Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki vera margorð af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki kynnt mér efni þessarar skýrslu nægilega til að vera þess umkomin að fjalla um hana á sómasamlegan hátt. Við fljótlegt yfirlit er þó augljóst að í þessari skýrslu eru mikilsverðar upplýsingar sem full þörf hefði verið á að hafa langa og góða umræðu um. Það kemur fram í efnisyfirliti, sem handhægt er að fara yfir, að fjallað er um hlutverk og starfshætti umboðsmanns Alþingis, birtar ýmsar tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslu þeirra árið 1988 svo og álit og aðrar niðurstöður í málum afgreiddum árið 1988 og að auki nokkur fylgiskjöl. Sem sagt hinar ýmsu upplýsingar. Allt þetta er fyllsta ástæða til að athuga vel. Það er að mínu viti mjög hart að hafa ekki fengið ráðrúm til að kynna sér efni þessarar skýrslu í þeim miklu önnum sem nú ríkja á Alþingi.
    Ég vek athygli á því að skýrslan var send Alþingi 23. febr. 1989. Nú man ég ekki nákvæmlega hvaða dag henni var útbýtt á Alþingi en það er ekki mjög langt síðan og verður að teljast mjög bagalegt að ekki hafi gefist meiri tími til þess að athuga efni hennar. Hér er um að ræða framkvæmd ákaflega mikilsverðrar og merkrar löggjafar sem sett var til þess að bæta réttarstöðu almennings og það varðar okkur mjög miklu hvernig til tekst. Því vil ég enn og aftur lýsa vonbrigðum mínum með það litla ráðrúm sem alþingismönnum hefur gefist til að lesa þessa skýrslu og fjalla um hana.
    Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni með þá reynslu sem fengin er af störfum umboðsmanns Alþingis hingað til, en vil reyndar jafnframt, eins og fyrri ræðumenn hér, lýsa megnri óánægju með viðbrögð framkvæmdarvaldsins sem mér virðist hafa sýnt þessu embætti óvirðingu. Ég hlýt að taka undir óskir manna um að framkvæmdarvaldið taki sig á í þessu efni. Ég vil sérstaklega benda á fáein orð á bls. 6 þar sem umboðsmaður Alþingis segir, með leyfi forseta:
    ,,Ég dreg ekki dul á, að í nokkrum tilvikum hefur dregist úr hófi, að ráðuneyti hafi orðið við tilmælum mínum um greinargerð og upplýsingar. Í fæstum þeirra tilvika hafa þau staðfest móttöku erindis eða gert grein fyrir töfum á svörum. Hefur þessi framkoma orðið mér tilefni til þess að rita forsrh. bréf og óska upplýsinga um það, hvort ráðuneyti fylgi ekki einhverjum starfsreglum um svör við erindum, sérstaklega þegar afgreiðsla dregst lengur en ástæða er til að vænta.``
    Þetta eru mjög athyglisverð orð í þessari skýrslu umboðsmanns Alþingis og hlýt ég að láta í ljósi þá von mína að framkvæmdarvaldið sjái að sér og sýni þessu embætti fullan sóma og virðingu. Ég vil svo aðeins að lokum óska sérstaklega eftir því að í framtíðinni verði gefið betra ráðrúm til umræðna um skýrslu af þessu tagi en nú varð raunin þar sem hér er um svo mikilsvert mál að ræða.