Útboð opinberra rekstrarverkefna
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till. sem hér er til umræðu. Mér er þó málið skylt því um er að ræða till. sem ég leyfði mér að flytja fyrr á þessu þingi.
    Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til þess að þakka formanni fjvn., hv. 5. þm. Vestf., fyrir að hafa ásamt öðrum hv. fjárveitinganefndarmönnum gefið sér tíma til þess að ræða þessi mál og afgreiða till. í þessu formi sem ég hygg að sé betra en upphaflega var gert ráð fyrir í sjálfri tillgr. Mér finnst afar mikilvægt að Alþingi ræði þessi mál og þá ekki síst fjvn. Sjálfur hef ég átt sæti í fjvn. og veit hve erfitt það er að ná sæmilegu yfirliti yfir ríkisreksturinn og hve sjaldan er í raun tekið nægilega mikið mark á ábendingum sem koma frá fjvn. Ég held því að það sé vel við hæfi að niðurstöður þessarar könnunar verði lagðar fyrir Alþingi og þá getur fjvn. og jafnvel sameinað þing fjallað betur um þetta mál, sem ég held að sé mun stærra en almennt hefur verið álitið. Byggi ég þá skoðun mína m.a. á því að slíkt starf hefur farið fram í nágrannalöndunum og gefist vel. Satt að segja var kveikjan að því að till. var flutt sú að sá sem hér stendur sá leiðbeiningar fyrir dönsku ráðuneytin sem skrifaðar voru af samsvarandi stofnun í Danmörku og Hagsýslustofnun er hér í íslenska stjórnkerfinu. Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um till. en vil enn á ný þakka hv. nefnd fyrir þessar undirtektir og fyrir að hafa betrumbætt texta tillgr. sem ég að sjálfsögðu styð.