Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Þetta er aðeins örstutt. Vegna þeirra orða sem hv. 4. þm. Reykn. lét falla um stjórnarskrána og athugun hennar og vegna þeirrar tillögu sem hann bar fram um skipun nefndar sérfróðra aðila til að fara sérstaklega í mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar, þá er ég síður en svo andvíg þeim hugmyndum sem hann setur fram. En ég vildi einungis árétta það að miklu fljótlegri og beinni leið er einfaldlega að lögtaka ákvæði Mannréttindasáttmálans sem við erum aðilar að, þ.e. samþykkja þau í almennum lögum.
    Við höfum af því reynslu hve langan tíma það tekur að breyta stjórnarskránni og það gilda lög um að það þurfi að gerast með tilteknum mjög seinvirkum hætti, enda leysum við ekki málið með nokkrum stjórnarskárákvæðum. Við höfum þá ekki leyst þann þátt málsins sem umboðsmaður víkur að í skýrslu sinni, þ.e. að lögtaka sáttmálana eða kafla þeirra. Hann segir í skýrslunni á bls. 45, með leyfi hæstv. forseta: ,,Aðstaðan hér er sú að íslensk lög ganga a.m.k. að ýmsu leyti skemmra í vernd mannréttinda en þessir sáttamálar. Getur þetta valdið vanda í lagaframkvæmd hér á landi. ...``
    Umboðsmaðurinn bendir þá á tvenns konar úrræði, annars vegar á stjórnarskrárákvæðin og hins vegar, eins og segir á bls. 46: ,,Ég tel einnig, að mjög kæmi til greina, að umræddir mannréttindasáttmálar eða hlutar þeirra verði teknir í íslensk lög.``
    Við þurfum ekki að vanefna þessa sáttmála þó að þeir séu ekki orðréttir í íslenskum lögum. Hins vegar vildi ég árétta þá skoðun mína að ég tel að við aukum stórlega réttaröryggi einstaklinga í landinu ef við hverfum að því ráði, eins og reyndar meiri hluti þeirra þjóða sem eru aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu hafa gert. Ég segi enn og aftur: Ég veit ekki hvað okkur ætti að vera að vanbúnaði.