekki til þess að lífskjör allra annarra hækki jafnframt án þess að nokkur verðmætasköpun verði hjá öðrum atvinnugreinum en sjávarútveginum? Hvernig getum við byggt upp kerfi þar sem sjávarútvegurinn sérstaklega og jafnvel iðnaðurinn á sumum sviðum, þ.e. þau iðnfyrirtæki sem stunda útflutning á vöru þar sem verð er sveiflukennt, geymi fjármagn til mögru áranna? Allt eru þetta atriði sem þessi nefnd, sem hér er gert ráð fyrir að verði sett á laggirnar, þyrfti að kanna. En því miður held ég að það sé enginn áhugi á þessum málum hjá hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn hefur nefnilega enga stefnu í þessum málum aðra en þá að elta kaupbreytinguna innan lands með gengisbreytingum og sjá til þess að hallinn í viðskiptum við útlönd verði a.m.k. 10 milljarðar í ár. Það er stefna hæstv. ríkisstjórnar. Þessa stefnu hefur hæstv. ríkisstjórn undirstrikað í dag með því að vera ekki viðstödd þessar mikilvægu umræður.