Flm. (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að heimila Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins að gera forkönnun á mögulegri staðsetningu og gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Íslandi.``
    Flm. eru hv. þm. Halldór Blöndal, Ingi Björn Albertsson, Guðmundur H. Garðarsson, Hreggviður Jónsson, Pálmi Jónsson, Kristinn Pétursson, Einar Kr. Guðfinnsson og Eggert Haukdal, auk þess sem hér stendur.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, setja á langa ræðu um þetta mál. Þetta mál hefur verið rætt mjög ítarlega á hv. Alþingi í vetur og leyfi ég mér að vitna til ummæla sem urðu utan dagskrár í sameinuðu þingi hinn 20. febr. sl. um þetta mál. Ég tel að sú umræða og það svar við fyrirspurn, sem ég beindi til utanrrh. fyrr á þinginu, leiði það í ljós að það er ekki eftir neinu að bíða að taka ákvörðun um þessa forkönnun ef menn á annað borð ætla sér að taka þá ákvörðun. Fyrr á þinginu svaraði utanrrh. skriflega fyrirspurn minni um þetta mál og það svar liggur fyrir á þskj. 193. Að auki liggja hér fyrir allar þær upplýsingar sem fram komu í fyrrgreindum umræðum utan dagskrár 20. febr. sl.
    Ég ætla ekki við þetta tækifæri, virðulegi forseti, að taka upp miklar efnislegar umræður um þetta mál. Till. er ekki síst flutt til þess að fram komi vilji meiri hluta Alþingis í þessu máli, en ég hygg að vilji meiri hluta þingmanna standi til þess að sú könnun, sem hér er lagt til að ályktað verði um, verði framkvæmd. Till. er flutt til að auðvelda utanrrh. að taka þessa ákvörðun, en það virðist sem hann hafi verið í einhverjum bögglingi með að taka hana vegna andstöðu annarra aðila að þessu stjórnarsamstarfi. Till. er flutt til þess að auðvelda hæstv. utanrrh. að taka þessa ákvörðun þrátt fyrir andstöðu einhverra samstarfsaðila. Hún er flutt til þess að fá fram vilja Alþingis í málinu þannig að það fari ekkert á milli mála að ef hæstv. ráðherra leyfir þessa forkönnun hafi hann til þess stuðning meiri hluta þingsins.
    Um efnisatriði að öðru leyti vil ég leyfa mér að vitna til umræðna hinn 20. febr. sl., ekki síst ræðu hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens og hæstv. utanrrh. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að till. verði vísað til hv. utanrmn. og síðari umræðu.